Strangari skilyrði um olíubruna einfaldasta leiðin gegn mengun farþegaskipa

Umhverfisyfirvöld á Íslandi telja einfaldast að setja þrengri skilyrði um bruna svartolíu í íslenskri efnhagslögsögu, til þess að bregðast við mikilli mengun stórra skemmtiferðaskipa. Rándýrt er að tengja stór farþegaskip í landrafmagn.

Skemmtiferðaskip leggjast við bryggju um allt land.
Skemmtiferðaskip leggjast við bryggju um allt land.
Auglýsing

Mengun frá skemmti­ferða­skipum sem liggja við bryggju á Íslandi hefur verið til umræðu und­an­farna daga eftir að Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök Íslands boð­uðu til blaða­manna­fundar á mið­viku­dag og kynntu nið­ur­stöður mæl­inga Dr. Axel Friedrich.

Dr. Friedrich dvaldi hér á landi ásamt þremur sér­fræð­ingum þýsku nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna Nat­ure and Biodi­versity Union (NA­BU). Í sam­starfi við íslensku nátt­úru­vernd­ar­sam­tökin mældu vís­inda­menn­irnir mengun í útblæstri skemmti­ferða­skipa í Reykja­vík­ur­höfn.

Nið­ur­stöður mæl­ing­anna eru að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðli­legt má telj­ast. Helsta ástæða þess að meng­unin er svo mikil er að skemmti­ferða­skipin brenna nær öll svartolíu þegar þau liggja við bryggju, til þess að fram­leiða raf­ork­una sem knýr sigl­inga­tæki, ljósa­vélar og raf­tæki far­þega skip­anna.

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök Íslands hafa bent á að sótagn­irnar sem verða til við ófull­kom­inn bruna svartolíu hafi mjög mik­inn gróð­ur­húsa­mátt. Þær leggj­ast á jökla og ís sem kasta fyrir vikið frá sér minna sól­ar­ljósi en ella og það hraðar bráðn­un.

Það er auð­vitað alveg óboð­­legt á Íslandi, því við búum við mjög góð loft­­gæði og við eigum að halda í þau og fá að upp­­lifa þau
Þá er ótal­inn sá heilsu­skaði fyrir menn sem getur hlot­ist af mengun á borð við þessar sótagnir svartol­í­unn­ar. Rætt var við Björtu Ólafs­dótt­ur, umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra, í fréttum RÚV á fimmtu­dags­kvöld. „Það er auð­vitað alveg óboð­legt á Íslandi, því við búum við mjög góð loft­gæði og við eigum að halda í þau og fá að upp­lifa þau,“ segir Björt.

Ekki bara skemmti­ferða­skip

Það eru hins vegar ekki aðeins skemmti­ferða­skipin sem menga í höfn­um. Það hefur verið til umræðu í þónokkur ár að skyn­sam­legt væri að ráð­ast í upp­bygg­ingu inn­viða í höfnum svo skip – hvort sem það eru tog­arar eða skemmti­ferða­skip – geti sótt raf­magn úr landi. Þannig má koma í veg fyrir einn stærsta hluta þeirrar raf­orku­fram­leiðslu sem verður til við bruna jarð­efna­elds­neytis hér á landi.

Það kom fram í aðgerða­á­ætlun stjórn­valda í lofts­lags­málum árið 2010 (sem enn er í gildi) að gera ætti átak til að skapa þannig aðstöðu að skip geti tengst raf­magni úr landi þegar þau liggja við bryggju. Skemmst er frá því að segja að þetta átak hefur ekki enn verið gert.

Síð­asta opin­bera stefnu­mót­un­arplagg íslenskra stjórn­valda var sókn­ar­á­ætlun í lofts­lags­málum sem gerð var í aðdrag­anda lofts­lags­ráð­stefn­unnar í París 2015. Þar var raf­væð­ing skipa í höfn lögð til. Í stöðu­skýrslu um sókn­ar­á­ætl­un­ina sem kom út í októ­ber í fyrra segir svo að unnið sé að heild­stæðri yfir­sýn yfir orku­þörf og tengi­búnað og sam­starfi komið á við útgerð­ar­að­ila, Sam­göngu­stofu, hafn­ar­yf­ir­völd og þá sem sjá um dreif­ingu og sölu á raf­orku.

