Í heimi teiknimyndasöguhetja má finna aragrúa sögupersóna með ólíkan bakgrunn, útlit og eiginleika. Flestar þessar persónur eru karlar en þó er ein kona sem hefur verið til nánast frá upphafi listgreinarinnar. Wonder Woman eða Ofurkonan hefur verið að lúskra á illmennum frá því í seinni heimstyrjöldinni og í millitíðinni hefur hún gengið í gegnum súrt og sætt. Með tilkomu kvikmyndarinnar, sem frumsýnd var í júní síðastliðnum, hefur blað verið brotið en þetta er í fyrsta sinn sem kvenleikstjóri leikstýrir mynd af þessari stærðargráðu. Myndin hefur fengið ljómandi dóma þrátt fyrir að vera einnig umdeild. Melkorka Huldudóttir myndlistarkona og kvikmyndanörd spjallaði við Kjarnann um gildi þess að fá slíka kvikmynd inn í algyðishof ofurhetjumynda og yfir höfuð fyrir ungar stúlkur og konur að horfa á slíka mynd.
Gyðja sem berst við hið illa
Sagan af Ofurkonunni telst gömul í heimi myndasagna en hún kom fyrst fram á sjónarsviðið í október árið 1941. Sögur hennar hafa nánast verið gefnar út stanslaust síðan þá fyrir utan pásu árið 1986. Hún kom fyrst fram í All Star Comics #8 og hefur alla tíð verið gefin út af útgáfunni DC Comics. Upprunasaga Ofurkonunnar er byggð á grískri goðafræði. Hún mun hafa verið mótuð úr leir af móður sinni, drottningu Hippólýtu og Afródíta gefið henni líf. Guðirnir gáfu henni síðan ofurmannlega krafta. Í nýrri útgáfum, sem notast er m.a. við í nýju kvikmyndinni, er hún orðin dóttir Seifs, æðsta guðsins. Hún ólst upp hjá móður sinni og frænkum sínum á Paradísareyju amazone-kvennanna sem er einskonar brú milli mannheima og guðaheima. Samfélag þetta er einungis samansett af konum og fékk hún stífa þjálfun í bardagalist í uppeldi sínu. Hún var síðan send til mannheima til að berjast við hið illa sem steðjar að mannfólkinu. Þegar þangað var komið tók hún upp nafnið Diana Prince. Hún er búin sérstökum skotheldum armböndum og ber gullsnöru sem hún notar til að þvinga sannleikann upp úr glæpamönnunum.
Myndasögurnar um Ofurkonuna eru sérstakar af augljósum ástæðum, þær fjalla um sterka konu sem einnig er í aðalhlutverki en slíkt er heldur óvenjulegt í teiknimyndasöguheiminum. Hún er á aldur við Súpermann og Leðurblökumanninn sem báðir hafa notið gríðarlegra vinsælda. Margar kvikmyndir og þættir hafa verið gerðir um ævintýri þeirra en minna um Ofurkonuna. Þó voru framleiddir þættir með Lyndu Carter í aðalhlutverki á árunum 1975 til 1979 og nutu þeir töluverðra vinsælda.
Litríkur höfundur
William Moulton Marston er upprunalegur höfundur Ofurkonunnar en hann var sálfræðingur, uppfinningamaður og rithöfundur. Hann fæddist í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1893 og var því 48 ára gamall þegar saga Ofurkonunnar kom fyrst út. Hann skrifaði teiknimyndasögurnar alla tíð undir dulnefninu Charles Moulton. Ofurkonan er sögð vera sýn Marstons á konur sem gáfaðar, hreinskilnar og umhyggjusamar. Hann útskrifaðist frá Harvard árið 1921 en eftir það kenndi hann í háskólum og skrifaði bækur. Hann starfaði einnig sem almannatengill hjá Universal kvikmyndaverinu í eitt ár. Marston fann upp, ásamt eiginkonu sinni Elizabeth Holloway, blóðþrýstingstæki sem varð síðan fyrirrennari lygamælisins.
Marston var kvæntur fyrrnefndri Elizabeth Holloway en bjó einnig með annarri konu, Olive Byrne. Í raun bjuggu þau öll þrjú saman og brutu þannig viðteknar venjur samfélagsins á þessum tíma. Saman áttu þau fjögur börn og ólu þau börnin upp í sameiningu. Hann var einnig orðaður við B&D eða Bondage and discipline sem gengur út á að binda félaga sinn, oftast í kynlífi, og ná valdi yfir honum og öfugt. Vísbendingar um þetta komu fram í sögunum um Ofurkonuna en gjarnan batt hún óvini sína eða þeir hana. Eftir dauða Marston árið 1947 héldu þær Byrne og Holloway áfram að búa saman og ala upp börnin og alla tíð á eftir.
En þrátt fyrir að vera titlaður skapari Ofurkonunnar og ævintýra hennar er það þó ekki alveg svo einfalt. Fyrirmyndir hennar voru konan hans og sambýliskona, þær Halloway og Byrne. Þær eru einnig sagðar hafa skapað hana með honum til að gefa ungum stúlkum sterka fyrirmynd til að líta upp til. Í raun var framlagi kvennanna þó ekki hampað fyrr en áratugum síðar en til að mynda var Holloway kölluð mamma Ofurkonunnar í grein í The New York Times frá árinu 1992, ári áður en hún dó.
