Strangari skilyrði um olíubruna einfaldasta leiðin gegn mengun farþegaskipa

Umhverfisyfirvöld á Íslandi telja einfaldast að setja þrengri skilyrði um bruna svartolíu í íslenskri efnhagslögsögu, til þess að bregðast við mikilli mengun stórra skemmtiferðaskipa. Rándýrt er að tengja stór farþegaskip í landrafmagn.

Skemmtiferðaskip leggjast við bryggju um allt land.
Skemmtiferðaskip leggjast við bryggju um allt land.
Auglýsing

Mengun frá skemmti­ferða­skipum sem liggja við bryggju á Íslandi hefur verið til umræðu und­an­farna daga eftir að Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök Íslands boð­uðu til blaða­manna­fundar á mið­viku­dag og kynntu nið­ur­stöður mæl­inga Dr. Axel Friedrich.

Dr. Friedrich dvaldi hér á landi ásamt þremur sér­fræð­ingum þýsku nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna Nat­ure and Biodi­versity Union (NA­BU). Í sam­starfi við íslensku nátt­úru­vernd­ar­sam­tökin mældu vís­inda­menn­irnir mengun í útblæstri skemmti­ferða­skipa í Reykja­vík­ur­höfn.

Nið­ur­stöður mæl­ing­anna eru að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðli­legt má telj­ast. Helsta ástæða þess að meng­unin er svo mikil er að skemmti­ferða­skipin brenna nær öll svartolíu þegar þau liggja við bryggju, til þess að fram­leiða raf­ork­una sem knýr sigl­inga­tæki, ljósa­vélar og raf­tæki far­þega skip­anna.

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök Íslands hafa bent á að sótagn­irnar sem verða til við ófull­kom­inn bruna svartolíu hafi mjög mik­inn gróð­ur­húsa­mátt. Þær leggj­ast á jökla og ís sem kasta fyrir vikið frá sér minna sól­ar­ljósi en ella og það hraðar bráðn­un.

Það er auð­vitað alveg óboð­­legt á Íslandi, því við búum við mjög góð loft­­gæði og við eigum að halda í þau og fá að upp­­lifa þau
Þá er ótal­inn sá heilsu­skaði fyrir menn sem getur hlot­ist af mengun á borð við þessar sótagnir svartol­í­unn­ar. Rætt var við Björtu Ólafs­dótt­ur, umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra, í fréttum RÚV á fimmtu­dags­kvöld. „Það er auð­vitað alveg óboð­legt á Íslandi, því við búum við mjög góð loft­gæði og við eigum að halda í þau og fá að upp­lifa þau,“ segir Björt.

Ekki bara skemmti­ferða­skip

Það eru hins vegar ekki aðeins skemmti­ferða­skipin sem menga í höfn­um. Það hefur verið til umræðu í þónokkur ár að skyn­sam­legt væri að ráð­ast í upp­bygg­ingu inn­viða í höfnum svo skip – hvort sem það eru tog­arar eða skemmti­ferða­skip – geti sótt raf­magn úr landi. Þannig má koma í veg fyrir einn stærsta hluta þeirrar raf­orku­fram­leiðslu sem verður til við bruna jarð­efna­elds­neytis hér á landi.

Það kom fram í aðgerða­á­ætlun stjórn­valda í lofts­lags­málum árið 2010 (sem enn er í gildi) að gera ætti átak til að skapa þannig aðstöðu að skip geti tengst raf­magni úr landi þegar þau liggja við bryggju. Skemmst er frá því að segja að þetta átak hefur ekki enn verið gert.

Síð­asta opin­bera stefnu­mót­un­arplagg íslenskra stjórn­valda var sókn­ar­á­ætlun í lofts­lags­málum sem gerð var í aðdrag­anda lofts­lags­ráð­stefn­unnar í París 2015. Þar var raf­væð­ing skipa í höfn lögð til. Í stöðu­skýrslu um sókn­ar­á­ætl­un­ina sem kom út í októ­ber í fyrra segir svo að unnið sé að heild­stæðri yfir­sýn yfir orku­þörf og tengi­búnað og sam­starfi komið á við útgerð­ar­að­ila, Sam­göngu­stofu, hafn­ar­yf­ir­völd og þá sem sjá um dreif­ingu og sölu á raf­orku.

