Margir aðilar í ferðaþjónustu telja rekstur hennar bera skaða af orkuvinnslu og virkjanaframkvæmdum víða um landið. Þetta er niðurstaða greinar Önnu Dóru Sæþórsdóttur og Þorkels Stefánssonar í nýjasta tölublaði Tímarits um viðskipti og efnahagsmál.
Greinarhöfundar tóku viðtal við 65 ferðaþjónustuaðila á sex svæðum á landinu.
Að mati þeirra er ferðaþjónustan sú atvinnugrein sem býður upp á mesta möguleika til framtíðar til að efla atvinnulíf í dreifbýli, en flestir þeirra hefðu séð þess glögg merki undanfarin ár.
Spurt var um byggðaráhrif greinanna tveggja, en auðlindir ferðaþjónustunnar orkuvinnslu dreifast víða og hafa á undanförnum áratugum nýst til að efla byggðir landsins, samkvæmt greinarhöfundum.
Náttúruvernd orðin arðbær
Virkjunum og stóriðju hafi lengi verið hampað af stjórnvöldum sem einni mikilvægustu leið til að efla byggð í landinu og oft á tíðum einu leiðinni. Á síðustu árum hafi umfang ferðaþjónustu í hagkerfinu hins vegar margfaldast og er greinin orðin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins. Í ljósi þess að náttúran er aðalástæða þess að ferðamenn koma hingað til lands hafi hún fengið aukið verðgildi, en þannig fengju náttúruverndarsjónarmið nú meiri þunga í umræðunni en áður.
Margar fyrirhugaðar virkjanir eru nálægt náttúruskoðunarstöðum, en margir viðmælendur greinarhöfunda töldu að frekari virkjanaframkvæmdir myndu rýra möguleika ferðaþjónustunnar að efla byggð í landinu. Að sögn þeirra skera orkumannvirki sig úr lítt snortinni náttúru og hafa því neikvæð áhrif á aðdráttarafl staðanna. Þannig töldu flestir svæðin verða minna áhugaverð til náttúruskoðunar ef þar yrðu reistar virkjanir.
Margir töldu jafnframt að ímynd Íslands sem villtrar, óspilltrar og framandi náttúru væri stefnt í hættu, en ímynd er einn af áhrifaþáttum á val áfangastaðar. Það sé í góðu samræmi við niðurstöður fræðimanna á þessu sviði, en margir þeirra benda á að víðerni og lítt snortin svæði fari minnkandi í heiminum. Samhliða því má búast við að verðmæti óbyggða sem auðlindar fyrir ferðaþjónustuna eigi eftir að aukast með hverju ári.
Takmörkuð byggðaráhrif
Margir viðmælenda bentu einnig á að tekjur af báðum atvinnugreinunum mættu skila sér betur til svæðanna þar sem þær verða til.
Grunnforsenda þess að íbúar séu samþykkir virkjun sé gjarnan sú að hún skapi langtímastörf í sveitarfélaginu. Hins vegar renni þau flest til aðkomufólks frekar en íbúa á svæðinu. Eins geti komið fyrir að sveitarfélög sem verða fyrir umhverfisrasks vegna orkuvinnslu fái ekki neinar bætur.
Vandamál af svipuðum toga þekkjast einnig í ferðaþjónustu en henni sé víða haldið uppi með aðfluttu vinnuafli. Enn fremur skila tekjurnar af starfseminni sér sjaldan til svæðisins þar sem auðlindina er að finna, starfsemi fyrirtækja sem selja ferðir um landið sé venjulega á höfuðborgarsvæðinu. Þannig mættu byggðaráhrif beggja greina vera meiri.