Í vor keyptu tvö félög stóran hlut í Stoðum, sem áður hét FL Group. Félögin keyptu hlutina að mestu af GlitniHoldco, eifnarhaldsfélagi utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis. Þegar hlutur félaganna tveggja var lagður saman við lítinn hlut hollensks aðila sem starfar með þeim er sameiginlegur eignarhlutur hópsins um 52 prósent. Hann er því með meirihluta í Stoðum/FL Group, sem eitt sinn var alræmdasta fjárfestingafélag landsins.
GlitnirHolco hefur ekkert viljað gefa upp um hvað hefði verið greitt fyrir hlutinn sem félagið seldi, en það hafði átt 40,28 prósent hlut. Raunar hafa ekki fengist upplýsingar um hvenær hópurinn sem nú á meirihluta í Stoðum hóf uppkaup sín á bréfum, hvað hann greiddi fyrir hlutinn né hvernig þau kaup voru fjármögnuð.
Hlutafé samtals 4,8 milljarðar króna
Í samþykktum félagsins sem keypti hlutinn, S122 ehf., er hlutafé þess félags um 4,1 milljarður króna. Eina eign S122 er hluturinn í Stoðum/FL Group og félagið var stofnsett í þeim eina tilgangi að kaupa þann hlut.
Hitt félagið sem keypti stóran hlut í Stoðum heitir S121 ehf. Það á 8,45 prósent hlut í félaginu. Hlutafé þess er 700 milljónir króna. Fyrirliggjandi upplýsingar, sem hægt er að nálgast úr fyrirtækjaskrá, benda því til þess að greitt hafi verið um 4,8 milljarðar króna fyrir 48,73 prósent hlut í Stoðum snemma í vor.
Miðað við það verð mætti ætla að markaðsvirði Stoða væri um tíu milljarðar króna.
Eina eftirstandandi eign Stoða/FL Group er 8,87 prósent hlutur í hollenska drykkjavöruframleiðandanum Refresco. Um síðustu áramót var markaðsvirði þess hlutar um 12 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi Stoða.
Samkvæmt kynningu sem haldin var á hluthafafundi Stoða/21. apríl síðastliðinn, eftir að kaupin voru öll um garð gengin, kom fram að virði hlutarins væri um 128 milljónir evra, sem er 15,9 milljarðar króna á núvirði. Síðan þá hefur hlutabréfaverð í Refresco reyndar fallið um átta prósent. Virðið í dag ætti því að vera um 14,6 milljarðar króna.
Því virðist ljóst að hópurinn sem keypti hlutinn í Stoðum snemma á þessu ári, í viðskiptum sem litlar upplýsingar fást um, hefur hagnað mjög vel á fjárfestingu sinni. Viðmælendur Kjarnans í viðskiptalífinu segja fyrirliggjandi að saman hafi hópurinn þegar hagnast, bókhaldslega, um nokkra milljarða króna.
Gamlir lykilmenn úr FL og stjórnarmenn TM
En hverjir eru í þessum hópi? S122 (áður Ell 323) og S122 eru í eigu fjögurra einkahlutafélaga og eins skráðs félags, Tryggingamiðstöðvarinnar. Félögin fjögur heita Helgarfellehf., Esjuborg ehf., Einir ehf. og GGH ehf. Þrjú þeirra, eru í eigu aðila sem eru líka stórir hluthafar í Tryggingarmiðstöðinni. Og eigendur þeirra voru margir hverjir lykilmenn í FL Group á árunum fyrir hrun.
Esjuborg er í 50 prósent eigu félags sem heitir Jöklaborg. Það er skráð í 100 prósent eigu Jóhanns Arnars Þórarinssonar, forstjóra og eins stærsta eiganda veitingarisans Foodco. Hinn helmingurinn í Esjuborg er í eig Riverside Capital SARL, félags sem er skráð í Lúxemborg. Samkvæmt Panamaskjölunum er það félag í endanlegri eigu Fortown Corp, félags skráð á Möltu. Eigandi þess félags er Örvar Kærnested. RiversideCapital á líka 2,63 prósent hlut í Tryggingamiðstöðinni í gegnum íslenska félagið Riverside Capital ehf. Hann situr einnig í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar. Örvar var yfir starfsemi FL Group í London um tíma fyrir bankahrun og þar áður hjá Kaupþingi í níu ár. Hann er nú umsvifamikill fjárfestir. Hann settist í stjórn Stoða á síðasta aðalfundi félagsins, se fór fram 21. apríl síðastliðinn.
