Mynd: EPA

Hagsmunir Íslands í Brexit í sjö myndritum

Bretland er þriðja stærsta viðskiptaland Íslands. Hagsmunir Íslands í Brexit-viðræðunum eru þess vegna miklir og óvissan eftir því.

Ísland á mjög mikilla hagsmuna að gæta í utanríkisviðskiptum við önnur lönd í heiminum. Íslenskur útflutningur er ekkert sérstaklega fjölbreyttur og byggist að mestu leyti upp á þremur stoðum; Sjávarútvegur, áli og ferðaþjónustu.

Sé litið marga áratugi aftur í tímann þá ber útflutningur sjávarafurða hitan og þungann af viðskiptum Íslendinga við umheiminn. Útflutningur áls og járnblendis bættist við á síðasta áratug 20. aldarinnar og hefur sá geiri vaxið síðan. Á undanförnum árum hefur svo gríðarleg aukning ferðamanna hér á landi stækkað kökuna enn frekar og myndar sá geiri nú stærstan hluta utanríkisviðskipta Íslands

Á aðeins örfáum árum hefur ferðaþjónustan orðið lang stærsti liður útflutnings vöru og þjónustu frá Íslandi. Árið 2013 áttu ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn svipað stóra hlutdeild í útflutningi, eða um 26 prósent. Útflutningur iðnaðarvara var þá stærsti liðurinn, tæplega 30 prósent.

Aðeins þremur árum síðar árið 2016 var ferðaþjónustan orðin lang stærsti geirinn í þessum samanburði og bar ábyrgð á tæplega 40 prósent útflutnings vöru og þjónustu. Sjávarútvegurinn var 19,5 prósent og útflutningur iðnaðarvara tæplega 23 prósent.

Helstu liðir útflutnings vöru og þjónustu 2013

Heimild: Hagstofa Íslands.

Helstu liðir útflutnings vöru og þjónustu 2016

Heimild: Hagstofa Íslands.

Helstu viðskiptalönd Íslands eru í næsta nágrenni. Þau eru nær undantekningarlaust það sem í daglegu tali eru kölluð Vesturlönd og eru lang flest á norðurhveli Jarðar.

Þrjú lönd skera sig úr, það eru Bandaríkin, Holland og Bretland. Utanríkisviðskiptin við þessi lönd námu meira en 200.000 milljónum króna árið 2015.

Utanríkisviðskipti Íslands árið 2015

Samanlagður út- og innflutningur vöru og þjónustu við stærstu viðskiptalönd Íslands.
Heimild: Hagstofa Íslands.

Þegar rýnt er í samanlagðan út- og innflutning vöru og þjónustu við þrjú stærstu viðskiptalönd Íslands sést að meirihlutinn ræðst af útflutningi, eða ríflega 62 prósent.

Útflutt þjónusta, þe. ferðaþjónusta, er stærsti hluti viðskiptanna við Bandaríkin. Vöruútflutningur er langstærsti hluti viðskipta við Holland, enda fer nær allt álið sem framleitt er hér á landi í gegnum stórskipahafnir þar í landi.

Viðskiptin við Bretland byggjast hins vegar að miklu leyti upp á útflutningi sjávarafurða. Breskir ferðamenn eru einnig fjölmennir hér á landi.

Hlutfall utanríkisviðskipta við Bretland af heild 2015

Verslun við Bretland nemur nærri 12 prósent af öllum utanríkisviðskiptum Íslands
Heimild: Hagstofa Íslands.

Hlutdeild vinnslugreina í útflutningi til Breltands árið 2015

Sjávarafurðir eru tæplega 67% alls útflutnings til Bretlands.
Heimild: Hagstofa Íslands.

Viðskiptin við Bretland námu tæplega 12 prósent af öllum utanríkisviðskiptum Íslands árið 2015. Stærstur hluti viðskiptanna er útflutningur vöru og af þeim viðskiptum hefur sjávarútvegur mestra hagsmuna að gæta. Tæplega 67 prósent alls útflutnings til Bretlands voru sjávarafurðir.

Brexit hefur þegar haft mikil áhrif

Áhrif ákvörðuna Breta komu fram strax og ákvörðunin hafði verið tekin. Hún kom mörgum stjórnmálaskýrendum á óvart, enda höfðu kannanir bent til þess að meirihluti fólks mundi vilja að Bretland yrði áfram í Evrópusambandinu.

Gengi dollars gagnvart pundi

Mánaðarmeðaltal miðgengis dollars janúar 2015 til júní 2017 samkvæmt skráningu Englandsbanka
Heimild: Englandsbanki.

Gengi breska pundsins tók skarpa dýfu í kjölfar þess að breska þjóðin kaus að ganga úr Evrópusambandinu í júní 2016. Á línuritinu hér að ofan má sjá gengi dollars í pundum.

Gengi punds og dollars gagnvart íslenskri krónu

Mánaðarmeðaltal miðgengis dollars janúar 2015 til júní 2017 samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands
Heimild: Seðlabanki Íslands.

Gagnvart íslenskri krónu hafa þessir tveir gjaldmiðlar, breskt pund og Bandaríkjadalur, veikst nokkuð á undanförnum misserum. Breska pundið hefur hins vegar veikst mun meira, gagnvart æ sterkri íslenskri krónu, en bandaríski dollarinn.

