Virði hlutabréfa í smásölurisanum Högum hefur hríðfallið undanfarnar vikur. Frá því um miðjan maímánuð hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 35 prósent og markaðsvirði þess dregist saman um tæpa 23 milljarða króna.
Ástæðan er innkoma alþjóðlega stórfyrirtækisins Costco á íslenskan dagvörumarkað. Frá því að Costco hóf starfsemi 23. maí hafa Hagar tvívegis sent frá sér afkomuviðvörun vegna samdráttar í sölu sem rakinn er til breytinga á markaðnum.
Stærstu eigendur Haga eru íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir eiga um helming hlutabréfa í félaginu beint eða óbeint og virði hlutar þeirra hefur dregist saman um nálægt tólf milljarða króna á þremur mánuðum. Og þrír stærstu sjóðir landsins eru þar umsvifamestir, líkt og í mörgum öðrum skráðum félögum. Markaðsvirði bréfa þeirra í Högum hefur dregist saman um tæpa átta milljarða króna frá því um miðjan maí. Mikil gagnrýni hefur verið sett fram á sjóðina fyrir að taka þátt í áhættusömum hlutabréfaviðskiptum og margir gagnrýnendur nota stöðu Haga sem dæmi um slík viðskipti. En hafa lífeyrissjóðirnir tapað á viðskiptum sínum með hluti í Högum?
Gildi var með frá upphafi
Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins eiga samtals rúmlega þriðjungshlut í Högum, eða 33,88 prósent. Þeir eru Gildi Lífeyrissjóður (á 12,95 prósent), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (A-deild hans á 10,24 prósent hlut og B-deildin 3,53 prósent) og Lífeyrissjóður verslunarmanna (á 10,24 prósent).
Hagar voru fyrsta félagið sem skráð var á markað eftir hrunið. Hópur fjárfesta sem fékk að kaupa alls 44 prósent hlut í félaginu fyrir skráningu greiddi 10 krónur á hlut fyrir 34 prósent og 11 krónur fyrir viðbótar tíu prósent. Samtals greiddi hópurinn 5,4 milljarða króna fyrir þennan 44 prósenta hlut.
Í hópnum voru m.a. nokkrir lífeyrissjóðir. Stærstur þeirra var Gildi, sem átti með beinum hætti 8,6 prósent hlut þegar Hagar voru skráðir á markað. Fyrir þann hlut greiddi Gildi rúmlega einn milljarð króna. Gengi bréfa í Högum við opnun markaða í dag var um 36,5 krónur á hlut. Virði þess hlutar sem Gildi keypti í upphafi, og hefur haldið á alla tíð síðan þá, er um 3,8 milljarðar króna miðað við skráð gengi Haga í dag. Því væri ágóði Gildis af upphaflegri fjárfestingu sjóðsins í Högum, ef hann seldi öll þau bréf í dag, um 2,8 milljarðar króna.
Gildi hefur hins vegar bætt við sig hlutum í Högum síðan þá á hærra verði. Í lok árs 2012 átti sjóðurinn 10,3 prósent og ári síðar 10,8 prósent hlut. Þannig hélst eignarhlutur Gildis fram á þetta ár. Gengi Haga á árinu 2012, þegar Gildi bætti stærstu viðbótinni við sig, var 16,45 krónur á hlut í upphafi árs en 22,48 krónur á hlut í lok þess. Þ.e. langt undir því gengi sem er á bréfunum í dag. Þessi kaup hafa því líka skilað sjóðnum bókhaldslegum hagnaði.
Hagnaður hjá hinum líka
LSR er næst stærsti eigandi Haga í dag. Sjóðurinn var ekki á meðal þeirra sem fjárfestu mikið í félaginu við skráningu. Hann var raunar ekki á meðal 20 stærstu hluthafa Haga í lok árs 2011. Það breyttist á fyrri hluta ársins 2012 og í mars það ár var eignarhlutur A-deildar LSR kominn í 6,2 prósent. Um helmingur þess hlutar var keyptur á rúmlega 17 krónur á hlut. Hinn hlutinn, miðað við skráð gengi, hefur verið keyptur á genginu 16-17 krónur á hlut. Kaupverðið hefur verið í kringum 1,2 milljarða króna.
Í lok árs 2012 var eignarhlutur LSR kominn í 8,4 prósent. Ári síðar var eignarhluturinn kominn í 9,4 prósent. Hann hefur að mestu haldist í kringum þá hlutdeild síðan, eða þangað til að sjóðurinn bætti lítillega við sig hlut í ár, 2017. Eignarhlutur A-deildarinnar er nú 10,24 prósent. B-deild sjóðsins á síðan 3,53 prósent hlut, en hún átti 4,9 prósent hlut í árslok 2012, þegar gengi bréfa í Högum var rúmlega tvöfalt lægra en það er í dag.
Samandregið þá liggur fyrir að LSR hefur hagnast á fjárfestingu sinni í Högum.
Lífeyrissjóður verslunarmanna var einnig lengi í gang við kaup á bréfum í Högum. Sjóðurinn átti 0,72 prósent hlut í árslok 2011 og bætti við sig hægt og rólega næstu árin. Í árslok 2013 var hluturinn orðinn 4,8 prósent og í lok árs 2014 8,2 prósent. Seinni hluta þess árs var gengi bréfa í Högum svipað og það er í dag. Verslunarmenn hafa síðan selt hluta af bréfum sínum í Högum á árinu 2016 og það sem af er ári. Þær sölur eru með hagnaði. Þeir eiga nú 7,16 prósent hlut og ljóst að sjóðurinn hefur hagnast á fjárfestingu sinni í smásölurisanum. Að minnsta kosti eins og staðan er í dag.
Arðgreiðslur og endurkaup
Hagar hafa greitt niður lán á undanförnum árum langt umfram lánasamninga. Það hefur skilað sér í því að skuldir félagsins hafa lækkað gríðarlega á skömmum tíma. Á rekstrarárinu 2011/2012 voru nettó vaxatberandi skuldir Haga 8,4 milljarðar króna. Í lok síðasta rekstrarárs, sem lauk í febrúar 2017, voru þær orðnar 1.279 milljónir króna. Eigið fé félagsins var á sama tíma 17,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 57,8 prósent. Þessi mikla áhersla á niðurgreiðslu skulda skilaði sér í því að eiginfjárstaða Haga er nú 11,2 milljörðum krónum betri en hún var í lok rekstrarársins 2011/2012.
Það varð til þess að stjórn Haga samþykkti nýja arðgreiðslustefnu á aðalfundi í apríl í fyrra sem fól í sér að lögð yrði áhersla á að félagið skili til hluthafa sinn þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári. Áfram yrði stefnt að því að Hagar greiði hluthöfum sínum arð sem nemi að lágmarki 50 prósent hagnaðar næstliðins rekstrarárs, líkt og gert hafði verið undanfarin ár. Að auki myndi félagið kaupa eigin bréf og kaupa fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni. Á síðasta rekstrarári keypti félagið bréf af hluthöfum sínum fyrir einn milljarð króna og frá því að félagið var skráð á markað hefur það greitt um 6,4 milljarða króna í arð til hluthafa sinna. Stór hluti þeirra arðgreiðslna hefur runnið til íslenskra lífeyrissjóða í hluthafahópnum.
Stærstu sjóðir landsins hafa því ekki tapað á fjárfestingu sinni í Högum, þótt að markaðsvirði eignar þeirra hafi dregist umtalsvert saman á undanförnum mánuðum. Þvert á móti myndu þeir allir hafa hagnast verulega á fjárfestingunni ef þeir seldu bréf sín í dag.