Auglýsing

Rán­dýrt

Það er hins vegar ljóst að raf­væð­ing skipa­flot­ans í höfnum lands­ins verður rán­dýr fram­kvæmd. Það er jafn­framt það sem stendur þess­ari lausn helst fyrir þrif­um. Gísli Gísla­son, hafn­ar­stjóri Faxa­flóa­hafna, sagði í sam­tali við Bylgj­una á fimmtu­dag að það væri svo kostn­að­ar­samt að land­tengja stærri skip með meiri orku­þörf að ríkið verði að koma að fjár­mögnun þess.

Áður en hægt verður að grípa til þeirra ráð­staf­ana að land­tengja skip sem hingað koma við raf­magn þá hvetur Gísli til þess að svart­olía verði bönnuð í efna­hags­lög­sögu Íslands.

„Það hefur verið ákall Faxa­flóa­hafna að það verði ekki ein­ungis settar strang­ari reglur um svartol­íu; Heldur að svart­olía verði bönnuð í efna­hags­lög­sögu Íslands,“ sagði Gísli í sam­tali í fréttum RÚV á fimmtu­dag.

„Við eigum að hafa for­ystu um það og fá nágranna­löndin – Græn­land, Dan­mörk, Fær­eyjar – með okkur í lið. Horfa þannig á Norð­ur­slóðir sem við­kvæmt líf­ríki og að við tökum ekki áhættu með svartolíu og svartol­íu­agn­ir, hvort heldur fyrir fólk eða nátt­úr­una.“

„Þó það myndi fækka skip­um, þá er það auð­vitað svo að við eigum að upp­fylla bestu kröfur varð­andi meng­un­ar­varnir og umgengni um haf­svæð­in. Það eru strang­ari kröfur í Norð­ur­sjó, Eystra­salti og þeim svæðum vegna þess að þar var allt komið í óefni. Við eigum að grípa til ráð­staf­ana áður en til þess kem­ur.“

Umhverf­is­ráð­herra tók í sama streng í sama frétta­tíma RÚV. „Þangað til [að skip verði tengd landi] eigum við að búa svo um hnút­ana að það sé ekki hægt að brenna svartolíu við höfn­ina, hvar sem er, og auka mengun svona dramat­ískt. Við þurfum að byrja á því að mæla þetta bara bet­ur,“ sagði Björt.

Fjöldi farþegaskipa kemur til Reykjavíkurhafnar á hverju ári.

Hér gilda evr­ópskar reglur

Um skipa­elds­neyti hafa gilt sömu reglur á Íslandi og í evr­ópska efna­hags­svæð­inu (EES), en þær renna út árið 2020. Almennt mega skip nota svartolíu með hámarks brenni­steins­inni­hald allt að 3,5 pró­sent, en strang­ari kröfur gilda um far­þega­skip sem flytja fleiri en 12 far­þega og eru í áætl­un­ar­sigl­ing­um. Slík skip mega bernna olíu með meira brenni­steins­inni­hald en 1,5 pró­sent.

Eftir árið 2020 verður ekki hægt að nota skipa­elds­neyti með meira brenni­steins­inni­hald en 0,5 pró­sent. Í reglu­gerð­inni sem þegar er í gildi eru settar kröfur um að skip sem liggi við bryggju „noti raf­magn úr landi í stað skipa­elds­neytis eftir því sem kostur er“.

Á þessu er víð­ast hvar á Íslandi ekki kost­ur, sér­stak­lega þegar um er að ræða stærri skip. Þá gilda enn strang­ari skil­yrði um elds­neytið sem nota má til þess að fram­leiða raf­magn, á meðan skip liggur við bryggju.

Unnið að nýrri aðgerða­á­ætlun um lofts­lags­breyt­ingar

Íslensk stjórn­völd vinna nú að því að búa til nýja aðgerða­á­ætlun um lofts­lags­breyt­ingar. Eins og áður sagði þá er sú aðgerða­á­ætlun sem er í gildi orðin nokkuð göm­ul, þó ekki hafi verið ráð­ist í allar þær aðgerðir sem þar er fjallað um.

