Kaupþing

Seðlabankinn birtir skýrslu um neyðarlán Kaupþings á næstu mánuðum

Skýrsla sem boðuð var í febrúar 2015 af Seðlabanka Íslands, og fjallar um tildrög þess að Kaupþing fékk 500 milljóna evra neyðarlán í október 2008, verður birt á næstu mánuðum. Hún mun einnig fjalla um söluferli FIH. Von er á annarri skýrslu sem mun fjalla um söluferli FIH, en úr allt annarri átt.

Skýrsla um neyðarlánveitingu Seðlabanka Íslands til Kaupþings í miðju bankahruninu er langt á veg komin og gert er ráð fyrir að hún verði kynnt í bankaráði hans á næstu mánuðum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri greindi frá því í febrúar 2015 að hann ætlaði að láta taka saman skýrslu um tildrög þess að Kaupþing fékk neyðarlán upp á 500 milljónir evra frá bankanum 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland í sjónvarpsávarpi. Það eru því um tvö og hálft ár liðið frá því að skýrslan var boðuð.

Í svari við fyrirspurn frá Kjarnanum um afdrif skýrslunnar segir Seðlabanki Íslands að ákveðið hafi verið að bæta söluferli FIH bankans – en sá danski banki var tekinn sem veð fyrir láninu – við skýrsluna. „Sá hluti er mjög umfangsmikill og snertir m.a. þróun efnahags- og bankamála í Danmörku. Vegna mikilla anna starfsmanna við önnur verk hefur verið erfiðleikum bundið að tryggja næga krafta í þetta verk – en það er sem sagt langt á veg komið,“ segir í svarinu.

Kjarninn óskaði eftir nánari upplýsingum um hver tímaramminn á skilum á skýrslunni væri, en Seðlabankinn taldi sig ekki geta verið nákvæmari en að henni verði skilað á næstu mánuðum.

Hannes vinnur líka að skýrslu

Önnur skýrsla er væntanleg þar sem fjallað verður meðal annars um söluferli FIH. Sú er skrifuð af stjórnmálafræðiprófessornum Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, en honum var falið að stýra rann­sókn­ar­verk­efni á vegum fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins á erlendum áhrifa­þáttum hruns­ins í júlí 2014. Áætl­aður kostn­aður verk­efn­is­ins var tíu millj­ónir króna og áætluð verk­lok voru í byrjun sept­em­ber 2015. Skýrslu Hannesar hefur enn ekki verið skilað en greint var frá því í júní að hún sé nú í yfirlestri. Til stendur að kynna skýrsluna 8. október næstkomandi, eða rúmum tveimur árum eftir upphafleg áætluð verklok og rúmum þremur árum eftir að Hannesi var falið verkefnið.

Ráðn­ing Hann­esar til verks­ins var afar umdeild sökum mik­illa tengsla hans við áhrifa­menn innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sér­stak­lega fyrrverandi seðla­banka­stjór­ann Davíð Odds­son, sem nú stýrir Morg­un­blað­inu.

Hannes skrifaði grein í Morgunblaðið 21. apríl 2015 þar sem hann opinberaði í fyrsta sinn hluta af því sem hann er að skrifa um í skýrslu sinni. Í greininn fjallaði hann í löngu máli um söl­una á FIH-­bank­an­um, sem tekin var sem veð fyrir neyð­ar­láni Seðla­banka Íslands til Kaup­þings 6. októ­ber, þegar Davíð Odds­son stýrði enn Seðla­bank­an­um. Kjarn­inn greindi frá því 2. októ­ber 2014 að tap íslenskra skatt­greið­enda vegna FIH væri 35 millj­arðar króna.

Hannes komst að þeirri nið­ur­stöðu að FIH hafi verið gott veð. Már Guð­munds­son seðla­banka­stjóri hafi hins vegar verið plat­aður í mál­inu með þeim afleið­ingum að Ísland varð af 60 millj­arða króna ágóða vegna FIH, og sat þess í stað uppi með ofan­greint tap.

Már svaraði grein Hannesar skömmu síðar. Hann sagði Hannes misskilja margt í málinu og fullyrti að ef Seðla­bank­inn hefði knúið FIH bank­ann í slitameðferð haustið 2010 hefði allt neyð­ar­lánið sem bank­inn veitti Kaup­þingi 6. októ­ber 2008 tap­ast. Með því að selja bank­ann tak­ist Seðla­bank­anum að inn­heimta lið­lega helm­ing láns­ins, sem var upp á 500 millj­ónir evra.