Auglýsing

Rán­dýrt

Það er hins vegar ljóst að raf­væð­ing skipa­flot­ans í höfnum lands­ins verður rán­dýr fram­kvæmd. Það er jafn­framt það sem stendur þess­ari lausn helst fyrir þrif­um. Gísli Gísla­son, hafn­ar­stjóri Faxa­flóa­hafna, sagði í sam­tali við Bylgj­una á fimmtu­dag að það væri svo kostn­að­ar­samt að land­tengja stærri skip með meiri orku­þörf að ríkið verði að koma að fjár­mögnun þess.

Áður en hægt verður að grípa til þeirra ráð­staf­ana að land­tengja skip sem hingað koma við raf­magn þá hvetur Gísli til þess að svart­olía verði bönnuð í efna­hags­lög­sögu Íslands.

„Það hefur verið ákall Faxa­flóa­hafna að það verði ekki ein­ungis settar strang­ari reglur um svartol­íu; Heldur að svart­olía verði bönnuð í efna­hags­lög­sögu Íslands,“ sagði Gísli í sam­tali í fréttum RÚV á fimmtu­dag.

„Við eigum að hafa for­ystu um það og fá nágranna­löndin – Græn­land, Dan­mörk, Fær­eyjar – með okkur í lið. Horfa þannig á Norð­ur­slóðir sem við­kvæmt líf­ríki og að við tökum ekki áhættu með svartolíu og svartol­íu­agn­ir, hvort heldur fyrir fólk eða nátt­úr­una.“

„Þó það myndi fækka skip­um, þá er það auð­vitað svo að við eigum að upp­fylla bestu kröfur varð­andi meng­un­ar­varnir og umgengni um haf­svæð­in. Það eru strang­ari kröfur í Norð­ur­sjó, Eystra­salti og þeim svæðum vegna þess að þar var allt komið í óefni. Við eigum að grípa til ráð­staf­ana áður en til þess kem­ur.“

Umhverf­is­ráð­herra tók í sama streng í sama frétta­tíma RÚV. „Þangað til [að skip verði tengd landi] eigum við að búa svo um hnút­ana að það sé ekki hægt að brenna svartolíu við höfn­ina, hvar sem er, og auka mengun svona dramat­ískt. Við þurfum að byrja á því að mæla þetta bara bet­ur,“ sagði Björt.

Fjöldi farþegaskipa kemur til Reykjavíkurhafnar á hverju ári.

Hér gilda evr­ópskar reglur

Um skipa­elds­neyti hafa gilt sömu reglur á Íslandi og í evr­ópska efna­hags­svæð­inu (EES), en þær renna út árið 2020. Almennt mega skip nota svartolíu með hámarks brenni­steins­inni­hald allt að 3,5 pró­sent, en strang­ari kröfur gilda um far­þega­skip sem flytja fleiri en 12 far­þega og eru í áætl­un­ar­sigl­ing­um. Slík skip mega bernna olíu með meira brenni­steins­inni­hald en 1,5 pró­sent.

Eftir árið 2020 verður ekki hægt að nota skipa­elds­neyti með meira brenni­steins­inni­hald en 0,5 pró­sent. Í reglu­gerð­inni sem þegar er í gildi eru settar kröfur um að skip sem liggi við bryggju „noti raf­magn úr landi í stað skipa­elds­neytis eftir því sem kostur er“.

Á þessu er víð­ast hvar á Íslandi ekki kost­ur, sér­stak­lega þegar um er að ræða stærri skip. Þá gilda enn strang­ari skil­yrði um elds­neytið sem nota má til þess að fram­leiða raf­magn, á meðan skip liggur við bryggju.

Unnið að nýrri aðgerða­á­ætlun um lofts­lags­breyt­ingar

Íslensk stjórn­völd vinna nú að því að búa til nýja aðgerða­á­ætlun um lofts­lags­breyt­ingar. Eins og áður sagði þá er sú aðgerða­á­ætlun sem er í gildi orðin nokkuð göm­ul, þó ekki hafi verið ráð­ist í allar þær aðgerðir sem þar er fjallað um.