Líta má á aðgerða­á­ætl­un­ina sem eins­konar leið­ar­vísi fyrir íslensk stjórn­völd í bar­átt­unni við lofts­lags­breyt­ing­arn­ar, enda er áætl­unin mik­il­vægt stefnu­mót­un­arplagg í þessum mála­flokki.

Í kjöl­far þess að sagt var frá nið­ur­stöðu þýsku vís­inda­mann­anna um mengun frá skemmti­ferða­skipum sem leggj­ast að bryggju hér á landi sendi Kjarn­inn fyr­ir­spurn í fjórum liðum til umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­is­ins. Svör spurn­ing­anna má lesa hér að neð­an.

Verk­efna­stjórn nýrrar aðgerða­á­ætl­unar heyrir undir sex ráðu­neyti og er stefnt að því að áætl­unin verði klár í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­inu er verið að skoða raf­teng­ingu stærri skipa í nýju aðgerða­á­ætl­un­inni, en það mun vera tækni­lega erfitt verk­efni.

Í stuttu máli telur ráðu­neytið að ein­faldasta leiðin til þess að bregð­ast við þessu vanda­máli sé að setja þrengri skil­yrði um bruna svartolíu í íslenskri efna­hags­lög­sögu. Til stendur að full­gilda sjötta við­auka MAR­POL-­samn­ings­ins um mengun frá skip­um; Það er á loka­sprett­in­um. Flókn­ara verk­efni sé hins vegar að setja enn hert­ari reglur um alþjóð­lega skipa­um­ferð í íslenskri lög­sögu enda er það háð sam­þykki alþjóða­stofn­ana.

Hefur það verið rætt hvernig bregð­ast megi við megnun frá erlendum skemmti­ferða­skipum sem liggja við bryggju á Íslandi?

Mengun frá skipum er vissu­lega rædd og hefur m.a. verið unnið að því að styrkja reglu­gerðir og starf Umhverf­is­stofn­unar á því sviði á þessu ári. Nú er í burð­ar­liðnum full­gild­ing á 6. við­auka MAR­POL-­samn­ings­ins, sem fjallar um mengun frá skip­um. Í kjöl­far þess má skoða hvort hægt sé að setja hertar reglur um alþjóð­lega skipa­um­ferð í íslenskri lög­sögu. Það er hins vegar langt ferli og háð sam­þykki alþjóða­stofn­ana. Því er rétt að skoða sér­stak­lega losun við bryggju út af heilsu­vernd­ar­sjón­ar­mið­um. Þar væri besta lausnin raf­teng­ing í höfn, sem mun vera tækni­lega erfið varð­andi svo stór skip, en er í skoðun m.a. í tengslum við gerð aðgerða­á­ætl­unar í lofts­lags­mál­um.

Ef svo er, hvernig er talið að best sé að bregð­ast við?

Það er þegar í gangi vinna við að skoða almennt mengun frá skip­um, eins og áður seg­ir, með full­gild­ingu á alþjóða­samn­ingi um mengun frá skipum og í kjöl­farið skoðun á upp­setn­ingu á sk. ECA-­svæði við Ísland. Það er verið að skoða upp­setn­ingu á land­raf­magni fyrir skip almennt og þá skemmti­ferða­skip sér­stak­lega í vinnu við aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­mál­um; ráð­herra mun biðja um stutta stöðu­skýrslu um þá vinnu. Það þarf líka að ræða við Umhverf­is­stofnun um loft­gæðin út frá heilsu­vernd­ar­sjón­ar­mið­um. UST mælir loft­gæði í Reykja­vík og víð­ar, en það er rétt að skoða hvort mæla þurfi betur í nágrenni skemmti­ferða­skipa til að fá betri mynd af þess­ari mengun og afleið­ingum henn­ar.

Hefur komið til greina að heimta hærri hafn­ar­gjöld af skipum sem menga mik­ið?

