Á fyrstu fimm mánuðum ársins áttu sér stað rúmlega ellefu þúsund morð í Mexíkó eða um eitt morð hverjar tuttugu mínútur og nemur aukningin um 31% miðað við sama tímabil í fyrra. Ástæður þróunarinnar eru margar en fleiri og smærri glæpagengi, aukin eftirspurn eftir ópíumi og ríkisstjórabreytingar á síðasta ári hafa skipt sköpum.
Innbyrðis barátta á milli glæpasamtaka vegna eiturlyfjasmygls hefur verið til staðar í Mexíkó í áratugi en þó versnað til muna eftir þúsaldarmótin bæði vegna gríðarlegrar eftirspurnar eftir eiturlyfjum í grannríki Mexíkó til norðurs, Bandaríkjunum, og aðgerðir stjórnvalda til að berjast gegn starfseminni.
Morðtíðnin sem afleiðing af „eiturlyfjastríðinu“ svokallaða náði hámarki í forsetatíð Felipe Calderón (2006-2012) en harðlínustefna hans gegn skipulagðri glæpastarfsemi gerði það að verkum að átökin stigmögnuðust; Meira 164 þúsund morð (þó tengjast ekki öll endilega eiturlyfjastríðinu) áttu sér stað í Mexíkó á milli 2007 og 2014. Til samanburðar var tala látinna í stríðunum í Írak og Afghanistan samanlagt um 103 þúsund á sama tímabili.
Núverandi forseti Mexíkó, Enrique Peña Nieto, vann sigur í kosningunum árið 2012 með því að einblína ekki á eiturlyfjastríðið heldur með því að leggja áherslu á atriði á borð við menntunar-, orku-, og samskiptamál. Peña Nieto vildi breyta orðræðunni í kringum eiturlyfjastríðið en minnkandi afskipti ríkisstjórnar hans í samanburði við Calderón leiddu til lækkandi morðtíðni á fyrstu tveim árum stjórnartíðar hans. Síðan 2015 hefur morðtíðnin hins vegar farið vaxandi á nýjan leik og benda sumar spár til þess að 2017 verði blóðugasta árið til þessa.
El Chapo, ópíóíðar og Pax Mafiosa
Ástæðurnar fyrir aukningunni eru margar. Ópíumframleiðsla í Mexíkó hefur aukist í samhengi við aukna eftirspurn í Bandaríkjunum eftir ópíóíðum og þar að auki hefur metamfetamínframleiðsla fyrir Bandaríkjamarkað færst nánast að öllu leyti til Mexíkó. Stórir markaðir og aukin samkeppni á milli glæpasamtaka hefur stuðlað að hækkandi morðtíðni.
Sú þróun hefur átt sér stað á sama tíma og breyting hefur orðið á fjölda og stærð glæpasamtaka í Mexíkó sem afleiðing af aðferðum stjórnvalda í eiturlyfjastríðinu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að handsama höfuðpaura glæpasamtakanna og hefur það leitt til að stærri glæpasamtök skiptist upp í minni einingar. Þegar hinn alræmdi Joaquín „El Chapo“ Guzmán var handtekinn á ný í fyrra leiddi það til baráttu innbyrðis í hinum gríðarstóru Sinaloa-glæpasamtökum. Þegar glæpasamtökin skiptast niður í fjölmörg gengi hefur þróunin verið sú að hvert gengi hefur ekki haft mannaflann eða getuna til að sinna öllum þáttum virðiskeðju eiturlyfjasmyglsins og einblína frekar á afmörkuð svæði. Samkeppnin milli þeirra hefur ekki einungis leitt til aukningu í morðtíðni landsins heldur hefur vettvangur ofbeldisins færst frá landamærahéruðum landsins í norðri til héraða í suðurhluta landsins.
Þá er talið að ríkisstjórakosningar sem fram fóru í landinu í fyrra hafi raskað tengslum á milli meintra spilltra ríkisstjóra og glæpasamtaka. Fjölmargir ríkisstjórar úr stjórnarflokki Peña Nieto (sem heitir því þversagnakennda nafni Partido Revolucionario Institucional (PRI), eða „stofnanavæddi byltingarflokkurinn“) misstu sæti sín eftir að kjósendur létu í ljós óánægju sína með spillta stjórnarhætti þeirra í kjörklefanum. Þessi breyting gæti hafa ollið því að leynileg sambönd stjórnmálamanna við glæpasamtök, Pax Mafiosa svokallað, sem höfðu hemil á beitingu ofbeldis, flosnuðu upp.
Illt er öðrum ólán sitt að kenna
Aukin morðtíðni síðustu ára hefur leitt til þess að stefna Peña Nieto, sem tók mið af því að vandamál Mexíkó væru ekki kerfisbundin heldur að orðræðan í kringum ofbeldi þyrfti að breytast, er talin hafa mistekist. Ólíklegt er að miklar breytingar verði á stefnu stjórnvalda í eiturlyfjastríðinu á næstunni; Peña Nieto á einungis átján mánuði eftir í forsetastól og hefur ríkisstjórnin ekki náð að tefla fram skilvirkum valkosti við harðlínustefnu Calderón enda er hún ásökuð um spillingu og ofsóknir gegn andstæðingum í frjálsum félagasamtökum. Þá hefur ríkisstjórn Peña Nieto lagt áherslu á að rót ofbeldisvanda Mexíkó sé að miklu leyti hin gríðarlega eftirspurn eftir eiturlyfjum í Bandaríkjunum.
Markaðurinn fyrir smygluðum eiturlyfjum í Bandaríkjunum er metinn á um 64 milljarða Bandaríkjadala á ári en hinar gríðarlegu tekjur sem glæpasamtök hafa af starfseminni fara bæði til vopnakaupa og til að viðhalda víðfeðmu spillingarneti í Bandaríkjunum, Mexíkó og gjörvallri Mið-Ameríku. Um 70% þeirra skotvopna sem voru gerð upptæk í Mexíkó á árunum 2009 til 2014 voru rekin til Bandaríkjanna. Straumur peninga og vopna frá norðri til suðurs er að minnsta kosti jafn stór hluti af vandamálinu og straumur meðlima glæpasamtaka til Bandaríkjanna, eða „bad hombres“ eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti kallar þá.
Á dögunum tísti Trump um að Mexíkó væri næst hættulegasta átakasvæði heims á eftir Sýrlandi og vitnaði þannig óbeint í könnun sem framkvæmd var af rannsóknarsetrinu International Institute for Strategic Studies (IISS). Trump endaði tístið eins og honum einum er lagið með „_We will BUILD THE WALL!_“ en stefna hans sem miðar að byggingu múrs meðfram landamærum Mexíkó og brottvísun þúsunda ólöglegra innflytjenda virðist setja í forgang að gera Mexíkó að blóraböggli eiturlyfjasmygls og ofbeldi tengt því frekar en að reyna að takast á við rót vandans. Hegðun stjórnvalda bæði í Mexíkó og Bandaríkjanam gefa því litla von um að hinu gríðarlega ofbeldi sem fylgir eiturlyfjasmygli muni linna á næstu misserum.