Um aldamótin síðustu var útlitið ekki bjart í danskri útgerð. Sífellt minni fiskur í sjónum en jafnframt alltof stór floti til að veiða fiskinn. Sjómenn börðust í bökkum, margir urðu gjaldþrota og misstu allt sitt. „Það voru dökk ský á himni,“ sagði einn talsmaður bátasjómanna. Lengi vel virtust stjórnvöld ekki láta sig sífellt lakari afkomu útgerðarinnar neinu varða en árið 2007 var lokst gripið til aðgerða. Kvóti í höndum sjómanna sjálfra. Áður hafði danska sjávarútvegsráðuneytið og undirstofnanir þess úthlutað kvótanum en þessari breytingu var ætlað að gera fiskveiðar í senn eftirsóknarverðari og arðbærari.
Aðgerðin heppnaðist, það dró úr ofveiðinni, fiskistofnarnir réttu við og afkoma sjómanna batnaði. Margir þeirra, sem áður höfðu hangið á horriminni, höfðu skyndilega bærilega afkomu, sumir mjög góða.
Sala á bátum, og þar með kvótanum, var heimil og afleiðingin varð sú að fjársterkir kvótaeigendur (kallaðir kvótakóngar) keyptu í stórum stíl báta og tilheyrandi kvóta.
Með því sem sumir kölluðu síðar „einkavæðingu kvótans“ færði ríkið í raun mörgum mikla fjármuni því kvótinn var tengdur einstökum bátum. Sala á bátum, og þar með kvótanum, var heimil og afleiðingin varð sú að fjársterkir kvótaeigendur (kallaðir kvótakóngar) keyptu í stórum stíl báta og tilheyrandi kvóta. Þótt reglurnar segðu að hver einstaklingur mætti ekki eiga nema tiltekið magn kvóta fundu margir leiðir til að „sigla“ framhjá þeim. Kvótinn færðist þannig á mun færri hendur.
Skipin sem fiskinn veiddu urðu jafnframt stærri, því þeir sem keypt höfðu kvótann fengu leyfi til að færa kvóta milli skipa, færðu kvótann frá smærri bátum (sem síðan voru úreltir) yfir á stærri skip. Þetta þýddi að sjómönnum fækkaði, enginn fiskur barst að landi í tugum smábátahafna og annars staðar minnkaði aflinn sem að landi kom, víða um helming frá því sem áður var. Í dag eru starfandi fiskimenn í Danmörku um það bil 3.300, sú tala hefur haldist nokkurn veginn óbreytt um nokkurra ára skeið.
Poul Holm, prófessor við Trinity háskólann í Dublin á Írlandi, sagði í viðtali við danskt dagblað, að allir væru sammála um að kvótakerfi sé nauðsynlegt til að takmarka fiskveiðar en kvaðst undrandi á því að danska ríkið skyldi hafa valið að færa tilteknum hópi gríðarlega fjármuni, nánast skilyrðislaust. Prófessorinn sagðist líka undrast hvað þessi breyting olli litlum deilum, hann teldi hugsanlegt að meirihluti dönsku þjóðarinnar hefði hreinlega ekki áttað sig á afleiðingunum.
Þátturinn í danska sjónvarpinu og styrkirnir
Árið 2015 sýndi DR, danska sjónvarpið, heimildaþátt um kvótakerfið. Sjónvarpsmenn höfðu lagt mikla vinnu í þáttinn og beindu sjónum sínum að kvótakóngunum svonefndu, þeim sem fundið höfðu leiðir til að fara fram hjá kvótalögunum og eignast mikinn kvóta. Í þættinum kom fram að í mörgum tilfellum voru makar og jafnvel börn kvótakónganna skráðir sem eigendur kvóta þótt viðkomandi kæmu hvergi nærri veiðunum.
Þátturinn í danska sjónvarpinu vakti mikla athygli, ekki síst stjórnmálamanna sem margir hverjir sögðust hreinlega ekki hafa gert sér grein fyrir hvernig ástandið væri orðið. Um svipað leyti komst eitt dönsku dagblaðanna á snoðir um að núverandi stjórnarflokkur, Venstre (sem er hægri miðjuflokkur), hafði þegið háar fjárhæðir í formi styrkja frá mörgum kvótakóngum. Þetta vakti grunsemdir því aðrir flokkar nutu ekki sambærilegra styrkja. Venstre fór með stjórnarformennskuna frá 2001–2011 og svo aftur frá 2015.
