Alþingismenn, bæði úr stjórnarandstöðuflokkunum og stjórnarflokkunum, hafa sagst vilja fresta því að senda feðginin stúlkurnar Haniye og Mary, ásamt fjölskyldum þeirra, úr landi. Þá er víðtækur stuðningur við frumvarp Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um veita þeim ríkisborgararétt.
Þingflokkur Vinstri grænna er hlynntur málinu, í það minnsta stærstur hluti þingflokks Pírata og þá eru þingmenn í liði Viðreisnar einnig hlynntir því feðginin fái að vera áfram í landinu.
Björt framtíð vill endurskoða lög um útlendinga, en innan Sjálfstæðisflokksins hefur Sigríður Andersen, dómsmálraráðherra, traust og stuðning þingflokksins, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Þingmenn úr röðum Framsóknarflokksins ætla ekki formlega að vera með í flutningi frumvarpsins, miðað við stöðu mála eins og hún var í gær, en innan flokksins er, líkt og í flestum hinum flokkunum að Sjálfstæðisflokknum undanskildum, áhugi á því að grípa inn í þá atburðarás að vísa stúlkunum og fjölskyldum þeirra úr landi.
Frestun
Til stendur að senda feðginin Abrahim og Haniye Maleki úr landi á fimmtudag, en eins og greint var frá vef Kjarnans í gær, þá vill Ríkislögreglustjóri láta fresta aðgerðinni, en Útlendingastofnun þarf þó að taka efnislega afstöðu til þeirra beiðni. Ástæða þess að möguleiki er á frestun er sú að Ríkislögreglustjóri telur formgalla hafa verið á birtingarvottorði gagnvart Abrahim og Haniye.
Líkt og greint var frá í gær, á vef Kjarnans, hefur Logi sent bréf til dómsmálaráðuneytisins, Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra þar sem hann óskar eftir því að ákvörðun um að vísa Haniye Maleki og Abrahim Maleki úr landi verði ekki framkvæmd á fimmtudag líkt og stendur til.
Ástæðan er sú að hann, og aðrir þingmenn, ætla að leggja fram frumvarp um að veita þeim feðginum ríkisborgararétt um leið og Alþingi verður sett í dag.
Mannúð að leiðarljósi
Logi segir í stöðuuppfærslu á Facebook að það sé „eðlilegt og mannúðlegt að þau verði ekki flutt úr landi fyrr en alþingi, sem hefur heimild að lögum til veitingu ríkisborgararéttar, hefur fjallað um málið. Þá væri með brottvísun þeirra nú brotið gegn meðalhófi. Nefna má að fordæmi er fyrir því að Alþingi veiti ríkisborgararétt með skjótum hætti, t.d. þegar Bobby Fischer fékk ríkisborgararétt árið 2005. Þá afgreiddi Alþingi málið á innan við sólarhring,“ sagði Logi.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði um helgina að ákvörðun um brottvísun stúlknanna yrði ekki endurskoðuð. Það kæmi ekki til greina. Í samtali við RÚV sagði hún: „Nei, það kemur ekki til greina að endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni. Það kemur ekki til greina af minni hálfu sem ráðherra að taka fram fyrir hendurnar á sjálfstæðri stjórnsýslustofnun eins og kærunefnd í málum sem hafa fengið tvöfalda málsmeðferð hér á landi.“
Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir hún, að henni hugnist ekki lagasetning vegna þessa máls og segir það ekki réttarríkinu til framdráttar að standa þannig að málum.