Framundan er að vænta kvikmynd um Marston. Hún nefnist Professor Marston & the Wonder Women en myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum í október seinna á árinu. Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af myndinni:
Hefði ung viljað sjá svona kvikmynd
Til hefur staðið að gera kvikmynd um Ofurkonuna í mörg ár og fjöldi leikkvenna verið orðaður við hlutverk Díönu prinsessu. Svo ekki verður annað sagt en að beðið hafi verið eftir kvikmyndinni með töluverðri eftirvæntingu. Myndin hafði verið í framleiðslu í nokkur ár áður en hún var frumsýnd út um allan heim fyrr á árinu. Melkorka Huldudóttir, myndlistarkona og umsjónarmaður hlaðvarpsins Popp og fólk á Alvarpi Nútímans, fór í sumar á Wonder Woman með viðmælanda sínum. „Mér fannst myndin æði og er fyrsta korterið af myndinni algjörlega þess virði fyrir alla að sjá. Af því að þetta er í fyrsta sinn sem ég, sem er búin að sjá vandræðalega mikið af kvikmyndum, sé svona mikið af öflugum konum í líkamlegum bardagaatriðum,“ segir hún. Þær séu svo ótrúlega kröftugar og ólíkar en í hlutverkin voru valdar ýmsar íþróttakonur og ólympíumeistarar.
Melkorka segist hafa verið ofurliði borin fyrsta korterið yfir því að sjá þessi atriði. Áður hafi hún bara séð karlmenn í svona hlutverkum en í fyrsta skipið væri hér um konur að ræða. „Mér finnst þetta mjög mikilvægt því ég á tvær litlar dætur og ég er brjálæðislega glöð að fá Wonder Woman til að sýna þeim. Ég hefði viljað sjá svona mynd þegar ég var lítil,“ segir hún. Ung segist hún hafi lesið myndasögur og að Wonder Woman hafi læðst með öllu sem hún las. „Ég hafði strax áhuga á kvikmyndinni um leið og hún kom út, því ég er meiri kvikmyndanörd en myndasögunörd. En ég hef náttúrulega alltaf þekkt Wonder Woman og vitað af þáttunum með Lyndu Carter en mér finnst þeir mjög skemmtilegir,“ segir hún.
Fegin að vel heppnaðist til
Patty Jenkins leikstýrir myndinni og hefur áður gert sjónvarpsmyndir og þætti. Hún er líklegast frægust fyrir að skrifa og leikstýra kvikmyndinni Monster frá árinu 2003 með Charlize Theron í aðalhlutverki. „Mér finnst mjög mikilvægt að það var kona sem leikstýrði Wonder Woman,“ segir Melkorka. Henni finnst í raun óskiljanlegt að ekki hafi verið gerð kvikmynd fyrr um ofurhetjuna, miðað við að búið sé að gera kvikmyndir um ýmiss konar karlhetjur.
Melkorka segist hafa verið ánægð með hversu vel heppnuð kvikmyndin er því pressan hafi verið mikil. Konur séu oft fulltrúar allra annarra kvenna og væntingarnar því meiri. En hún segir að henni hafi verið létt þegar hún sá hversu góð myndin var því þá væri von á fleiri myndum.
Mikið hefur breyst á síðustu áratugum og segir Melkorka að ekki hafi verið sama litróf kvikmynda og er í dag. Stelpur hafi þannig fleiri fyrirmyndir en áður og vonast hún til að þessi þróun haldi áfram. „Mér fannst þetta mjög mikilvæg mynd,“ segir hún og hvetur fólk til að sýna stelpunum sínum Wonder Woman og ekki síður strákunum.
Kvikmyndin bönnuð víðsvegar í Mið-Austurlöndum
Kvikmyndin er þrátt fyrir velgengni ekki óumdeild. Þegar myndin fór í framleiðslu og alveg þangað til hún kom út voru háværar raddir sem mótmæltu vali á leikkonunni í aðalhlutverkið, henni Gal Gadot. Leikkonan sú er fædd og uppalin í Ísrael og vann titilinn ungfrú Ísrael árið 2004. Hún hefur unnið sem fyrirsæta og leikið í nokkrum myndum áður en hún tók við hlutverki Ofurkonunnar. Hún var í ísraelska hernum í tvö ár en þar í landi er herskylda sem öllum ber að sinna.
Vegna þessa var kvikmyndin bönnuð í löndum á borð við Líbanon, Túnis og Katar. Myndin var tekin af kvikmyndahátíð í Alsír til stuðnings við Palestínumenn og var hún tímabundið bönnuð í Jórdaníu.
Meginástæðan fyrir því að margir eru óánægðir með leikkonuna ísraelsku, fyrir utan veru hennar í hernum, má rekja til færslu hennar á Facebook í júlí 2014. Þar segir hún:
„Ég sendi ástarkveðjur og bænir mínar til ísraelskra samlanda minna. Sérstaklega til allra strákanna og stelpnanna sem fórna lífi sínu til að vernda land mitt gegn hroðaverkum Hamas, sem fela sig eins og gungur bak við konur og börn... Við munum sigra! Shabbat Shalom!“
Á myndinni með færslunni sjást hún og dóttir hennar biðja fyrir framan kertaljós. Átök höfðu harðnað á þessum tíma milli ísraelskra stjórnvalda og íbúa Gaza og fór þessi afgerandi stuðningur Gadot fyrir brjóstið á mörgum.
En þrátt fyrir umdeilda leikkonu þá eru margir ánægðir með framlagið og geta beðið með eftirvæntingu eftir Wonder Woman 2 en til stendur að framhald af sögu Ofurkonunnar komi út árið 2019.