Því liggur fyrir að á haustmánuðum munu koma út tvær skýrslur þar sem fjallað verður um söluferli FIH, og út frá grein Hannesar frá því í apríl 2015, og svörum Más nokkrum dögum síðar, liggur fyrir að umfjöllun í skýrslunum verður afar ólík. Raunar er viðbúið að niðurstöður þeirra varðandi FIH verði eins og svart og hvítt.

Ásakanir um ábyrgð ganga á víxl

Neyðarlán Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október 2008 hefur reglulega ratað í fréttir á undanförnum árum. Það var upp á 500 milljónir evra, tæplega 78 milljarða króna á gengi þess dags sem lánið var veitt. Tæpur helmingur lánsins endurheimtist aldrei þar sem veðið sem sett var fyrir láninu, danski bankinn FIH, var fjarri því jafn verðmætur og talið var í fyrstu.

Lánið komst aftur í hámæli í október í fyrra, nokkrum dögum fyrir þingkosningar, eftir að Kastljós og fréttir Stöðvar 2 birtu vitnaskýrslu frá 2012 þar sem það er til umfjöllunar. Þar komu fram upplýsingar um innihald símtals milli Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar sem átti sér stað skömmu fyrir hádegi 6. október 2008. Eftir símtalið lá fyrir ákvörðun um að veita lánið til Kaupþings.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur hafnað því að bankinn hafi orðið af 60 milljarða króna söluhagnaði vegna FIH. Fjallað verður um söluferli FIH í væntanlegri skýrslu.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í umræddu símtali milli Geirs og Davíðs  ræða þeir lánveitinguna. Geir hefur ekki viljað veita heimild fyrir því að upptakan verði gerð opinber.

Í febr­úar 2015 skrif­aði Davíð Reykja­vík­ur­bréf í Morg­un­blað­ið. Þar sagði að þar sem gjald­eyr­is­vara­­forði Seðla­­banka Íslands í októ­ber 2008 var til­­kom­inn vegna skulda­bréfa­út­­­gáfu rík­­is­­sjóðs hafi banka­­stjórar Seðla­­bank­ans litið svo á að það það yrði að vera vilji rík­­is­­stjórn­­­ar­inn­­ar, ekki bank­ans, sem réði því hvort Kaup­­þing fengi hann nán­­ast allan að láni þennan dag. Í Reykja­vík­ur­bréf­inu stóð: „Þeir sem báðu um aðstoð­ina [Kaup­­þing] héldu því fram, að rík­­is­­stjórnin vildi að þessi fyr­ir­greiðsla yrði veitt. Þess vegna fór sím­talið við for­­sæt­is­ráð­herr­ann fram. Til­­viljun réð því að það sím­­tal var hljóð­­rit­að. Þess vegna átti fyr­ir­greiðslan sér að lokum stað gegn alls­herj­­­ar­veði í banka sem tal­inn var standa mjög ríf­­lega undir því.“ Að sögn Dav­íðs var það því Geir sem tók ákvörð­un­ina um að lána Kaup­þingi.

Geir, sem er núver­andi send­i­herra Íslands í Banda­­ríkj­un­um, sagði hins vegar í fréttum Stöðvar 2 í maí í 2015 að það hafi verið mis­­tök að veita Kaup­­þingi lánið. Því miður hafi ekki allt verið sem sýnd­ist hjá bank­­anum og hann staðið veikar en látið var. Lánið hefði því aldrei dugað til að bjarga bank­­anum og pen­ing­­arnir ekki farið í það sem þeir áttu að fara.  

Í svari við fyrirspurn Kastljóss vegna nýrra upplýsinga í málinu, sem sagt var frá í október 2016, sagði Geir að for­sæt­is­ráð­herra ætti ekki að þurfa að sæta því að emb­ætt­is­menn rík­is­ins hljóð­riti sam­töl við hann „án hans vit­und­ar“. Þá sagði hann það alveg skýrt að Seðla­bank­inn hafi borið ábyrgð á lán­inu, þó hann hafi talið það til­raun­ar­innar virði. Það séu von­brigði að veð sem Seðla­bank­inn taldi trygg, skyldu ekki hafa duga fyrir lán­inu.

Enn liggur heldur ekki fyrir í hvað peningarnir sem Kaupþing fékk lánað fóru. Um það eru frásagnir misvísandi. Mikil vilji virðist vera fyrir því að fá skýr og endanleg svör við þessum tveimur spurningum: hver tók ákvörðunina og í hvað fór lánið. Mögulega munu þau svör koma fram í skýrslu Seðlabankans sem væntanleg er á næstu mánuðum.

Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þessi mál undanfarin ár.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar