Búist er við því að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2030 verði 99% meiri en árið 1990, ef framheldur sem horfir. Þetta hefur meðal annars verið rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, ritstýrði.
Til þess að landið standi við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsáttmálanum gætu íslenska ríkið og íslenskt atvinnulíf, staðið frammi fyrir rúmum 220 milljarða króna kostnaði vegna kaupa á losunarheimildum.
Ísland, Noregur og Liechtenstein eru að semja við ESB um inngöngu inn í loftslagskerfi sambandsins, en kerfið fylgir Parísarsamningnum sem undirritaður var árið 2015 og staðfestur í fyrra. Það er næsta víst að skuldbindingar þessara landa muni fara í stórum dráttum eftir þeim reglum og viðmiðum sem er að finna í tillögum ESB.
Umræddar tillögur Evrópusambandsins fela í sér að losun gróðurhúsalofttegunda muni dragast saman um 40% árið 2030 miðað við árið 1990. Það verði gert með 43% samdrætti í iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB og 30% samdrætti frá öðrum losunaraðilum.
Stóriðja og alþjóðaflug innan Evrópu fellur undir viðskiptakerfi ESB, en minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda verður framkvæmd með viðskiptum á losunarheimildum.
Langt frá markmiðum
Samkvæmt spá Orkustofnunnar þarf mikið til að Ísland geti uppfyllt þau skilyrði. Því er spáð að eldsneytisnotkun fari úr um 655 þúsund tonnum árið 1990 í um 972 þúsund tonn árið 2030, en það samsvarar 48% aukningu. Ekki er tekið tillit til skógræktar og endurheimt votlendis í þessum útreikningum.
Grafið hér að neðan sýnir þróun í losun gróðurhúsalofttegunda undanfarin ár. Svarta línan sýnir stefnu Evrópusambandsins, sem Ísland þarf að öllum líkindum að fylgja eftir. Bláa línan sýnir svo árangur sambandsins hingað til, sem hefur náð að halda markmiði sínu. Rauða línan sýnir svo árangur Íslands, en útblástur hér á landi hefur aukist nokkuð á síðustu 27 árum. Tölur fyrir útblástur hjá Íslandi innihalda að vísu ekki alþjóðaflug til og frá landsins, þótt það sé tekið með í tölum Evrópusambandsins.
Spáð er áframhaldandi aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda hjá Íslandi ef fyrirhugaðar áætlanir um opnun kísilmálmsverksmiðja gangi eftir og ferðamönnum haldi áfram að fjölga með tilheyrandi aukningu millilandaflugs. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunnar mun aukningin nema 99% árið 2030 miðað við 1990, ef fram heldur sem horfir og ekkert verður að gert.
220 milljarðar
Verð á kolefniskvóta mun fara ört vaxandi í framtíðinni, samkvæmt nýrri skýrslu sem gefin var út á vegum Alþjóðabankans. Til þess að standast skuldbindingar ESB um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda er því spáð að íslenska ríkið og atvinnulífið muni þurfa að kaupa kolefniskvóta á bilinu 5-50 milljarða á ári hverju. Núvirtur kostnaður vegna kaupa á kolefniskvóta til ársins 2030 nemur rúmlega 220 milljörðum, miðað við fyrrnefndar forsendur.
Ljóst er því að kostnaður vegna skuldbindinga Parísarsamkomulagsins muni verða veruleg áskorun. Annað hvort er hægt að fjárfesta í grænum innviðum fyrir rúma 220 milljarða eða borga þá beint út í kolefniskvóta til Evrópusambandsins. Seinni kostnaðurinn gæti hins vegar verið kostnaðarsamari fyrir Ísland, ef svo færi að landið þyrfti að standa við frekari loftslagskuldbindingar eftir árið 2030.