Dustin Lee Hoffman fæddist í Los Angeles í Kaliforníu 8. ágúst 1937, yngri sonur Lillian Gold og Harry Hoffmann leikmunavarðar og húsgagnasala. Foreldrarnir voru af gyðingaættum en það vissi Dustin ekki fyrr en hann var orðinn tíu ára. Á uppvaxtarárunum stundaði hann nám í píanóleik og vonaðist til að verða atvinnupíanóleikari. ,,Hæfileikarnir voru hins vegar ekki í neinu samræmi við áhugann, ég hafði ekki tóneyra“ sagði hann síðar.
Dustin útskrifaðist frá menntaskóla í Los Angeles 1955 og hóf þá nám í lyfjafræði við Santa Monica College en hætti eftir eitt ár. Jafnframt sótti hann tíma í leiklist hjá Pasadena Playhouse og fékk að eigin sögn leikarabakteríuna. Þegar hann sagði fjölskyldunni frá því að hann ætlaði að verða leikari sagði ein frænka hans að hann kæmist aldrei neitt áfram á því sviði: ,,allt of lágvaxinn og ekki nógu glæsilegur“.
Ekki talinn efnilegur
Þegar Dustin hafði snúið baki við lyfjafræðinni ákvað hann, þrátt fyrir úrtölur fjölskyldunnar, að einbeita sér að leiklistinni. Hélt áfram náminu hjá Pasadena Playhouse og fékk jafnframt ýmis smáhlutverk.
Einhverju sinni efndu nemendurnir (fimmtán talsins) til könnunar um hverjir úr hópnum væru síst líklegir til að öðlast frama sem leikarar. Þeir tveir sem hópurinn taldi að myndu aldrei „slá í gegn“ voru þeir Dustin Hoffman og Gene Hackman. Engir aðrir úr þessum hópi náðu síðar frægð og frama.
Til New York, Actors Studio
Eftir tveggja ára nám hjá Pasadena Playhouse ákvað Gene Hackman að flytja til New York og reyna fyrir sér sem leikari. Stuttu síðar ákvað Dustin Hoffman að gera slíkt hið sama. Þeir félagarnir leigðu saman litla íbúð í borginni ásamt þriðja manni, sá heitir Robert Duvall og átti líka eftir að gera garðinn frægan sem leikari. Þremenningarnir áttu allir þann draum að lifa af leiklistinni þótt þá hafi ekki á þessum tíma dreymt um frægð og fram. Gene Hackman sagði einhverju sinni í viðtali að þeir félagar hefðu oft rætt um framtíðina og voru sammála um ,,að þeir yrðu nú aldrei frægir.“ En Dustin hefði sagt að það væri allt í lagi ,,ef maður gæti lifað af þessu.“ Dustin fékk pláss í leiklistarskólanum Actors Studio og fékk í framhaldi af því ýmis smáhlutverk, á sviði, í sjónvarpsmyndaflokkum og kvikmyndum. Þótt ekki væri Dustin orðinn þekktur leikari voru leikstjórar og framleiðendur farnir að veita honum athygli.
The Graduate
Árið 1966 leikstýrði Mike Nichols söngleiknum The Apple Tree á Broadway í New York. Meðal þeirra sem kallaðir voru í prufu fyrir eitt aðalhlutverkið í þessum söngleik var Dustin Hoffman. Hann hreppti þó ekki hlutverkið, leikstjóranum þótti hann ekki nógu burðugur söngvari og valdi Alan Alda (sem síðar lék í MASH) í staðinn. Þótt Dustin uppfyllti ekki kröfur Mike Nichols á sviði sönglistarinnar áttaði leikstjórinn sig hins vegar á hæfileikum lágvaxna leikarans (eins og hann orðaði það síðar í viðtali) og ári síðar réð hann Dustin í hlutverk Benjamins ,,Ben“ Braddocks, aðalhlutverkið í kvikmyndinni The Graduate. Myndin, sem var frumsýnd 22. desember 1967, sló rækilega í gegn og það gerði Dustin Hoffman líka, þarna var grunnurinn lagður að frægð hans og frama. Ári áður en The Graduate var frumsýnd hafði Dustin reyndar leikið aðalhlutverkið í grínmyndinni Madigan´s Millions en hún var ekki frumsýnd fyrr en árið 1968.
Midnight Cowboy
Dustin Hoffman var orðin stórstjarna í heimi kvikmyndanna. Hann hefur sjálfur sagt að sú reynsla sem hann hafði þegar aflað sér með þeim fjölmörgu smáhlutverkum sem hann hafði tekist á hendur áður en The Graduate kom til sögunnar hafi reynst sér mikilvæg. ,,Svo var ég bara heppinn.“
Sumir sáu reyndar ástæðu til að gera grín að Dustin Hoffman. Blaðamaður tímaritsins Life sagði í grein sem birtist í blaðinu að ,,ef örlög Dustin Hoffman réðust af andliti hans biði hans einungis fátækt“.
