Flestum íbúum Kaupmannahafnar er í fersku minni úrhellið laugardaginn 2. júlí árið 2011, fyrir réttum sex árum. Úrkoman mældist 150 millimetrar á tveimur klukkustundum. Það voru ekki bara elstu menn sem ekki mundu annað eins; Síðan reglubundnar úrkomumælingar hófust í borginni árið 1874 hefur aldrei mælst þar jafn mikil úrkoma og þennan laugardagseftirmiðdag, daginn eftir kom líka myndarleg demba. Margar götur í miðborginni voru líkastar stórfljóti yfir að líta.
Þótt borgarbúar hafi staðið agndofa af undrun yfir úrhellinu gerðu líklega fæstir þeirra sér grein fyrir afleiðingunum.
Allt á floti alls staðar
Tjónið var gríðarlegt, mörg hundruð kjallarar í miðborginni, og víðar, fylltust af vatni sem eyðilagði allt sem fyrir varð. Vatn flæddi upp úr niðurföllum, vöskum og salernum, talið er að milljón rottur sem höfðu lifað góðu lífi í klóakrörum borgarinnar hafi drepist. Enginn saknaði þeirra en mikil sýkingarhætta sem myndaðist kostaði einn mann lífið. Sex manns brenndust illa á fótum af völdum gufu þegar hitakútur tengdur fjarvarmaveitu sprakk. Rafmagn fór af þúsundum húsa, minnstu munaði að vatn kæmist í rafmagnstöflur og vararafstöðvar Ríkisspítalans, sem er fyrir utan miðborgina, og búið var að gera ráðstafanir til að flytja 1.400 sjúklinga á önnur sjúkrahús en til þess kom ekki. Eldhúsið í Vestre Fængsel, í vesturhluta borgarinnar, fylltist af vatni og fangar og starfsfólk, samtals 600 manns, voru í nokkra daga í fastafæði hjá skyndibitastaðnum McDonalds. Miklar skemmdir urðu á tónleikasal Tívolís og lestasamgöngur fóru úr skorðum. Margt fleira mætti nefna.
Tjónið metið á 6 milljarða danskra króna
Strax varð ljóst að fjárhagslegt tjón væri mikið. Tilkynningar um tjón af völdum flóðsins voru rúmlega 90 þúsund. Í nýlegri skýrslu kom fram að samtals hefði fjárhagslegt tjón numið sex milljörðum króna (um það bil 92 milljörðum íslenskra króna) en það segir þó ekki alla söguna. Danska ríkið og Kaupmannahafnarborg tryggja ekki húseignir sínar þannig að tjónið var í raun mun meira. einn tryggingasérfræðingur nefndi töluna 10 milljarða.
Ekki seinna vænna að bregðast við
Þótt úrhellið í júlíbyrjun 2011 hafi valdið miklu tjóni er þó önnur hætta, og að mati sérfræðinga alvarlegri, sem vofir yfir Kaupmannahöfn og fleiri svæðum á Sjálandi. Það er hættan á stormflóði.
Á síðustu árum hafa stormflóð nokkrum sinnum valdið talsverðu tjóni. Árin 2012, 2013 og 2016 varð allmikið tjón á svæðum kringum Hróarskeldufjörðinn, en þá hækkaði sjávarborð um meira en tvo metra og í janúar á þessu ári endurtók sagan sig, að þessu sinni í Kaupmannahöfn. Í öll skiptin var það langvarandi stífur vindur sem þrýsti sjónum að landi. Þótt hættan af stormflóðum hafi lengi verið ljós hafa síendurtekin flóð á síðustu árum ýtt við stjórnvöldum. Þau ætla ekki að láta sitja við orðin tóm.
Það er mikið í húfi því sérfræðingar borgarinnar telja, samkvæmt nýrri skýrslu, að ef ekkert yrði að gert gæti kröftugt stormflóð valdið tjóni sem í peningum mælt, gæti numið að minnsta kosti 20 milljörðum króna (um það bil 310 milljörðum íslenskra króna). Kostnaður við flóðavarnirnar er talinn nema allt að 4 milljörðum króna (um það bil 62 milljörðum íslenskra króna).
Hættan er mest á flóði úr suðri
Eyjan Amager og hluti Norðurhafnarinnar í Kaupmannahöfn eru að mati sérfræðinga þau svæði sem eru í mestri hættu af völdum stormflóða. Varnargarðar hafa þegar verið reistir að hluta á suðvesturhluta Amager og vinna stendur yfir við gerð garðs sunnan við flugvallarsvæðið á Kastrup.
Á austurhluta Amager er gert ráð fyrir varnargörðum á löngum kafla og enn fremur í Norðurhöfninni þar sem miklar byggingaframkvæmdir hafa staðið yfir á síðustu árum og er ekki nærri lokið. Slíkum varnargörðum er hins vegar ekki mögulegt að koma fyrir á innra hafnarsvæðinu í Kaupmannahöfn, með fram miðborginni, Íslandsbryggju og á Kristjánshöfn. Þar verður að finna aðrar lausnir. Á síðustu árum hefur einmitt mikið verið byggt á gömlu hafnarsvæðunum, Norður-og Suðurhöfninni og sömuleiðis á austurhluta Amager.
Sjávarhlið
Sérfræðingar borgarinnar leggja til að við Norðurhöfnina verði komið upp eins konar hliði, tvískiptu, sem hægt verði að loka þegar á þarf að halda. Minna samskonar hliði, eða loku, verði komið fyrir sunnan við hafnarsvæðið, við hraðbrautina sem liggur frá Sjálandi og inn í átt að miðborginni og yfir til Svíþjóðar. Ekki hefur þó verið tekin endanleg ákvörðun um að koma fyrir slíkum hliðum en aðferðin er þekkt.
Sammála um flóðavarnirnar
Þótt oft sé hart tekist á í borgarstjórn Kaupmannahafnar og iðulega hver höndin upp á móti annarri, ekki síst varðandi skipulagsmál, eru borgarfulltrúar á einu máli um að flóðavarnirnar þoli enga bið og strax þurfi að halda áfram verkinu sem þegar er hafið eins og áður sagði. Tryggja verði það fjármagn sem til þurfi. Í skýrslunni sem áður var á minnst er sett fram lausleg framkvæmdaáætlun og samkvæmt henni ætti þessu flóðavarnaverkefni að verða lokið árið 2030.