Maður er nefndur Morris Chang og er 86 ára gamall fjárfestir og fyrirtækjaeigandi í Tævan. Hann er stofnandi og stjórnarformaður fyrirtækisins Taiwan Semconductor Manufacturing (TSM), en gengi þess hefur rokið upp að undanförnu, eða um 27 prósent á aðeins þremur mánuðum, samkvæmt umfjöllun Bloomberg.
Milljarðamæringur á stuttum tíma
Hækkunin hefur gert, Chang að milljarðamæringi í Bandaríkjadölum talið. Ástæðan fyrir hækkuninni er sú að fyrirtækið gegnir mikilvægu hlutverki við framleiðslu á iPhone símanum frá Apple, sem kemur á markað innan tíðar. Fyrirtækið framleiðir hluti í síma, eins og vinnsluminniskubba, örgjöva og símkort, og hefur vaxið hratt samhliða gríðarlega hröðum vexti snjallsímaiðnaðarins í heiminum.
Það eru ekki aðeins tæknirisarnir sjálfir, sem hafa gengið í gegnum mikið vaxtarskeið, heldur ekki síður mörg önnur fyrirtæki sem framleiða aukahluti í síma.
TSM er eitt þeirra. Markaðsvirði þess er nú 183 milljarðar Bandaríkjadala, sem gerir það að langsamlega verðmætasta aukahlutaframleiðanda heims. Foxconn, sem hefur vaxið með snjallsímaframleiðslu Apple og Samsung ekki síst, er nú 66 milljarða Bandaríkjadala virði, eða sem nemur um þriðjungi af virði TSM.
Lítill hlutur gulls í gildi
Chang á sjálfur 0,5 prósent hlut í fyrirtækinu, og nemur virði hans því um 900 milljónum Bandaríkjadala.
Til marks um hvað verðmiðinn á TSM er orðinn hár, þá nemur hann meira en tvöföldu virði Goldman Sachs bankans, en markaðsvirði hans er 89 milljarðar Bandaríkjadala.
Margt bendir til þess að framleiðslufyrirtækin að baki snjallsímaiðnaðinum, sem mörg hver eru staðsett í Asíu, muni vaxa enn meira á næstu árum, og verða þannig bakbeinið í komandi tæknibyltingu. Það eru ekki aðeins símar sem eru undir, heldur ekki einnig ný tæki og tól, sem munu leiða komandi tæknibreytingar.
Stjórnvöld hjálpuðu til
Chang stofnaði TSM árið 1986, með stuðningi stjórnvalda í Tævan, og hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt síðan, á rúmlega 30 ára starfstíma. Mesti vaxtaskippurinn er þó sá sem hefur sést á undanförnum mánuðum. Og útlit er fyrir að hann haldi áfram.