Almennt gildir meng­un­ar­bóta­reglan í umhverf­is­mál­um: Sá sem mengar borg­ar. Það hefur ekki verið skoðað sér­stak­lega í ráðu­neyt­inu hvernig gjald­taka varð­andi þessi mál gæti farið fram. Þarna er spurn­ing hvort krafa verður gerð um notkun land­raf­magns eða aðrar lausnir þegar skip eru við bryggju í íbúa­byggð. Það væri svo útfærslu­at­riði hvaða leiðir eru til þess að borga fyrir slíkar lausn­ir.

Hefur komið til greina að setja auknar kröfur og herða eft­ir­lit með meng­andi skipum í íslenskri land­helgi?

Það hefur verið settur auk­inn kraftur almennt í starf Umhverf­is­stofn­unar á þessu sviði að und­an­förnu. Það var sett ný reglu­gerð um mengun frá skipum nú í vor og verið er að efla þátt­töku Íslands í alþjóð­legu sam­starfi, m.a. með full­gild­ingu á öllum við­aukum MAR­POL-­samn­ings­ins, sem er á loka­sprett­in­um. Því þarf að halda til haga að hér gilda almennt sömu reglur um mengun og almennt gilda á evr­ópsku haf­svæði, ef und­an­skilin eru Eystra­salt, Norð­ur­sjór og Ermar­sund – þar sem eru strang­ari kröfur skv. ákvörðun Alþjóða sigl­inga­mála­stofn­un­ar­inn­ar. Hér gilda líka sömu reglur um skipa­elds­neyti og inni­hald þess og eru almennt í gildi á Evr­ópska efna­hags­svæð­inu. Fyrir liggur að kröfur um brenni­steins­inni­hald skipa­elds­neytis hér verða hertar 2020. Það er því vinna í gangi á þessu sviði, en það sem þarf að skoða sér­stak­lega betur er hvort og hvernig hægt er að taka sér­stak­lega á mengun frá skemmti­ferða­skipum í höfn og nágrenni byggð­ar; það þarf að meta hana betur út frá heilsu­fars­sjón­ar­mið­um, skoða hvort farið sé að reglum um að lág­marka mengun þegar skip leggj­ast að bryggju og leita leiða til að draga frekar úr meng­un.

Ríkisstjórnin fundar á Snæfellsnesi vegna byggðarmála
Ríkisstjórnarfundur verður haldinn að Langaholti í Snæfellsbæ í dag. Þingfundir verða haldnir á morgun og hinn vegna fullveldisafmælisins.
Kjarninn 16. júlí 2018
Hermundur Sigmundsson
Eldri borgarar - höldum okkur virkum
Kjarninn 15. júlí 2018
Frakkar heimsmeistarar - Öruggur sigur á Króatíu
Heimsmeistarmótinu í knattspyrnu karla í Rússlandi er lokið eftir sannfærandi sigur franska landsliðsins á því króatíska í úrslitaleiknum 4-2.
Kjarninn 15. júlí 2018
Kauphöll Íslands.
Hvað er að gerast á hlutabréfamarkaðnum?
Nýliðin vika var tíðindamikil í Kauphöllinni, en þrjú fyrirtæki birtu afkomuviðvörun og vísitala markaðarins lækkaði töluvert. Er ástæða til að hafa áhyggjur af hlutabréfamarkaðnum á Íslandi?
Kjarninn 15. júlí 2018
Stóra stundin runnin upp - Hverjir eru bestir í heimi?
Úrslitaleikur heimsmeistarmótsins í knattspyrnu fer fram í dag þegar Frakkar mæta þreyttum Króötum.
Kjarninn 15. júlí 2018
Magnús Halldórsson
Innistæðulaust höfrungahlaup elítunnar
Kjarninn 15. júlí 2018
Danskir hermenn
Óhæfir til hermennsku
Á síðasta ári reyndust rúmlega fimmtíu prósent þeirra pilta sem kallaðir voru til grunnþjálfunarprófs í danska hernum óhæfir. Langflestir vegna margs konar geðrænna vandamála.
Kjarninn 15. júlí 2018
Besti árangur Belga sem taka bronsið heim af HM
Belgar unnu Englendinga í leik um þriðja sætið á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi í dag. Englendingar áttu aldrei möguleika á sigri.
Kjarninn 14. júlí 2018
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar