Rússlandsmarkaður hefur verið Íslandi mikilvægur á undanförnum árum, og hafa viðskipti með makríl og loðnu einkum verið mikil til Rússlands. Frá því innflutningsbann Rússa tók gildi 6. ágúst 2015, hafa dyrnar verið lokaðar inn á markaðinn.
Miklar breytingar hafa enn fremur orðið á stöðu efnahagsmála í Rússlandi samhliða viðskiptaþvingunum vesturlanda, með Evrópusambandið og Bandaríkin í broddi fylkingar. Ísland hefur tekið þátt í þessum aðgerðum með pólitískum samherjum á alþjóðavettvangi, og segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að ekki komi til greina að breyta afstöðu Íslands, en vel sé fylgst með því hvernig megi vernda íslenska hagsmuni og finna leiðir til að styrkja sambandið við hinn mikilvæga rússneska markað.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir í grein á vef SFS að Íslendingum sé ekki skylt að taka þátt í viðskiptaþvingunum, og að það þurfi að vega þá miklu hagsmuni sem séu fyrir hendi. „Viðskiptabannið hefur komið hlutfallslega harðar niður á íslenskum hagsmunum en hagsmunum annarra ríkja. Þar er hlutur sjávarútvegsins langstærstur. Þátttaka Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi kom til vegna þrýstings frá Bandaríkjunum og Evrópusambandinu, að sögn fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar. Íslendingum er því í raun ekki skylt að taka þátt í þeim,“ segir í grein Heiðrúnar.
Hagsmunirnir eru ekki aðeins bundnir við sjávarútveg, þó hann vegi þungt, heldur hefur landbúnaðurinn einnig verið að vinna í því að opna fyrir útflutning á lambakjöti og öðrum landbúnaðarafurðum til Rússlands. Þar eru dyrnar einnig lokaðar.
Á ársgrundvelli eru hagsmunir á bilinu 10 til 20 milljarðar fyrir íslenska þjóðarbúið. Á tölum Hagstofu Íslands sést glögglega að Rússabannið hefur haft mikil áhrif á viðskipti með makríl. Árið 2014 var heildarútflutningur makríls 23,6 milljarðar króna, en í fyrra nam hann 9,8 milljörðum. Reikna má með jafnvel enn meiri samdrætti á þessu ári.
En hvernig eru efnahagshorfurnar í Rússlandi þessi misserin? Þegar öllu er á botninn hvolft þá skiptir máli hvernig kaupgetan er í Rússlandi, þegar fram í sækir.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur fylgst náið með gangi mála í Rússlandi og sendi frá sér greiningu á stöðu mála þar í júlí, og lagði meðal annars til að rússnesk yfirvöld myndu styrkja viðskiptasambandið við önnur ríki og ýta undir frekari viðskipti.
Sérstaklega er fjallað um fimm atriði, sem þurfi að laga í Rússlandi til að ýta undir vöxt og styrkingu hagkerfisins. Undanfarin ár hafa verið Rússlandi erfið, svo ekki sé fastar að orði kveðið, þar sem lækkun á olíuverði og viðskiptaþvinganir hafa gert Rússum erfitt fyrir. Vladímir Pútín, Rússlandsforseti, hefur þó talað um að Rússar „geti bjargað sér“ og hefur innlend framleiðsla verið stórefld á hinum ýmsa varningi.
Í Rússlandi búa 144 milljónir, og markaðurinn því stór.
Atriðin fimm sem AGS nefnir sérstaklega að þurfi að huga að eru eftirfarandi.
1. Breytingar á viðskiptaumhverfinu. Tekið er fram í greiningu AGS að Rússar þurfi að styrkja regluverk til að efla fjárfestingu, og á það meðal annars við um atriði sem snúa að eignarétti og leyfisveitingum á hinum ýmsu mörkuðum. Það myndi liðka fyrir fjárfestingu og örva hagvöxt.
2. Uppbygging innviða. Rússland er það land í heiminum þar sem mesta landsvæðið er undir. Það er stærsta land heims, en vegir og innviðir eru víða í hræðilegu ásigkomulagi. Rússar þurfa að efla innviði til að bæta samkeppnishæfni og ýta undir meiri vöxt og gæði í framleiðslu og þjónustu, segir AGS.
3. Of mikið flækjustig. AGS telur að Rússar hafi mikil tækifæri í því, að auðvelda fyrirtækjum að koma vörum inn á Rússlandsmarkað. Hvergi er vikið að þeim bönnum sem í gildi eru, en talað almennt fyrir því að inngang á Rússlandsmarkað sé of flókin. Sérstaklega er þetta talið vera tilfellið með hinar ýmsu hrávörur.
4. Efla alþjóðleg viðskipti. Í gildi eru innflutningsbönn á hinar ýmsu þjóðir, en AGS telur að Rússar verði að huga að því að efla viðskipti við aðrar þjóðir. Opna dyrnar, ekki halda þeim lokuðum. Nauðsynlegt sé fyrir Rússa að huga að öðrum mörkuðum en þeim sem eru í næsta nágrenni, og efla alþjóðlega samkeppni innanlands. Með því gætu rússnesk fyrirtæki myndað tengsl við nýja markaði og bæði keypt og selt vörur á betri og raunhæfari verðum.
5. Efla nýsköpun. Ef það er eitthvað sem Rússar eru ekki nægilega góðir í, þá er það nýsköpun. Þeir hafa ekki verið þekktir fyrir mikla frumkvöðlastarfsemi í efnahagslífinu, og AGS telur að þar þurfi Rússar að bæta sig mikið. Bent er á að lykillinn að árangri hjá fyrirtækjum sé að auka notkun nýrrar tækni til að efla framleiðni og auka gæði. Rússar séu komnir of stutt í þessu, og stjórnvöld þurfi að huga að stuðningsaðgerðum til að meiri árangur náist.