Enn er Sundabraut þrætuepli stjórnmálamanna.
Ástand vega og umferðarþungi er að verða að stóru vandamáli hvort sem er á þjóðvegum eða í höfuðborginni. Vegamálastjóri hefur varað við því að fljótlega verði að bregðast við því að Ártúnsbrekkan geti ekki borið meiri umferð. Ljóst er að ríkið og sveitarfélög þurfa að ráðast í stórar umferðarframkvæmdir á næstunni til þess að bregðast við aukinni umferð.
Jón Gunnarsson tók við embætti samgöngumálaráðherra í janúar. Til lausnar þessu vandamáli hefur hann til dæmis lagt til að veggjöld verði innheimt á helstu leiðum inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur einnig lagt til að vegaframkvæmdir á Íslandi verði fjármagnaðar úr sjóðum ríkisins og einkaaðila.
Sundabraut hefur í þessu samhengi aftur komist í umræðuna, enda þykir framkvæmdin falla vel að hugmyndum ráðherra. Sundabraut yrði mikil samgöngubót á höfuðborgarsvæðinu, um það eru allir sammála. Og það virðast jafnframt flestir vera sammála um að ráðast eigi í þessa framkvæmd sem fyrst.
Það eru bara ekki allir sammála um hvar Sundabrautin á að liggja.
Tekist á um gamlar hugmyndir
Hugmyndin um akbraut yfir Kleppsvík við ósa Elliðaár er ekki ný af nálinni. Hún kom fyrst fram í skipulagsskrám borgarinnar árið 1984 og hefur verið á döfinni síðan. Árið 1994 var Sundabrautin listuð með þjóðvegum í vegáætlun. Umhverfismat var gert á mismunandi leiðum yfir Kleppsvík á fyrsta áratug þessarar aldar.
Hér að neðan má sjá þær leiðir sem metnar hafa verið. Margar hafa verið slegnar út af borðinu og eftir standa þrjár leiðir. Leiðirnar sem rætt er um að fara í dag eru merktar með óbrotinni línu á kortinu.
Allar leiðirnar
Leiðirnar sem tekist er á um í dag eru svokallaðar innri og ytri leiðir. Í opinberum gögnum Vegagerðarinnar heita þessar leiðir Leið I og Leið III. Hér verða leiðirnar kallaðar einfaldari nöfnum: Leið I er ytri leiðin og Leið III er innri leiðin með svokallaðri eyjalausn.
Hér er fjallað um fyrsta áfanga framkvæmdarinnar við það sem kallað hefur verið Sundabraut. Í öðrum áfanga framkvæmdarinnar er fyrirhugað að tengja Sundabrautina við Vesturlandsveg. Af Gufunesi mundi brautin þannig halda áfram yfir Geldinganes, þvera Leiruvog yfir á Gunnunes og Álfsnes og svo tengjast Vesturlandsvegi handan Kollafjarðar.
Ytri leið
Ytri leiðin er sú leið sem teiknuð hefur verið í aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Þessi leið var einnig teiknuð í aðalskipulagið 2001-2024 en þó ekki nákvæmlega. Í grófum dráttum liggur leiðin frá Kleppi í vestri og austur yfir Kleppsvík á Gufunes.
Leið I
Með þessari leið yrði umferðarálagi dreift eftir Sæbrautinni á leið vestur og austur. Minna álag færist á Miklubraut ef þessi leið er farin.
Tveir valkostir eru í boði við þessa ytri leið. Annað hvort verður Sundabrautin lögð í göng – hvort sem það verða jarðgöng eins og Hvalfjarðargöngin eða grafin ofan í hafsbotninn í víkinni – eða brú reist yfir víkina. Í aðalskipulaginu er ekki tekin afstaða til valkostanna.
Báðir valkostir hafa nokkra augljósa galla. Ef reisa á brú yfir Kleppsvíkina þarf brúin að vera nokkuð há svo skipaumferð lokist ekki af við Vogabakka. Í matsskjali á umhverfisáhrifum sem gefið var út 2004 segir að hábrú „yrði mjög áberandi mannvirki og í raun eitt mest áberandi mannvirki borgarinnar“. Þar kemur einnig fram að hábrúin verði lokað vegna veðurs tvo daga á ári að jafnaði. Þá er hábrúin ekki talin vera tilvalin til hjólreiða.