Líta má á aðgerða­á­ætl­un­ina sem eins­konar leið­ar­vísi fyrir íslensk stjórn­völd í bar­átt­unni við lofts­lags­breyt­ing­arn­ar, enda er áætl­unin mik­il­vægt stefnu­mót­un­arplagg í þessum mála­flokki.

Í kjöl­far þess að sagt var frá nið­ur­stöðu þýsku vís­inda­mann­anna um mengun frá skemmti­ferða­skipum sem leggj­ast að bryggju hér á landi sendi Kjarn­inn fyr­ir­spurn í fjórum liðum til umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­is­ins. Svör spurn­ing­anna má lesa hér að neð­an.

Verk­efna­stjórn nýrrar aðgerða­á­ætl­unar heyrir undir sex ráðu­neyti og er stefnt að því að áætl­unin verði klár í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­inu er verið að skoða raf­teng­ingu stærri skipa í nýju aðgerða­á­ætl­un­inni, en það mun vera tækni­lega erfitt verk­efni.

Í stuttu máli telur ráðu­neytið að ein­faldasta leiðin til þess að bregð­ast við þessu vanda­máli sé að setja þrengri skil­yrði um bruna svartolíu í íslenskri efna­hags­lög­sögu. Til stendur að full­gilda sjötta við­auka MAR­POL-­samn­ings­ins um mengun frá skip­um; Það er á loka­sprett­in­um. Flókn­ara verk­efni sé hins vegar að setja enn hert­ari reglur um alþjóð­lega skipa­um­ferð í íslenskri lög­sögu enda er það háð sam­þykki alþjóða­stofn­ana.

Hefur það verið rætt hvernig bregð­ast megi við megnun frá erlendum skemmti­ferða­skipum sem liggja við bryggju á Íslandi?

Mengun frá skipum er vissu­lega rædd og hefur m.a. verið unnið að því að styrkja reglu­gerðir og starf Umhverf­is­stofn­unar á því sviði á þessu ári. Nú er í burð­ar­liðnum full­gild­ing á 6. við­auka MAR­POL-­samn­ings­ins, sem fjallar um mengun frá skip­um. Í kjöl­far þess má skoða hvort hægt sé að setja hertar reglur um alþjóð­lega skipa­um­ferð í íslenskri lög­sögu. Það er hins vegar langt ferli og háð sam­þykki alþjóða­stofn­ana. Því er rétt að skoða sér­stak­lega losun við bryggju út af heilsu­vernd­ar­sjón­ar­mið­um. Þar væri besta lausnin raf­teng­ing í höfn, sem mun vera tækni­lega erfið varð­andi svo stór skip, en er í skoðun m.a. í tengslum við gerð aðgerða­á­ætl­unar í lofts­lags­mál­um.

Ef svo er, hvernig er talið að best sé að bregð­ast við?

Það er þegar í gangi vinna við að skoða almennt mengun frá skip­um, eins og áður seg­ir, með full­gild­ingu á alþjóða­samn­ingi um mengun frá skipum og í kjöl­farið skoðun á upp­setn­ingu á sk. ECA-­svæði við Ísland. Það er verið að skoða upp­setn­ingu á land­raf­magni fyrir skip almennt og þá skemmti­ferða­skip sér­stak­lega í vinnu við aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­mál­um; ráð­herra mun biðja um stutta stöðu­skýrslu um þá vinnu. Það þarf líka að ræða við Umhverf­is­stofnun um loft­gæðin út frá heilsu­vernd­ar­sjón­ar­mið­um. UST mælir loft­gæði í Reykja­vík og víð­ar, en það er rétt að skoða hvort mæla þurfi betur í nágrenni skemmti­ferða­skipa til að fá betri mynd af þess­ari mengun og afleið­ingum henn­ar.

Hefur komið til greina að heimta hærri hafn­ar­gjöld af skipum sem menga mik­ið?

Almennt gildir meng­un­ar­bóta­reglan í umhverf­is­mál­um: Sá sem mengar borg­ar. Það hefur ekki verið skoðað sér­stak­lega í ráðu­neyt­inu hvernig gjald­taka varð­andi þessi mál gæti farið fram. Þarna er spurn­ing hvort krafa verður gerð um notkun land­raf­magns eða aðrar lausnir þegar skip eru við bryggju í íbúa­byggð. Það væri svo útfærslu­at­riði hvaða leiðir eru til þess að borga fyrir slíkar lausn­ir.