Næsta hlutverk Dustin var reyndar ekki á hvíta tjaldinu, heldur í söngleiknum Jimmy Shine, sem hann hlaut mikið lof fyrir. Þegar tökur á The Graduate voru að byrja sagði Dustin við þá vini sína, Gene Hackman og Robert Duvall að hann ,,ætlaði bara að gera þessa þarna mynd, en ég kem svo til baka. Ég er sviðsleikari.“ Þótt hann léki margoft á sviði eftir þetta, við góðan orðstír varð hann þó fyrst og fremst frægur sem kvikmyndaleikari. Af hlutverkum hans á sviði kvaðst hann stoltastur af Willy Loman í Death of a Salesman (Sölumaður deyr) sem sýnt var á Broadway 1984.
Árið 1969 var kvikmyndin Midnight Cowboy frumsýnd. Þar var Dustin Hoffman í hlutverki umkomuleysingjans Ratso sem er bæklaður og þjáist af lungnasjúkdómi. Hitt titilhlutverk myndarinnar var í höndum Jon Voight, sem þá var lítt þekktur. Persónan Ratso var eins ólík Ben í The Graduate og hugsast getur og það sem hefur gert Dustin Hoffman að einum allra vinsælasta og virtasta kvikmyndaleikara sögunnar er einmitt þetta: Hann getur leikið hvað sem er.
John Schlesinger, sem leikstýrði Midnight Cowboy var í miklum vafa um hvort Dustin Hoffman væri rétti maðurinn fyrir hlutverk Ratso. Þeir tveir, sem höfðu aldrei hist, mæltu sér mót á Times Square.
,,Ég stóð þarna“ sagði Schlesinger ,,og til mín kom maður, sem ég hélt að ætlaði að betla peninga. Hann var haltur, órakaður, hárið feitt og klesst, í slitnum frakka og með sígarettustubb í munninum. Ég réð hann á staðnum.“ Dustin útbjó sem sagt sjálfur gervið á Ratso.
Um það leyti sem Midnight Cowboy var frumsýnd birtust víða greinar um Dustin Hoffman. Blaðamaður tímaritsins Time sagði að Dustin Hoffman hefði rækilega afsannað að leikarar verði að vera hávaxnir og snoppufríðir til að ná árangri ,,þessi nýja stjarna er hvorugt.“
Eins og perlur á bandi
Rob Nixon, þekktur bandarískur kvikmyndagagnrýnandi sagði um Dustin Hoffman og hlutverk hans í kvikmyndum að ,,þau væru eins og perlur á bandi.“ Til að glöggva sig á þessum ummælum gagnrýnandans má nefna Little Big Man, Straw Dogs, Papillon, Lenny, All The Presidents Men, Marathon Man, Kramer vs. Kramer, Tootsie, Rain Man. Perlurnar á bandinu eru fleiri en vitaskuld hefur Dustin líka tekið þátt í myndum sem gagnrýnandinn myndi ekki telja eiga heima á perlubandinu.
Tvígiftur sex barna faðir
Dustin Hoffman er tvígiftur. Með fyrri konu sinni, Anne Byrne sem hann giftist 1969, eignaðist hann eina dóttur og ættleiddi dóttur sem Anne átti fyrir. Þau Dustin og Anne skildu árið 1980. Hann giftist sama ár Lisu Gottsegen, þau eiga fjögur börn.
Dustin Hoffman hefur tvisvar hlotið Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki. Fyrst árið 1979 fyrir kvikmyndina Tootsie og í seinna skiptið fyrir Rain Man. Hann hefur auk þess hlotið margar aðrar viðurkenningar, flestar fyrir frammistöðu sína á hvíta tjaldinu en einnig sem sviðsleikari.
Og nú er hann orðinn áttræður þessi lágvaxni maður, sem dreymdi um að verða píanóleikari en varð hins vegar einn þekktasti kvikmyndaleikari sögunnar.
Það er við hæfi að ljúka þessum pistli á ummælum Barry Levinson, leikstjóra Rain Man ,,þú getur ekki flokkað Dustin Hoffmann, hann er einstakur. Það er enginn einn Dustin, hann er margar persónur, hann getur leikið allt, líka konu (Tootsie). Hann hefur stærri skala en flestir ef ekki allir aðrir leikarar, hann kafar djúpt í persónurnar og hann vandar sig alltaf svo mikið að halda mætti að hann væri að taka þátt í sinni fyrstu kvikmynd.“