Að búa með tengdó

Myndir þú vilja búa með tengdó? Mörgum þætti slíkt aldeilis fráleit uppástunga og myndu segja nei, án þess að hugsa sig um. En hinir eru líka margir sem vel gætu hugsað sér það og í Danmörku fer þeim ört fjölgandi.

Tengdamóðirinn á myndinni tengist fréttaskýringunni ekki beint.
Tengdamóðirinn á myndinni tengist fréttaskýringunni ekki beint.
Auglýsing

Miðað við þær fjölmörgu sögur sem til eru um tannhvassar tengdamömmur mætti halda að þær væru hálfgerðar grýlur, sí og æ  með vöndinn á lofti, skammist yfir því að ekki sé nægilega vel ryksugað, börnin jafnvel í götóttum fötum. Í tengdamömmusögunum er það oftast nær móðir eiginmannsins sem þykir tengdadóttirin ekki hugsa nógu vel um „drenginn“, hann fái ekki sama atlæti og meðan hann var í foreldrahúsum „hann er eitthvað svo fölur og tekinn.“ Margar sögur eru til um tengdamæðurnar sem telja sig þurfa að kenna eiginkonu sonarins sitt af hverju um „hagnýt heimilisfræði“ oftar en ekki við takmarkaða hrifningu „nemandans“. Einhverra hluta vegna eru slíkar sögur af tengdafeðrum og -sonum mun sjaldgæfari. Kannski er skýringin sú að þessi tengdamömmusöguhefð er gömul, frá þeim tíma þegar heimilið var fyrst og fremst vinnustaður kvenna.

Veruleikinn er hins vegar allt annar en í sögunum af þeim tannhvössu tengdamæðrum sem stundum er grínast með.

Gamla kynslóðafjölskyldan

Fyrir ekki ýkjamörgum áratugum, ekki síst til sveita, var það algengara en ekki að innan veggja hvers heimilis byggju þrjár, jafnvel fjórar, kynslóðir. Afi og amma, foreldrar og börn, jafnvel barnabörn. Þetta þótti sjálfsagt. Þá þótti ekkert eðlilegra en að hjónin í húsinu hefðu foreldra, að minnsta kosti annars þeirra, á sínum snærum. Stofnanir fyrir aldraða fyrirfundust vart og afinn og amman í húsinu voru sjálfsagður hluti fjölskyldunnar. Þau kenndu iðulega börnum að lesa, sögðu þeim sögur og litu til með þeim heima fyrir. Gamla fólkið, einkum konur en líka oft karlar, var duglegt að prjóna, til dæmis sokka, vettlinga, nærföt og peysur. Á heimilum þurfti að inna af hendi fjölmargt sem ekki þekkist í dag, matur var að miklu leyti unninn heima, í það fór mikill tími, það var ekki hlaupið í búðina eftir rabarbarasultunni eins og nú er gert. Börnin báru virðingu fyrir þeim eldri sem höfðu á móti ánægjuna af því að sjá ungviðið þroskast og dafna.

Auglýsing

Ýmsar ástæður voru fyrir þessum „félagsbúskap“, einkum þó praktískar.

Þetta breyttist smátt og smátt og í dag þykir það síður en svo sjálfsagt, að minnsta kosti á Vesturlöndum, að þeir öldruðu búi hjá börnum sínum. Þekktur rithöfundur orðaði það svo að „nú vilja allir vera prívat, hanga einir í sinni holu, mesta lagi með makanum, og svo heimilisvininum: sjónvarpinu.“ Kannski er þetta aðeins orðum aukið en margir þekkja þessa lýsingu.

Í Danmörku fjölgar kynslóðafjölskyldum sem búa saman

Margir þekkja það að flytja tímabundið heim til foreldranna, eða tengdaforeldranna. Oft er það millibilsástand, meðan fólk er „á milli íbúða“.

Þótt víða séu margir byggingakranar sem ber við himin er húsnæðisskortur alþekkt vandamál, ekki síst í borgum. Danmörk sker sig ekki úr að þessu leyti, þar er húsnæði dýrt, framboðið takmarkað en eftirspurnin mikil. Verst er ástandið í höfuðborginni Kaupmannahöfn en þangað flytja í hverjum mánuði rúmlega 1100 manns,umfram þá sem flytja burt.

Á síðustu árum hefur það gerst að kynslóðaheimilum hefur fjölgað mikið í Danmörku. Samkvæmt upplýsingum frá dönsku þjóðskránni eru nú rúmlega ellefu þúsund kynslóðafjölskyldur í landinu, samtals um áttatíu þúsund manns. Miðað við íbúafjölda landsins (5.7 milljónir) er þetta svo sem ekki ýkja há tala en hefur þó hækkað um þrjátíu prósent á nokkrum árum.

Af hverju?  

Dagblaðið Jótlandspósturinn hafði fyrir skömmu samband við allstóran hóp fólks, sem ýmist er nýflutt til tengdafólks, eða hefur búið á kynslóðaheimili um árabil. Blaðamennirnir spurðu um ástæður þess að fólk hefði valið þetta fyrirkomulag. Flestir nefndu fyrst að það væri af praktískum ástæðum, það væri einfaldlega mun hagkvæmara þar sem fleiri deila húsnæðiskostnaðinum, matar- og rafmagnsreikningum o.s.frv. Þetta kemur ekki sérlega á óvart. En þeir sem spurðir voru nefndu fleira. Barnafólk nefndi nær allt að það væri mikið öryggi að hafa eldri kynslóð á heimilinu. Alltaf, eða oftast, einhver heima þegar börnin kæmu heim úr skóla og það kynnu þau vel að meta. Þegar börnin voru spurð voru svörin á sömu leið, það væri svo gott að einhver væri heima þegar skóladeginum lyki. ,Afi og amma hafa alltaf tíma og af því að þau eru heima gerir ekkert til þó pabbi og mamma komi seinna heim“ var algeng skýring þeirra ungu.

Eldra fólkið sagði líka að það kynntist unga fólkinu miklu betur en ef það byggi annars staðar, jafnvel í öðrum landshluta.

Þegar spurt var hvort þessu fylgdu ekki líka ókostir svöruðu flestir neitandi. Sögðu að þeir hefðu ekki ákveðið að stíga þetta skref nema vera nokkurn veginn vissir um að þetta væri rétt ákvörðun.

Fasteignasalar segja að þeim fjölgi stöðugt sem leiti að húsnæði sem sé nægilega stórt fyrir pabba, mömmu, börn og tengdaforeldrana. Danskar ferðaskrifstofur segja sömuleiðis að ferðir þar sem kynslóðafjölskyldur ferðist saman njóti æ meiri vinsælda.

Fjölskylduráðgjafi sem Jótlandspósturinn ræddi við sagðist ekki undrast að æ fleiri skuli velja kynslóðafjölskylduformið. Það sé hins vegar nauðsynlegt að koma sér saman um ákveðnar reglur, til að tryggja að allir séu sáttir. „Það gengur ekki að tengdamamma verði gerð að vinnukonu, slíkt fyrirkomulag er dæmt til að mistakast“.   

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar