Í síbreytilegum alþjóðavæddum heimi er mikilvægt að laga utanríkisþjónustuna að breytingum og nýjum áskorunum. Lagt er til í nýrri skýrslu um framtíð utanríkisþjónustunnar, sem unnin var í utanríkisráðuneytinu, að lögð verði enn meiri áhersla á efnahagslegt stuðningshlutverk utanríkisþjónustunnar, meðal annars með gerð fríverslunarsamninga og stofnun útflutnings- og markaðsráðs.
Viðamikil úttekt
Þá er enn fremur gert ráð fyrir að stofnuð verði á nýjan leik sérstök varnarmálaskrifstofa.
Í skýrslunni kemur fram viðamesta úttekt sem gerð hefur verið á störfum utanríkisþjónustunnar í um 20 ár, en síðasta viðamikla úttekt var unnin 1998.
Vinna við skýrsluna hófst fyrr á þessu ári en hún var sett af stað af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, en Sturla Sigurjónsson, nýskipaður ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, leiddi vinnuna. Aðrir í hópnum voru Andri Lúthersson, Jörundur Valtýsson, María Erla Marelsdóttir, Sigríður Á. Snævarr og Urður Gunnarsdóttir.
Nýtt áhættumat
Þegar kemur að öryggis- og varnarmálum er ennfremur lagt til að hvatt verði til gerðar á nýju áhættumati fyrir Ísland á vettvangi þjóðaröryggisráðsins og til reglulegra viðbragðsæfinga ráðsins. Gerð verði sömuleiðis aðgerðaáætlun í öryggis- og varnarmálum. Meðal annars um framlög og forgangsröðun Íslands varðandi eigin varnarviðbúnað.
Settar eru fram tillögur í 8 liðum, þar sem lagt er að til að skerpt verði á hlutverkaskiptingu inn á utanríkisþjónustunnar, t.d. að fastanefnd gagnvart NATO fari með samskipti við ESB vegna öryggis- og varnarmála, upplýsingaflæði milli fastanefnda verði bætt og að hafnar verði viðræður við dómsmálaráðuneytið um hugsanlega aukna þátttöku fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Ríkislögreglustjóra í fundum sérfræðinga á vegum NATO sem varða verksvið einstaka stofnanna.
Breyttur heimur, nýjar áskoranir
Í skýrslunni eru lagðar fram 151 tillaga, þar sem rauði þráðurinn er sá að marka stöðuna til framtíðar í takt við þær miklu breytinar eru að verða á efnahag einstakra ríkja og svæða í heiminum. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um hvernig fjárhagsleg eignaskipting í heiminum hefur breyst að undanförnu, og hvernig hlutur svonefndra nýmarkaðsríkja hefur vaxið gríðarlega á skömmum tíma. Sem dæmi er nefnt að árið 2000 hafi fjárhagslegar eignir verið 34 prósent hjá Bandaríkjunum, en árið 2020 er talið að hlutfallið verði komið undir fjórðung af heildinni, eða 24 prósent. Þetta er algjör kúvending á stöðu mála, og er vöxturinn ekki síst mikill hjá Kína og öðrum nýmarkaðsríkjum.
Hlutur Vestur-Evrópuríkja mun fara úr 34 prósent árið 2000 niður í 22 prósent árið 2020, ef framheldur sem horfir.
Aukin sveigjanleiki, betri tengingar
Á grunni þessara breytinga er meðal annars lagt til að utanríkisþjónustan auki sveigjanleika, markaðsstarf og hagmunagæslu við þau svæði þar sem tækifæri hafa skapast á undanförnum árum. „Eru þá ótalin þau fjölmörgu tækifæri sem felast í auknum viðskiptum og verslun við þennan heimshluta og einskorðast fjarri því við Kína. Má þar nefna Japan og Indland sérstaklega, en einnig Singapúr, Tæland, Indónesíu og Víetnam. Því blasir við að utanríkisþjónustan beini sjónum sínum í auknum mæli að málefnum suðaustanverðrar Asíu,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Búast má við því að Guðlaugur Þór taki málin nú föstum tökum, og leiða fram breytingar í takt við þau áherslumál sem fram koma í skýrslunni. En í tilkynningu segir hann þó, að það sé langur vegur framundan, sem þurfi að feta af kostgæfni og vanda til verka. „Með þessari skýrslu og tillögugerð er mörkuð heildstæð sýn á hvernig kröftum okkar verður best varið á næstu árum miðað við þau verkefni og þau tækifæri sem fram undan eru í alþjóðlegum efnahagsmálum, alþjóðastjórnmálum, umhverfismálum, þróunarsamvinnu og þar fram eftir götunum [...] Aldrei áður hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla rýni á starfsemi utanríkisþjónustunnar og þetta verður fyrsta skrefið á langri leið,“ segir Guðlaugur Þór.