Brexit setur stórt strik í reikninginn

Í júní í fyrra ákvað breska þjóðin að segja sig úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bret­land hefur verið aðili að ESB síðan árið 1973 og hefur verið aðili að sam­eig­in­legum mark­aði Evr­ópu. Ísland er einnig aðili að þeim mark­aði í gegnum samn­ing­inn um evr­ópska efna­hags­svæðið (EES-­samn­ing­inn). Auk gam­als frí­versl­un­ar­samn­ings síðan 1972, sem Ísland er aðili að í gegnum EFTA-­sam­starf­ið, er EES-­samn­ing­ur­inn eini ramm­inn um við­skipti Íslands og Bret­land.

Útganga Bret­lands úr ESB getur þess vegna haft mikil áhrif á við­skipti milli Íslands og Bret­lands. Íslenskt efna­hags­líf þess vegna mik­illa hags­muna að gæta í samn­inga­við­ræðum ESB og Bret­lands.

Í fimmtu grein Lisbon-sáttmálns segir að aðildarríki geti sagt sig úr Evrópusambandinu. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, virkjaði þessa grein sáttmálans í lok mars á þessu ári og setti um leið skeiðklukkuna í gang. Hún má, samkvæmt þessu sama ákvæði, tifa í tvö ár áður en Bretland er ekki lengur hluti af samþykktum og sáttmálum Evrópusambandsins. Jafnvel þó ekki verði búið að semja um hvernig útgöngunni verði háttað.

Samningaviðræður milli ESB og Bretlands hófust svo í lok síðasta mánaðar. Niðurstöður þessara samningaviðræðna skipta íslenskan efnahag miklu máli, enda eru engir aðrir fríverslunarsamningar í gildi við Bretland aðrir en EES-samningarnir.

Mýkri nálgun líklegri

Eftir þingkosningarnar í Bretlandi 8. júní síðast liðinn hafa líkurnar á mýkri sambandsslitum Bretlands og ESB aukist nokkuð. Í kosningunum hlaut flokkur forsætisráðherrans May mun lélegri kosningu en áætlað hafði verði þegar boðað var til kosninganna. Kosningarnar áttu að styrkja umboð May í samningaviðræðunum við ESB og tryggja stuðning þingsins við skýran aðskilnað við meginlandið.

Samtök atvinnulífsins (SA) hafa greint mögulegar sviðsmyndir sem gætu skapast við Brexit í mars 2019. Greiningin var kynnt á fundi í síðustu viku og er hún aðgengileg á vef SA. Tvær leiðir eru færar.

Mýkri nálgun

 • Bretlandsmarkaður yrði ennþá hluti af innri markað
 • Evrópusambandsins.
 • Gagnkvæmur staðfesturéttur fyrirtækja milli Bretlands og ríkja
 • ESB.
 • Frjálst flæði fjármagns milli Bretlands og ríkja ESB.
 • Frjálst flæði vinnuafls milli Bretlands og ríkja ESB með
 • minniháttar takmörkunum.
 • Gagnkvæm viðurkenning á réttindum milli Bretlands og ríkja
 • ESB.
 • Bretland myndi áfram þurfa að greiða framlög til fjárlaga ESB.
 • Bretland myndi áfram þurfa að taka upp löggjöf ESB.
 • Bretland hefði takmörkuð áhrif á stefnu ESB.
 • Bretland hefði takmörkuð áhrif á þróun löggjafar ESB.

Skýr aðskilnaður

 • Bretland verður ekki lengur hluti af innri markað
 • Evrópusambandsins.
 • Bresk fyrirtæki og breskir þegnar munu ekki lengur njóta
 • ávinnings af fjórfrelsi Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. frjálsu
 • flæði vara, þjónustu, fjármagns og vinnuafls.
 • Bretar búsettir innan ESB og þegnar ESB-ríkja búsettir í Bretlandi
 • munu þurfa að sérstakt leyfi til dvalar.
 • Bretland mun ekki þurfa að taka upp löggjöf ESB.
 • Bretland öðlast fullt frelsi til að mynda eigin stefnu og setja eigin
 • löggjöf um skatta, vinnulöggjöf, fjárfestingar innanlands og
 • eignarhald.
 • Bretland mun þurfa að gera fríverslunarsamning við ESB um
 • markaðsaðgang fyrir vörur og þjónustu.
 • Bretland mun þurfa að sækja á ný um fullgilda aðild að WTO.

Eftir því hver niðurstaða samningaviðræðnanna verður, þá eru fjórar sviðsmyndir sem standa Íslendingum til boða eftir útgöngu Bretlands.

Ef mjúka nálgunin nær fram að ganga verður Bretland hugsanlega ennþá hluti af sameiginlega markaði Evrópusambandsins og Ísland nýtur enn þeirra kjara í Bretlandi og fyrir Brexit.

Ef aðskilnaðurinn verður ekki eins mjúkur gæti Bretland kosið að semja við EFTA um fríverslun við Ísland, Liechtenstein, Sviss og Noreg. Ísland og Bretland gætu einnig gert tvíhliða samning um áframhaldandi viðskiptasamband.

Nái engin þessara leiða fram að ganga gilda WTO-reglur um utanríkisverslun milli landanna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar