Sú upphæð sem Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi United Silicon, er grunaður um að hafa svikið út úr fyrirtækinu er yfir hálfur milljarður króna. Samkvæmt heimildum Kjarnans bárust United Silicon reikningar sem sagðir voru vera frá fyrirtækinu Tenova, sem framleiddi ljósbogaofn verksmiðjunnar. Þeir reikningar voru greiddir en við endurskipulagningu United Silicon, sem nú stendur yfir, hafi komið í ljós að þeir væru alls ekki frá Tenova. Þess í stað hafi fjármunirnir sem greiddir voru ratað inn á reikning annars félags. Stjórn United Silicon telur að Magnús Garðarsson hafi haft umsjón með því félagi.
Stjórn United Silicon tilkynnti um það fyrr í dag það hún hefði í samráði við lögmann sinn og aðstoðarmann í greiðslustöðvun sent kæru til Embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar. Í tilkynningu segir að kæran byggi á „ grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014 og er lögð fram í samráði við aðra hagsmunaaðila. Upplýsingarnar sem nú koma fram eru afrakstur af vinnu við endurskipulagningu félagsins sem leidd hefur verið af nýrri stjórn sem tók við í febrúar. Hinn grunaði hefur enga aðkomu haft að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars. Stjórn félagsins mun vinna með yfirvöldum að rannsókn málsins svo að upplýsa megi það sem fyrst.“
Átt hefur verið við marga samninga
Heimildir Kjarnans herma að eignarleit standi nú yfir bæði hérlendis og í Danmörku. Finnist eignir mun verða farið fram á frystingu þeirra. Lögregluyfirvöld hafa umsjón með þeirri eignarleit. Líkt og áður sagði er grunur um að Magnús hafi komið undan um hálfum milljarði króna og að fjölmargir samningar sem gerðir hafa verið vegna United Silicon séu falsaðir.
Í greiðslustöðvun og skuldar milljarða
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna. Greiðslustöðvun fyrirtækisins var framlengd í vikunni og gildir nú fram í desember.
Á meðal hluthafa og lánveitenda þess eru Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir. Alls nam fjárfesting lífeyrissjóða í verkefninu um 2,2 milljörðum króna. Þar af fjárfestu þrír lífeyrissjóðir sem eru í stýringu hjá Arion banka í verkefninu fyrir .1375 milljónir króna. Frjálsi lífeyrissjóðurinn lagði til langstærstan hluta þeirrar upphæðar, eða 1.178 milljónir króna. Hinir tveir sjóðirnir eru Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ). Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Alls skuldar United Silicon Arion banka um átta milljarða króna. Auk þess færði bankinn niður virði 16,3 prósenta hlutafjáreign sinnar í fyrirtækinu í hálfsársuppgjöri sínu í síðasta mánuði.