Vildu „kíkja á“ fiskveiðistjórnunarkerfið
Eftir miklar umræður og umfjöllun í þinginu ákvað ríkisstjórnin haustið 2015 að rétt væri að líta á fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagið (kallaði það servicetjek). Stjórnin boðaði samvinnu við alla flokka á þingi. Margir þingmenn höfðu takmarkaða trú á þetta „servicetjek“ myndi einhverju skila og sumir héldu því beinlínis fram að kvótakóngarnir hefðu stjórn ríkisstjórnar Venstre, undir forystu Lars Løkke Rasmussen, í vasanum og þeir hefðu afar takmarkaðan áhuga á að hróflað yrði við kerfinu sem hafði fært þeim milljarða á milljarða ofan.
Margir þingmenn höfðu takmarkaða trú á þetta „servicetjek“ myndi einhverju skila og sumir héldu því beinlínis fram að kvótakóngarnir hefðu ríkisstjórnina í vasanum.
Viðræður um fiskveiðistjórnunina hófust í september 2016 undir stjórn Esben Lunde Larsen umhverfis- og matvælaráðherra. Þessar viðræður fulltrúa flokkanna á þinginu skiluðu litlum árangri, bæði Sósíaldemókratar og Danski þjóðarflokkurinn töldu þetta „sýndarviðræður“ því stjórnin ætlaði sér ekki að breyta neinu. Þessir tveir flokkar lögðu einkum áherslu á tvennt: breytingar á kvótakerfinu til að hindra að kvótinn færðist á æ færri hendur og að strandveiðar, sem höfðu nær lagst af, yrðu heimilaðar á ný. Ráðherrann tók lítt undir þetta.
Fóru framhjá stjórninni
Þegar kom fram í desember 2016 lögðu Sósíalistar og Danski þjóðarflokkurinn, ásamt Sósíalíska þjóðarflokknum og Radikale venstre, fram frumvarp um breytingar á kvótakerfinu. Í andstöðu við ráðherrann sem vildi að beðið yrði eftir niðurstöðu nefndarinnar sem skoða átti kerfið. Frumvarpið flaug í gegnum þingið og vinna við framkvæmd nýju laganna átti að hefjast strax eftir síðastliðin áramót.
Tvískinnungur ráðherrans
Í langri og yfirgripsmikilli umfjöllun í dagblaðinu Berlingske undir yfirskriftinni „Kvoter, konger og kumpaner“ komu fram upplýsingar sem hafa valdið miklu fjaðrafoki (sporðaköstum mætti kannski segja) meðal danskra þingmanna. Blaðamenn Berlingske komust yfir gögn sem sýna, svart á hvítu, að samtímis því að embættismennirnir unnu að útfærslu laganna um fiskveiðistjórnunina unnu þeir jafnframt að því að finna leiðir til að koma í veg fyrir að lögin kæmust í framkvæmd.
Í gögnum sem blaðamennirnir hafa undir höndum kemur fram að margar leiðir væri hægt að fara til að vinna að þessu markmiði. Allar miðuðu þær að því að láta líta svo út að lögin væru flókin og andstæð hagsmunum sjómanna og eina leiðin væri að ráðherrann færi „sína leið“ í þessum efnum. Fram kemur í gögnum blaðamanna Berlingske að ráðherrann lagði blessun sína yfir þessar hugmyndir, enda halda blaðamennirnir því fram að allt sé þetta runnið undan rifjum ráðherrans og segjast hafa gögn sem sanni það.
Ráðherrann fastur í netinu og valtur í sessi
Aðeins eru örfáir dagar síðan greinin um kvótann og kóngana birtist í Berlingske. Margir þingmenn hafa tjáð sig um málið, þeir eru nær allir á einu máli um að framkoma ráðherrans sé með öllu ólíðandi, það nái engri átt að ráðherrann ætli bara að fara sínar eigin leiðir, þvert á ákvarðanir þingsins. „Hver togar hér í spottana?“ spurði þingmaður Danska þjóðarflokksins og bætti við að margir vissu kannski svarið. Esben Lunde Larsen ráðherra hefur verið boðaður til yfirheyrslu þingflokkanna (samraad) en sá fundur hefur þegar þetta er ritað ekki verið tímasettur.
Esben Lunde Larsen hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti umhverfis- og matvælaráðherra síðan hann tók við í lok febrúar á síðasta ári. Hann er jafnframt sá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem margoft hefur vermt botnsætið þegar spurt er um vinsældir og trúverðugleika ráðherranna í núverandi ríkisstjórn.
Nokkrir þingmenn sem Berlingske hefur rætt við að undanförnu telja ráðherrann mjög valtan í sessi og ekki kæmi á óvart þótt hann hrökklaðist úr ráðherrastólnum. Einn þingmanna Danska þjóðarflokksins orðaði það svo að „ráðherrann væri fastur í eigin neti og við ætlum ekki að losa hann úr flækjunni.