Hefur komið til greina að setja auknar kröfur og herða eft­ir­lit með meng­andi skipum í íslenskri land­helgi?

Það hefur verið settur auk­inn kraftur almennt í starf Umhverf­is­stofn­unar á þessu sviði að und­an­förnu. Það var sett ný reglu­gerð um mengun frá skipum nú í vor og verið er að efla þátt­töku Íslands í alþjóð­legu sam­starfi, m.a. með full­gild­ingu á öllum við­aukum MAR­POL-­samn­ings­ins, sem er á loka­sprett­in­um. Því þarf að halda til haga að hér gilda almennt sömu reglur um mengun og almennt gilda á evr­ópsku haf­svæði, ef und­an­skilin eru Eystra­salt, Norð­ur­sjór og Ermar­sund – þar sem eru strang­ari kröfur skv. ákvörðun Alþjóða sigl­inga­mála­stofn­un­ar­inn­ar. Hér gilda líka sömu reglur um skipa­elds­neyti og inni­hald þess og eru almennt í gildi á Evr­ópska efna­hags­svæð­inu. Fyrir liggur að kröfur um brenni­steins­inni­hald skipa­elds­neytis hér verða hertar 2020. Það er því vinna í gangi á þessu sviði, en það sem þarf að skoða sér­stak­lega betur er hvort og hvernig hægt er að taka sér­stak­lega á mengun frá skemmti­ferða­skipum í höfn og nágrenni byggð­ar; það þarf að meta hana betur út frá heilsu­fars­sjón­ar­mið­um, skoða hvort farið sé að reglum um að lág­marka mengun þegar skip leggj­ast að bryggju og leita leiða til að draga frekar úr meng­un.

Drífa: Fleiri lóðir og meiri aðstoð við ungt fólk
Forseti ASÍ segir að endurhugsa þurfi stefnu í húsnæðismálum. Útvega þurfi fleiri lóðir og hjálpa ungu fólki að koma þaki yfir höfuðið.
Kjarninn 16. nóvember 2018
100 milljónir til Jemen frá Íslandi
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að 100 milljónir fari til Jemens vegna neyðarástands þar.
Kjarninn 16. nóvember 2018
Forseti ASÍ: Stjórnvöld svíkja gefin loforð
Drífa Snædal segir stjórnvöld ekki vera að standa við sitt, í pistli sem hún ritar á vef ASÍ.
Kjarninn 16. nóvember 2018
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Hvíta húsið þarf að hleypa Jim Acosta aftur inn
Hvíta húsið braut á stjórnarskrárvörðum réttindum fréttamanns CNN þegar það svipti hann aðgangi að Hvíta húsinu eftir hörð orðaskipti við Donald Trump.
Kjarninn 16. nóvember 2018
Tekur fimmtíu fleiri mánuði að borga íbúð í dag en fyrir fjórum árum
Íbúðaverð hefur hækkað umfram ráðstöfunartekjur á síðustu árum og því tekur það íbúa á aldrinum 30 til 34 ára ríflega tvöfalt fleiri mánuði að greiða fyrir íbúð í fjölbýli í dag en það gerði árið 1997 eða um 192 mánuði samkvæmt greiningu Capacent.
Kjarninn 16. nóvember 2018
Þriðji orkupakkinn „strámaður“ sem engin ógn er að
Formaður Viðreisnar segir forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks „skíthrædda“ við Miðflokkinn og segja þess vegna ekkert um þriðja orkupakkann. Formaður Samfylkingar segir málið keyrt áfram af „lygum og útúrsnúningi“.
Kjarninn 16. nóvember 2018
Julian Paul Assange
Undirbúa ákæru á hendur stofnanda Wikileaks
Bandarískir saksóknarar hafa undirbúið ákæru gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Upplýsingar um ákæruna birtust óvart í ótengdum dómsskjölum en leynd er yfir ákærunni svo Bandaríkin geti reynt að fá hann framseldan frá London.
Kjarninn 16. nóvember 2018
Þjóðlegir þræðir
Þjóðlegir þræðir
Þjóðlegir þræðir- Hlaðvarp um handverk - Vefarinn
Kjarninn 16. nóvember 2018
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar