Í síðustu viku var greint frá því að lítill hópur öflugra bakhjarla hefðu lagt stjórnmálaflokknum Viðreisn til milljónir króna í fyrra, þegar flokkurinn var formlega stofnaður og tók þátt í sínum fyrstu kosningum. Helgi Magnússon og félög tengd honum gáfu Viðreisn samtals 2,4 milljónir króna á árinu 2016. Sigurður Arngrímsson, viðskiptafélagi Helga og aðaleigandi sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar, gaf 1,2 milljónir króna í eigin nafni og í gegnum tvö félög sín. Þá gaf Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest stærsta eiganda Marel, stjórnmálaflokknum 950 þúsund krónur í eigin nafni og í gegnum félag sitt. Alls fékk Viðreisn 27 milljónir króna frá einstaklingum og fyrirtækjum. Á meðal þekktra fyrirtækja sem gáfu flokknum fé var Bláa lónið, sem stýrt er af Grími Sæmundsen.
Upphaf Viðreisnar er vanalega rakið til þess þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sleit viðræðum við Evrópusambandið í febrúar 2014. Sú ákvörðun fór ákaflega fyrir brjóstið á hópi alþjóðasinnaðra Sjálfstæðismanna sem töldu að með því hefði Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, svikið loforð um að viðræðum yrði ekki hætt nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi hópur, sem innihélt meðal annars ýmsa mjög fjársterka og áhrifamikla einstaklinga úr viðskiptalífinu, hóf í kjölfarið undirbúning að nýju stjórnmálaafli. Sá undirbúningur átti sér stað í nokkrum mismunandi sellum og sumir sem í þeim voru tóku aldrei raunverulegan þátt í stofnun þess flokks sem síðar varð Viðreisn, heldur héldu sig áfram í Sjálfstæðisflokknum.
Hluti hópsins hóf að hittast reglulega til að ræða möguleikann á nýju framboði og annar hópur stofnaði lokaða grúppu á Facebook undir nafninu „Nýi Sjálfstæðisflokkurinn“.
Auk þess var stór hópur sem sendi á milli sín tölvupósta reglulega. Og uppistaðan í þeim hópi kom síðar að stofnun Viðreisnar.
Tölvupóstur sendur
Í mars 2014, um mánuði eftir að aðildarviðræðum við Evrópusambandið var slitið, átti hópur áhrifamanna, margir hverjir gegnheilir sjálfstæðismenn til áratuga, í reglulegum og áhyggjufullum samræðum um þjóðfélagsástandið.
Þann 16. mars sendi einn úr hópnum, fjárfestirinn Helgi Magnússon, tölvupóst á hóp félaga sinna. Á meðal þeirra sem fengu póstinn voru Róbert Trausti Árnason (nú fréttastjóri Hringbrautar), Þórhallur Jósepsson (nú upplýsingafulltrúi Lífeyrissjóðs verslunarmanna), Vilmundur Jósefsson, Ingvi Hrafn Jónsson (lengi sjónvarpsstjóri ÍNN), Grímur Sæmundsen (forstjóri Bláa lónsins), Þórður Magnússon (stjórnarformaður Eyris Invest), Sigurður Arngrímsson (fjárfestir og eigandi Hringbrautar), Vilhjálmur Egilsson (nú rektor á Bifröst) og Páll Bragi Kristjónsson, fyrrverandi forstjóri Eddu-útgáfu.
Innihald pósts Helga var gagnrýni á Davíð Oddsson, spillta hugsun Framsóknar- og Sjálfstæðismanna og Morgunblaðið.
Í svörum sem bárust við honum voru meðal annars viðraðar áhyggjur af því að full ástæða væri til að óttast að aðgerðir til að draga Ísland út úr Evrópska efnahagssvæðinu yrðu næstar á dagskrá eftir að umsókn um aðild að Evrópusambandinu yrði slegin af. Einn þeirra sem svaraði póstinum var Sigurður Arngrímsson. Orðrétt sagði hann: „Ég fæ ekki betur séð en þetta sé allt rétt. Davíð er auðvitað að draga athyglina frá sjálfum sér hvað varðar klúður í Seðlabankanum. Ég fæ ekki betur séð en hann sé nú klárlega dýrasti maður lýðveldisins. Hvernig væri að fara svolítið yfir það?“
Viðreisn ekki vel séð hjá Morgunblaðinu
Í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, sem stýrt er af Davíð Oddssyni, hefur ætið verið fjallað um Viðreisn af mikilli andstyggð. Þannig var málum háttað fyrir kosningar og á meðan að stjórnarmyndunarviðræðum stóð. Andúð hans á Viðreisn hefur ekki dregist neitt saman við það að flokkurinn er nú í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þvert á móti hefur hún færst yfir á ríkisstjórnina sem heild.
Hann endurtók sömu orð að mestu í Reykjavíkurbréfi 4. ágúst. Og bætti svo við: „Einhverjir eru í spyrja sig og aðra, með hliðsjón af fallandi stuðningi, hvort þessi ríkisstjórn sé við það að falla. En það er með öllu óvíst að hún sé fær um það. Ríkisstjórn, sem samkvæmt sameiginlegum sáttmála sínum stendur ekki fyrir neitt, á ekki auðvelt að finna sér mál til að falla á. Meira að segja þegar hún mætir með sín allra vitlausustu mál fyrir þingið mun stjórnarandstaðan taka þeim fagnandi. Ríkisstjórn sem telur að það bendi til þess að hún sé á réttri leið hefur týnt áttavitanum sem hún fékk í fermingargjöf.“