Jamie Dimon, bankastjóri JPMorgan Chase, sagði viðamikla skuldabréfasölu Seðlabanka Bandaríkjanna vera áhyggjuefni á blaðamannafundi í síðustu viku. Salan er lokakafli aðgerða seðlabankanna sem kölluð er peningaleg slökun, en að sögn Dimon veit enginn nákvæmlega hverjar afleiðingarnar verða í kjölfar hennar.
Ójöfn innspýting, en virkar
Peningaleg slökun (Quantitative easing, stundum nefnd magnbundin íhlutun) felur í sér að seðlabanki auki peningamagn í umferð með umfangsmiklum kaupum á skuldabréfum. Þannig ætti lánsfjármagn að aukast og vextir að lækka, svo ódýrara verði að taka lán. Seðlabankar Bandaríkjanna, Englands (Englandsbanki), Evrópu og Japan hafa allir beitt peningalegri slökun undanfarin ár sem innspýtingu í kólnandi hagkerfi sín eftir efnahagsþrengingarnar sem byrjuðu árið 2008.
Slökunin hefur verið umdeild meðal hagfræðinga, meðal annars vegna þess að hinir ríkustu virðast gagnast hlutfallslega mest á henni. Þetta var einmitt niðurstaða Englandsbanka í skýrslu um áhrif peningalegrar slökunar þar í landi. Lægri vextir leiði til aukinna fjárfestinga og hærra eignaverðs, stóreigendum til hagsbóta. Hins vegar leiddi skýrslan einnig í ljós að slökunin hafi í raun náð að efla efnahag Englands á tímum samdráttar.
Áskoranir fram undan
Ójafnari skipting auðs er ekki eina vandamálið sem fylgir peningalegri slökun. Kaup seðlabankanna á gríðarlegu magni skuldabréfa vegna slökunarinnar hefur margfaldað eignasafn þeirra, en samanlagðar eignir seðlabanka Japans, Bandaríkjanna og Evrópu nema nú tæpum 14 trilljónum Bandaríkjadala. Nú, þegar hagvöxtur og verðbólga eru vaxandi á heimsvísu, stefna seðlabankarnir að því að minnka eignasafnið með því að selja skuldabréfin sín aftur.
Söluferlið felur í sér ákveðna áskorun, en gæta þarf þess að það fari fram án þess að langtímavextir landanna hækki um of og hægi á efnahagslífinu. Seðlabanki Bandaríkjanna verður líklega fyrstur að minnka við sig, en búist er við að fyrsta söluhrina þeirra byrji í september á þessu ári.
„Við vitum ekkert hvað mun gerast“
Bloomberg greindi frá ummælum Jamie Dimon, bankastjóra JPMorgan Chase, á blaðamannafundi síðasta þriðjudag. Á blaðamannafundinum lýsti Dimon yfir áhyggjum vegna fyrirhugaðrar skuldabréfasölu stóru seðlabankanna þar sem núverandi staða þeirra sé fordæmalaus. „Augljóslega segir það sitt um áhættuna sem fylgir þessu ferli að við höfum aldrei upplifað annað eins,“ Sagði Dimon. „Þegar söluferlið hefst að fullu gæti það valdið meiri röskunum en fólk heldur. Við þykjumst vita nákvæmlega hvað muni gerast en við gerum það ekki.“