Óhætt er að segja að undanfarinn áratugur á alþjóðamörkuðum hafi verið áratugur ótrúlegs uppgangs tæknifyrirtækja, sem hafa meðal annars verið leiðandi í tækni og þróun snjallsímavæðingarinnar.
85 sinnum Ísland
Stærsta fyrirtækið af öllum er Apple, en gengi þess náði hæstu hæðum fyrr í vikunni. Markaðsvirði fyrirtækisins er nú 815 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur meira en 85 þúsund milljörðum króna. Það er meira en 85 sinnum meira en íslenski hlutabréfamarkaðurinn í heild sinni. Markaðsvirðið hefur þrefaldast frá því árið 2013.
Svipaðar sögur er hægt að segja af Amazon, Alphabet (Google) og Microsoft. Markaðsvirði þess síðarnefnda er nú 561 milljarður Bandaríkjadala, en það er þreföldun á liðlega þremur árum.
Til að setja þessar tölur í samhengi, þá er markaðsvirði Goldman Sachs bankans 90,4 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega einum tíunda af markaðsvirði Apple.
Bóla?
Töluvert hefur verið fjallað um það í Bandaríkjunum að undanförnu, að miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum - ekki síst hjá tæknifyrirtækjum - séu innistæðulausar, og stutt sé í að „loftið leki úr bólunni“. Hinn virti pistlahöfundur New York Times, Ruchi Shamra, segir, í pistli sem birtist 5. ágúst síðastliðinn, margt benda til þess að alþjóðamarkaðir séu nú „djúpt“ inn í yfirverðlagningarumhverfi. Og eins og ávallt þegar bólur eru annars vegar, þá tekur enginn eftir þeim fyrr en þær eru sprungnar. Hann spyr að því í pistli sínum hvenær bólan muni springa. En að sama skapi bendir hann á, að þrátt fyrir allt þá hafi tæknifyrirtækin sýnt góðan rekstur.Allt stútfullt af peningum
Önnur hlið er þó á teningnum, sem margir hafa líka rætt um. Hún snýr að digrum sjóðum tæknifyrirtækjanna. Þannig á Apple nú um 250 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri og sjóðirnir eru einnig digrir hjá hinum stóru fyrirtækjunum. Microsoft er með sjóði upp á 150 milljarða Bandaríkjadala.
Fyrirtækin þurfa ekki stofna til skulda en gera það stundum, þar sem vaxtakjörin sem bjóðast þeim eru ígildi þess að fá peningana gefins. Með öðrum orðum; þessi fyrirtæki eru til alls vís þegar kemur að því að feta inn á nýja markaði, leiða fram nýja þróun sem erfitt er að sjá fyrir og halda vel á spöðunum í núverandi umhverfi.
Það er vissulega hægt að tala um bólur, en það er samt ótrúlegt að hugsa til þess að þrátt fyrir Apple sé metið á 815 milljarða Bandaríkjadala, þá er það minna en fjórum sinnum meira en laust fé fyrirtækisins frá rekstri. Í því samhengi er verðmiðinn kannski ekki svo hár.