Einar Örn Ólafsson er líka á meðal eigenda Tryggingamiðstöðvarinnar. Hann á 2,76 prósent hlut í henni í gegnum félag sitt Einir ehf. Það félag er líka á meðal þeirra sem náð hafa yfirráðum í Stoðum. Einar starfaði hjá Glitni og síðar Íslandsbanka á árum áður. Hann var meðal annars forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka fyrstu mánuðina eftir að bankinn var endurreistur eftir hrunið. Hann gerðist síðan forstjóri Skeljungs í maí 2009 eftir að hafa hætt hjá bankanum vegna trúnaðarbrests. Hann er í dag umsvifamikill fjárfestir.
Stærsti einstaki eigandi að hlutum í Tryggingamiðstöðinni, að undanskildum lífeyrissjóðum og sjóðs í stýringu Stefnis, er félag sem heitir Helgarfell ehf. með 6,34 prósent hlut. Helgarfell er líka á meðal þeirra félaga sem keyptu stóran hlut í Stoðum með Tryggingarmiðstöðinni á síðustu mánuðum.
Eigendur Helgarfells eru Björg Fenger, Kristín Fenger Vermundsdóttir og Ari Fenger. Björg er eiginkona Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group/Stoða. Jón tók við sem stjórnarformaður Stoða á síðasta aðalfundi félagsins fyrir tæpum mánuði síðan.
Fjórða félagið sem er stór eigandi í S122 og S121 heitir GGH ehf. Eigendur þess eru Gruppen ehf. (í eigu hollenska félagsins Golden Gate Management BV, sem tengist Magnúsi Ármann), Ágúst Már Ármann (faðir Magnúsar Ármann), og BNB Consulting (félag í eigu Bernhards Bogasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðissviðs FLGroup) sem á eitt prósent hlut. Magnús Ármann var á meðal hluthafa í FL Group fyrir hrun og sat í stjórn félagsins.
Samstarfsaðili hópsins er félagið Tavira Securities sem er í eigu óþekkts hollensk fjárfestis.
Félögin sem notuð voru til að kaupa hluti í Stoðum hafa þegar skipt um stjórnir. Í S121er Gunnar Sturluson lögmaður í stjórn. Hann var lengi vel náinn samstarfsmaður Hannesar Smárasonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, var lögmaður hans, sat í stjórnum og var skráður framkvæmdastjóri félaga í eigu Hannesar. Gunnar er líka í stjórn S122. Þar situr hann ásamt Þorsteini M. Jónssyni, sem á árum áður var oftast kenndur við kók. Þorsteinn átti hlut í FL Group fyrir bankahrunið, sat í stjórn félagsins og tók við sem stjórnarformaður Glitnis um tíma eftir að FL Group og tengdir aðilar náðu yfirráðum yfir bankanum.
Bæði Jón Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson hafa setið í stjórn Refresco fyrir hönd íslenskra eigenda. Jón situr þar raunar enn og hefur gert frá 2009.
„Vegur lang þyngst í afkomunni“
Tryggingamiðstöðin birti hálfsársuppgjör sitt í síðustu viku. Þar kemur fram að mjög vel hafi gengið í fjárfestingastarfsemi félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2017. Í fjárfestakynningu sem haldin var í tengslum við uppgjörið kom fram að eignarhlutur Tryggingamiðstöðvarinnar í Stoðum er bókfærður á tæplega 1,8 milljarða króna.
Í kynningunni var einnig greint frá því að mjög góð afkoma hafi verið af óskráðum hlutabréfum í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar á fyrri hluta ársins, en ávöxtun þeirra var 9,5 prósent á tímabilinu. . Sigurður Viðarsson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, sagði á fjárfestingakynningunni að þarna vegi „ lang þyngst ný eign, sem við keyptum í vor, þegar við keyptum ásamt öðrum fjárfestum meirihluta í Stoðum, sem eiga eina eign, eignarhlut í Refresco. Það veldur því að óskráðu hlutabréfin hækkuðu meira en við höfðum gert ráð fyrir og vegur lang þyngst í afkomunni þarna.“
Því er ljóst að fjárfestingin hefur skilað Tryggingamiðstöðinni, og einkafjárfestunum sem tóku þátt í henni með félaginu, mönnum sem sitja í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar og eru í hluthafahópi félagsins, mikilli ávöxtun.