Síðastliðinn mánudag var flutt mál í Hæstarétti geng manni sem hafði verið dæmdur sekur í héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfellt skattalagabrot. Hann hafði ekki talið fram fjármagnstekjur á árunum 2008 og 2009 upp á samtals 87 milljónir króna á skattframtali sínu. Um var að ræða tekjur af sölu hlutabréfa og uppgjör á tugum framvirkra samninga.
Í málsmeðferð fyrir héraðsdómi sagðist hann hafa verið í góðri trú um að framtölin hefðu verið rétt og að hann hefði keypt sér aðstoð sérfræðinga til að sjá um þessi mál. Maðurinn vefengdi hins vegar ekki að á það hefði skort að talið hefði verið rétt fram þrátt fyrir að það hefði ekki verið ásetningur hans að gera slíkt. Þegar villur hafi komið í ljós hafi hann látið skila leiðréttum gögnum og greitt allt sem á hann hefði verið lagt af opinberum gjöldum eftir það að meðtöldu 25 prósent álagi.
Málsvörn mannsins byggðist meðal annars á því að það ætti að vísa máli hans frá á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem fram komi að enginn skuli sæta lögsókn eða refsingu að nýju fyrir sama brot. Þar sem maðurinn hefði sætt endanlegum úrskurði skattyfirvalda um álag á skattstofn væri búið að refsa honum. Héraðsdómur féllst ekki á þessa málsvörn og dæmdi manninn í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi um miðjan mars í fyrra og til að greiða 13,8 milljóna króna sekt í ríkissjóð. Ef hann myndi ekki greiða sektina ætti hann að sæta fangelsi í sjö mánuði.
Maðurinn áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar Íslands og málflutningur átti upphaflega að fara fram í málinu í mars síðastliðnum, en var frestað. Hann fór hins vegar, líkt og áður sagði, fram á mánudag. Og nú er beðið niðurstöðu.
Það sem er athyglisvert við þetta mál, sem er ansi fjarri því að vera stærsta mál sinnar tegundar sem ratar fyrir íslenska dómstóla, er að sjö dómarar Hæstaréttar munu dæma í því. Rétturinn er með öðrum orðum fullskipaður. Það gerist einungis þegar um grundvallarmál er að ræða. Ástæðan er sú að Hæstiréttur mun að öllum líkindum fella stefnumarkandi dóm í þessu máli.
Brot gegn Jóni Ásgeiri og Tryggva
Þann 18. maí síðastliðinn komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirra niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni þegar þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur. Þeir kærðu þann dóm til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á endurákvörðun skatta af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunni. Og því væri verið að refsa þeim tvívegis fyrir sama brotið.
Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hérlendis að þeir sem sviku stórfellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá vangoldnu skatta sem þeir skyldu endurgreiða. Ef um meiriháttar brot var að ræða þá var viðkomandi einnig ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fangelsi.
Þegar Mannréttindadómstóllinn hefur komist að niðurstöðu þá þarf að falla dómur í Hæstarétti um sambærilegt efni til að fram komi hver áhrif niðurstöðunnar verði á íslenska dómaframkvæmd. Sá dómur verður í máli mannsins sem rakið var hér að ofan. Þegar hann fellur þá mun liggja fyrir hvernig eigi að fara með stórfelld skattabrotamál.
Nálægt 100 málum slegið á frest
Dómur Mannréttindadómstólsins í maí hafði veruleg áhrif á fjölmörg mál sem eru til meðferðar hjá embætti Héraðssaksóknara, sem fer með rannsóknar- og ákæruvald í málum sem þessum. Þ.e. mál þar sem álagi hafði þegar verið beitt en til stóð að rannsaka, og saksækja, vegna brota á almennum hegningarlögum líka.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans eru þau mál sem slegið var á frest vegna dómsins nálægt 100. Um er að ræða mál sem eru í rannsókn, sem eru að bíða eftir að komast í rannsókn og mál sem búið var að rannsaka, og jafnvel ákæra í.
Framhald þeirra mála ætti að liggja fyrir þegar Hæstiréttur kemst að niðurstöðu sinni í máli mannsins sem vantaldi fjármagnstekjur upp á 87 milljónir króna á skattframtalinu sínu.