Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands lögðust gegn því að bændum yrði mismunað eftir aldri í skriflegum viðbrögðum sínum við upprunalegum tillögum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við vanda sauðfjárbænda. Í þeim tillögum var lagt til að bændum yfir 60 ára yrði boðin greiðsla gegn því að hætta búskap en að bændum undir sextugu myndu bjóðast aðrar leiðir til að takast á við vanda sinn.
Í bréfi sem samtökin skrifuðu saman, og sendu til ráðuneytisins 24. ágúst segir: „Hugmyndum um að mismuna bændum á grundvelli aldurs eða bústærðar er alfarið hafnað“.
Það hefur verið gagnrýnt að tillögurnar hitti fyrst og síðast unga bændur fyrir. Formaður Landssamtaka slátursleyfishafa sagði það til að mynda áhyggjuefni að margir undir sauðfjárbændur sýndu því áhuga að hætta búskap gegn greiðslu frá ríkinu í fréttum RÚV í vikunni. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði síðan á Facebook í gær að tillögur landbúnaðarráðherra væru „tilviljunarkennt skot út í loftið og sýnir hve óvönduð vinnubrögðin eru. Skotið virðist hafa hitt unga bændur sem er ákkúrat það fólk sem við viljum ekki missa úr greininni.“
Vildu ekki að bændum yrði mismunað
Í upprunalegri tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem kynnt var í ríkisstjórn og fyrir atvinnuveganefnd um miðjan ágúst, var lagt til að þær aðgerðir sem átti að ráðast í til að draga úr framleiðslu kindakjöts ættu að miðast að þeim bændum sem væru 60 ára og eldri. Í tillögunum, sem Kjarninn hefur undir höndum, kom fram að það ætti að gefa þeim bændum sem væru 60 ára og eldri kost á því að hætta sauðfjárframleiðslu en halda eftir 70 prósent af greiðslur sauðfjársamnings miðað við 2017 í fjögur ár. Auk þess ætti að leggja allt að 250 milljónir króna í sérstakt sláturálag á ær sem ætti að geta fækkað í stofninum um 50-60 þúsund ær, en þær eru í dag um 450 þúsund talsins.
Fyrir bændur yngri en 60 ára átti að ráðast í sértækar aðgerðir til að mæta kjaraskerðingu þeirra sem í fælist ekki greiðslur fyrir að bregða búi og hætta sauðfjárrækt.
Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands brugðust við þessum tillögum með bréfi sem sent var á ráðuneytisstjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þar sem ráðherra landbúnaðarmála situr, með bréfi sem var sent 24. ágúst. Kjarninn óskaði eftir því að fá afrit af skriflegum samskiptum samtakanna við ráðuneytið á undanförnum vikum með vísun í upplýsingalög. Eina gagnið sem Kjarninn fékk afhent var áðurnefnt svarbréf. Þar segir m.a. að „Hugmyndum um að mismuna bændum á grundvelli aldurs eða bústærðar er alfarið hafnað“. Í bréfinu er einnig ítrekuð sú fortakslausa krafa samtakanna að vanda sauðfjárbænda verði mætt „annars vegar með uppkaupum afurða á markaði eða hins vegar með sveiflujöfnun sem tryggir sameiginlega ábyrgð sláturleyfishafa“.
Tillögurnar kosta um 650 miljónir króna
Tillögur stjórnvalda vegna yfirstandandi erfiðleika í sauðfjárrækt munu kosta ríkissjóð um 650 milljónir króna, komi þær til framkvæmda. Sú greiðsla kemur til viðbótar þeim tæpu fimm milljörðum króna sem fara í formi beingreiðslna til sauðfjárbænda úr ríkissjóði árlega. Samkvæmt þeim verður gripið til umfangsmikilla aðgerða til að draga úr framleiðslu kindakjöts og fækka um leið fé um 20 prósent. Þeir bændur sem hætta sauðfjárframleiðslu munu geta haldið 90 prósent af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár og gripið verður til sértækra aðgerða til að draga úr yfirvofandi kjaraskerðingu bænda. Á móti verður þess krafist að búvörusamningur sauðfjárbænda, sem var undirritaður í fyrra og gildir til tíu ára, verði endurskoðaður. Þorgerður Katrín lagði fram minnisblað um tillögurnar í ríkisstjórnarfundi 18. ágúst síðastliðinn. Sama dag voru þær kynntar á hitafundi í atvinnuveganefnd Alþingis. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að fela fulltrúum þriggja ráðuneyta að útfæra hugmyndirnar frekar, meðal annars í samráði við forystu Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. Tillögurnar voru svo birtar opinberlega síðastliðinn mánudag.
Ítarlega var fjallað um þær í síðasta sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut, sem sýndur var á miðvikudag. Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Meta tap sitt á 1,9 milljarða
Kjarninn greindi frá meginuppistöðunum í tillögunum í fréttaskýringu í síðustu viku. Þar kom fram að þau útgjöld sem ríkið ætlaði að leggja út í til að mæta bráðavanda sauðfjárbænda vegna þess að afurðarstöðvar hafa tilkynnt þeim að verð fyrir lambakjöt muni lækka um 35 prósent. Sú lækkun kemur ofan á tíu prósent lækkun sem átti sér stað í fyrra. Ástæðan er offramleiðsla. Mun meira er framleitt en eftirspurn er eftir. Umfangið er talið vera um 1.200 tonn. Þetta leiðir til þess að laun sauðfjárbænda stefna í að verða 56 prósent lægri á þessu ári en í fyrra og nánast öll sauðfjárbú verða rekin með tapi. Sömu sögu er að segja með afurðarstöðvar.
Nú liggur fyrir að ríkið ætlar sér að setja 650 milljónir króna í aðgerðir sem eiga að mæta bráðavandanum og vinna að lausnum sem eiga að tryggja að þessi staða komi ekki upp aftur. Tillögurnar þarf að samþykkja á aukaaðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda þar sem skilyrði stjórnvalda fyrir fjárútlátunum kalla á breytingar á búvörusamningi.
Þau útgjöld sem samþykkt hefur verið að ráðast í verða þó ekki nálægt þeim 1,9 milljarði króna sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa sagt að þurfti til að bæta sauðfjárbændum upp tap þeirra vegna framleiðslu ársins 2017. Ekkert er um endurupptöku útflutningsskyldu í tillögunum, en háværar kröfur hafa verið um að slík verði tekin aftur upp. Útflutningsskyldan var aflögð fyrir nokkrum árum eftir að ríkið keypti hana af bændum.