Arion banki hefur fært niður 16,3 prósent eignarhlut sinn í United Silicon að fullu í bókum sínum. Bankinn er auk þess með átta milljarða króna útistandandi við félagið, þar með talið lánsloforð og ábyrgðir. Niðurfærsluþörf á þeim lánum er enn óljós og háð fjárhagslegri endurskipulagningu United Silicon. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Arion banka sem birtur var í dag.
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna.
Á meðal hluthafa og lánveitenda þess eru Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir. Í afkomutilkynningu Arion banka segir að ljóst sé að félagið þarfnist aukins fjármagns svo bæta megi búnað og aðstöðu svo verksmiðjan standist framleiðslumarkmið og gæðakröfur sem sett hafa verið. Því er ljóst að núverandi hluthafar United Silicon hafa að öllum líkindum tapað eignarhlut sínum í félaginu, lánveitendur þess munu þurfa að gefa eftir hluta af kröfum sínum og aukið fjármagn þarf til svo að starfsemi verksmiðjunnar haldi áfram.
Ítrekuð áföll
Í afkomutilkynningu Arion banka er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra bankans, að hann hefði lagt United Silicon til verulegt lánsfé. „Horft var til fjölmargra þátta við ákvörðunina; öll leyfi voru til staðar, eftirspurn og markaðsverð afurðarinnar var gott, tæknin var margreynd, stjórnvöld og sveitarfélagið voru áfram um framkvæmdina og að verkefninu komu innlendir og erlendir sérfræðingar og fjárfestar. Jafnframt lá fyrir að reynsla af kísilverum var almennt góð og að um var að ræða verkefni sem skapaði bæði störf þar sem þörf var fyrir hendi og gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbú sem bjó við gjaldeyrishöft. Starfsemi United Silicon hófst svo í nóvember 2016 en því miður komu ítrekuð áföll upp í starfseminni. Félagið hefur óskað eftir greiðslustöðvun og leitar nú nauðasamninga við kröfuhafa. Arion banki fylgist náið með þróun mála og leggur félaginu lið í greiðslustöðvun sem helsti lánveitandi þess. Forgangsverkefni er að klára nauðsynlegar úrbætur á verksmiðjunni þannig að framleiðsla og umhverfisþættir starfseminnar verði í lagi til frambúðar og verksmiðjan starfi í sátt við samfélagið.“
Þrír lífeyrissjóðir fjárfestu fyrir 2,2 milljarða
Í síðustu viku var greint frá því að þrír íslenskir lífeyrissjóðir hefðu fjárfest fyrir samtals 2,2 milljarða króna í verkefninu. Sjóðirnir sem um ræðir eru Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur fjárfest mest, eða fyrir 1.178 milljónir króna. Festa lagði félaginu til 875 milljónir króna í hlutafé og skuldabréfalán. Allir þrír sjóðirnir tóku þátt í hlutafjáraukningu í apríl og lögðu þá 460 milljónir króna til viðbótar í United Silicon.
Arion banki rekur auk þess Frjálsa lífeyrissjóðinn og hann er til húsa í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Bankinn skipar þrjá af sjö stjórnarmönnum Frjálsa lífeyrissjóðsins samkvæmt samþykktum hans.
EFÍA er líka rekinn af Arion banka. Í yfirlýsingu sem sjóðurinn birti á heimasíðu sinni fyrir helgi kom fram að heildarfjárfesting hans í verkefninu væri 112,9 milljónir króna. Líkt og með aðrar sérhæfðar fjárfestingar hafi það verið stjórn sjóðsins sem tók ákvörðun um hana „að undangenginni ítarlegri greiningu sérfræðinga eignastýringu Arion Banka.“ Framkvæmdastjóri sjóðsins er starfsmaður Arion banka.