Verði lögð göng yfir víkina verður engri hjólandi eða gangandi umferð hleypt um nýju leiðina. Þá er ljóst að göngin verði nokkuð brött og djúp.
Í úrskurði Skipulagsstofnunar síðan 2004 kemur fram kostnaðarmat á innri og ytri leiðinni. Ytri leiðin er metin dýrari en innri leiðin: „11,6 milljarðar króna fyrir leið I hábrú, 13,1 milljarðar króna fyrir leið I botngöng og 7,3 milljarðar króna fyrir eyjalausn á leið III.“
Séu þessar tölur leiðréttar fyrir verðlag dagsins í dag má áætla að kostnaður við botngöngin sé rúmlega 24 milljarðar króna og kostnaðurinn við eyjalausnina rúmlega 13 milljarðar króna. Hér þarf þó að setja þann fyrirvara á að margar forsendur þessa kostnaðarmats gætu hafa breyst á þeim 13 árum sem liðin eru síðan það var framkvæmt.
Starfshópur Innanríkisráðuneytisins um aðkomu einkaaðila að samgönguverkefnum komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni, síðan í mars 2015, að þessi ytri leið væri sú leið sem kæmi til greina við þverun Kleppsvíkur. Starfshópurinn fjallaði um aðkomu einkaaðila að opinberum framkvæmdum og lagði til að öll Sundabrautin yrði lögð í einum áfanga, þe. alla leið úr Kleppsvík yfir á Kjalarnes í einum áfanga.
Innri leið
Innri leiðin er sú leið sem Vegagerðin hefur mælst til að farin verði enda sé hún ódýrari en ytri leiðin. Leiðin mundi þá liggja af Gufunesi yfir Kleppsvík og tengjast landi við mynni Elliðavogs.
Sundabrautin mundi liggja á uppfyllingum sem myndu mynda eyjar í Kleppsvíkinni. Ekki þarf að hafa teljanlegar áhyggjur af umferð skipa á þessari leið, enda er Vogabakkinn og umferð um hana utar.
Eyjaleið
Með þessari leið er meira álag sett á Miklubrautina í umferð vestur og austur, en um leið er umferð létt af Ártúnsbrekkunni.
Þessi leið er hins vegar að öllum líkindum ófær enda gerir aðalskipulag borgarinnar ráð fyrir byggð á því svæði sem leiðin á tengjast landi að vestanverðu. Þar á að rísa Vogabyggð. Borgin hefur þegar skrifað undir samninga við lóðarhafa um byggingu 332 íbúða á þessu svæði.
Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri sagði í samtali við RÚV í maí á þessu ári að ef skipulag sveitarfélaga þvingar Vegagerðina til að ráðast í dýrari framkvæmdakosti en talið hafði verið mögulegt, sé til lagastoð um að sveitarfélagið þurfi að greiða mismuninn.
„Við erum ekkert að segja að hún [innri leiðin] hefði orðið ofan á en hún hefði alla vega átt að vera valkostur til móts við hina. Nú er það ekki hægt lengur og við erum bara að benda á að þá gilda lög í landinu og það er samkvæmt ákveðinni grein í vegalögum hægt að fara fram á við sveitarfélög að þau greiði kostnaðarmuninn ef þau ákveða að fara dýrari leiðina,“ sagði Hreinn.
Samgönguráðherra hefur tekið enn dýpra í árinni og sagt „einstrengisstefnu borgarinnar“ geta reynst borgarbúum dýr þegar upp verður staðið.
„Það er lagastoð fyrir því að fari sveitarfélagið ekki að vilja Vegagerðarinnar í þessu og í samráði við þá að þá getur Vegamálastjóri sent reikninginn á sveitarfélagið. Það er bara staðan sem er komin upp í þessu máli. Þessi einstrengisstefna borgaryfirvalda að spila ekki með yfirvöldum um lagningu þjóðvegakerfisins hérna á höfuðborgarsvæðinu getur orðið borgarbúum dýr þegar upp verður staðið,“ sagði Jón í Silfrinu á RÚV í maí.