Komandi kjaraviðræður eru á vissan hátt í uppnámi, vegna úrskurða kjararáðs að undanförnu, en Samtök atvinnulífsins horfa þó til þess að halda í markmið SALEK-samkomulagsins frá því í byrjun síðasta árs.
Svipuð sjónarmið hafa verið ríkjandi innan verkalýðshreyfingarinnar og hjá stéttarfélögum opinberra starfsmanna, en úrskurðir kjararáðs um tugprósenta hækkanir stjórnenda hjá hinu opinbera, í sumum tilvikum afturvirkt, hafa skapað mikinn vanda og grafið undan þeim sáttagrundvelli sem unnið hefur verið á undanförnum árum.
„Skelfileg“ áhrif
Í samtölum við Kjarnann segir fólk innan Samtaka atvinnulífsins (SA), Alþýðusambands Íslands(ASÍ), og stéttarfélaga opinberra starfsmanna, að kjararáðsúrskurðirnir hafi verið „skelfilegir“ fyrir komandi kjaraviðræður.
Eins og hendi væri veifað hafi forsendur fyrir sátt á vinnumarkaði horfið, og þrátt fyrir mikinn efnahagslegan uppgang, og mikla kaupmáttaraukningu launa á síðustu misserum, þá væri staðan snúin.
SA horfir þó til þess að halda í markmiðin sem sett voru niður með Salek-samkomulaginu, en því var ætlað að stoppa launahækkanaferli sem „engin innistæða væri fyrir“ og stuðla að kjarabótum með stöðugra ytra umhverfi; minni verðbólgu, lægri vöxtum og langtímahugsun við mótun samningsmarkmiða í kjaraviðræðum.
Langtímahugsun
SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. SALEK er afrakstur vinnu sem hófst 2013 með úttekt BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, SA og samninganefnda ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á umhverfi kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum, þar sem áhersla var lögð á heildarendurskoðun samningalíkansins.
Þessi vinna skilaði sér í sátt allra aðila vinnumarkaðarins um að endurskoða aðferðafræðina við samningagerð um kaup og kjör á vinnumarkaði. Undirliggjandi var þó mikill þrýstingur á stjórnvöld, um að standa við fyrirheit um góðan jarðveg sáttar á vinnumarkaði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa atvinnurekendur lýst yfir áhyggjum sínum að undanförnu, á vettvangi Samtaka atvinnulífsins, af því að samið hafi verið um of miklar launahækkanir í síðustu samningum. Margir geirar atvinnulífsins, meðal annars í verslun, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, muni súpa seyðið af þessu á næsta ári alveg sérstaklega.
Atvinnuleysi mælist hins vegar lítið sem ekkert þessi misserin, eða á bilinu 2 til 4 prósent, og er mikil vöntun eftir starfskröftum í ákveðnum geirum atvinnulífsins, meðal annars í byggingariðnaði. Þá hefur verðbólga haldist í skefjum í meira en þrjú ár en hún mælist nú 1,5 prósent.
Tvö prósent á ári?
Innan SA hafa þær raddir heyrst að skynsamlegt sé að semja til tveggja ára, með hóflegum hækkunum, t.d. tvö prósent á ári, ekki síst til að „vernda“ þann árangur sem náðst hafi á undanförnum tveimur árum.
Innan verkalýðshreyfingarinnar og hjá stéttarfélögum opinberra starfsmanna þá er frekar horft til þess að, samræma launaþróunina og horfa þá ekki síst til þess hvernig ráðamenn þjóðarinnar hafi verið að þróast í launum að undanförnu.
Fullur skilningur sé á því, að mikilvægt sé að skapa góðar forsendur fyrir meiri stöðugleika, en almenningur á vinnumarkaði geti ekki sætt sig við að stjórnendur hjá ríkinu og ráðamenn þjóðarinnar, fái að hækka hlutfallslega hraðar og meira en aðrir.