Eins og venjulega þegar þingvetur hefst, þá er línan lögð með stefnuræðu forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ítarlega ræðu sína fyrstur stjórnmálaleiðtoga í gær, áður en fleiri tóku til máls.
Leiðtogar stjórnarflokkanna, Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé, töluðu allir fyrir mikilvægi ábyrgrar stjórnunar, en skerpu einnig á helstu áherslumálum ríkisstjórnarinnar, um að byggja upp stöðugleika í efnahagsmálunum og um leið treysta félagslega innviði velferðarkerfisins.
Leiðtogar stjórnandstöðuflokkanna sýndu klærnar, og gagnrýndu stjórnvöld, meðal annars fyrir að sinna ekki þeim sem minna mega sín, byggja undir aukinn ójöfnuð og aðhafast ekkert í málum sem þyldu ekki neina bið.
Hér á eftir fara athyglisverðir punktar úr ræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, frá leiðtogum flokkanna, en augljós meiningarmunur er á greiningu þeirra á hinu pólitíska landslagi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
„Klisjan um vaxandi ójöfnuð lifir góðu lífi í umræðunni. Staðreyndin er þó sú að engin þjóð mælist með meiri launajöfnuð en Ísland samkvæmt árlegri úttekt OECD á jöfnuði meðal þjóða. En því er engu að síður haldið fram að launaójöfnuður sé sjálfstætt vandamál og vaxandi. Sá málflutningur stenst enga skoðun eins og niðurstöður OECD bera skýrt með sér. Nær væri að beina sjónum að tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar á störfum sem standa undir hærri launagreiðslum. Sterkari samkeppnishæfni landsins mun skila sér í betri kjörum allra, ekki síst launalægstu hópanna.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
„Maður og náttúra geta lifað í sátt – átt samleið þar sem mannsandinn og náttúran tala saman. Okkur Íslendingum hefur miðað fram á við í þessu samtali en um leið eigum við enn langan veg framundan. Við stöndum frammi fyrir stórum spurningum. Getum við náð saman um friðun miðhálendisins og breytt því í þjóðgarð? Getum við náð lausn í fiskeldismálum þar sem náttúran fær að njóta vafans og við stöndum vörð um þá líffræðilegu fjölbreytni sem felst í villta laxastofninum? Getum við átt þessa umræðu án þess að festast í skotgröfum höfuðborgar og landsbyggðar? Getum við sem búum í þéttbýlinu sýnt þeim skilning sem hafa um árabil staðið í ströngu að berjast við að halda uppi byggð þó að ýmsar ákvarðanir meðal annars hér á Alþingi hafi verið þeim mótdrægar? Þeim sem vildu gera út á trillu en áttu aldrei möguleika í svokallaðri frjálsri samkeppni við þá sem fengu kvótann.“
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
„Við erum ríkt land og getum vel boðið öllum mannsæmandi líf. Það verður aðeins gert með klassískum aðferðum sem gert hafa Norðurlöndin að fyrirmynd annara ríkja: Með því að tryggja öllum öryggi, velferð og menntun og ekki síst skipta gæðum og byrðum réttlátar. Frú forseti. Það er mikilvægt að ríða þétt öryggisnet sem grípur fólk ef það af einhverjum ástæðum fellur milli skips og bryggju og tryggir þeim öryggi og skjól,“ sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
„Í mörgum löndum leiddi hrunið til þess að upp spruttu flokkar haturs og fordóma. Við Íslendingar höfum að mestu verið laus við slíka hópa og þeir hafa enn sem komið er ekki náð neinni fótfestu. En þegar við lítum til Bandaríkjanna, kyndilbera lýðræðisins í heiminum stærstan hluta 20. aldarinnar, þá sjáum við hvað hefur gerst og það gæti líka gerst hér.Það er jákvætt að fólk líti á Ísland sem land tækifæranna. Það er jákvætt að Ísland sé frjálslynt og opið—og við verðum að tryggja að svo verði áfram.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
„Við viljum einnig sjá uppstokkun á bankakerfinu. Bankakerfið á að þjónusta heimili og fyrirtæki. Hinn almenni neytandi þarf að geta treyst því að eftirlitið sé virkt og aðhald sé gagnvart fjármálastofnunum. Margt hefur áunnist í að endurvekja traust, en þónokkuð er í land. Þessu tengt þá sendi, sá sem hér stendur, fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um eignasafn Seðlabankans, og fékk til baka frekar fátækleg svör um hverjir hafi sinnt þjónustu fyrir bankann og keyptu eignir. M.ö.o. almenningur fær ekki að vita hverjir keyptu, á hversu mikið, né hvernig þær voru greiddar. Á sama tíma opna ráðuneytin bókhaldið. Er eðlilegt að Seðlabankinn geti skýlt sér á bak við bankaleynd þegar hann höndlar með eigur almennings?“
Birgitta Jónsdóttir, Pírötum.
„Ég man líka þegar vímuefnasjúklingar voru settir í fangelsi í stað þess að hjálpa þeim að ná heilsu. Alveg ótrúlegt, satt best að segja. Ég man líka hvernig stjórnmálamenn komust upp með að etja fólki saman og á meðan það reifst og skammaðist á samskiptamiðlum út af einhverju sem fyllti það heilagri vandlætingu einn daginn og var gleymt næsta hvarf auðurinn af okkar sameiginlegu auðlindum inn í skattaskjól víða um heim.“
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Ég datt inn í pólitík til að reyna að gera gagn. Við stofnuðum Bjarta framtíð til að stunda öðruvísi stjórnmál. Við viljum hafa jákvæð áhrif á samfélagið og umræðuna og við viljum gera það á borði en ekki bara í orði. Þess vegna tókum við þá ákvörðun, sem var alls ekkert sjálfsögð, að setjast í ríkisstjórn til að hafa áhrif á borði, hafa raunveruleg áhrif á umhverfismálin, styðja við uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu og taka þátt í að móta framtíðina. Við viljum axla ábyrgð af því að verkefnin skipta máli. Það er margt gott en það er alltaf hægt að gera betur. Við þurfum að halda boltanum á lofti í verkefnum dagsins en líka um leið að hafa auðmýkt og hugrekki til að hafa augun á framtíðinni því að það er hún sem skiptir mestu máli.“