Stundum er það kallað stjörnuhrap þegar einstaklingur sem hlotið hefur skjótan frama fellur af stallinum. Þetta á sannarlega við um Milenu Penkowu, sem misst hefur bæði doktorsnafnbót og lækningaleyfi.
Milena Penkowa hefur iðulega verið kölluð undrabarnið frá Óðinsvéum þar sem hún fæddist 15. apríl 1973. Móðirin af búlgörskum ættum en faðirinn danskur.
Milena vakti ung athygli fyrir námshæfileika og keppnisskap. Frá barnsaldri var hún á kafi í hestamennsku og var um tíma að hugsa um að leggja þjálfun og keppni í hestaíþróttum fyrir sig. Það varð þó ekki og Milena lauk embættisprófi í læknisfræði frá Hafnarháskóla árið 1998, varð aðjúnkt við sama skóla í kjölfarið og skipuð lektor árið 2002. Allt slétt og fellt.
Doktorsritgerðin
Árið 2003 lagði Milena Penkowa fram doktorsritgerð við Læknadeild Hafnarháskóla. Ritgerðin fjallaði um áhrif próteinsefnisins metallothionein (metal oþjonen) á starfsemi heilans, einkum í tengslum við Alzheimer sjúkdóminn. Dómnefnd fann margt athugavert við ritgerðina og vildi ekki samþykkja hana, Milena var mjög ósátt við niðurstöðuna en dómnefndinni varð ekki haggað. Forseti læknadeildar Hafnarháskóla var á þessum tíma Ralf Hemmingsen, sem átti eftir að koma mjög við sögu í samskiptum Milenu og háskólans. Eftir að Milena hafði skilað doktorsritgerðinni og dómnefndin hafði hana til umfjöllunar skrifaði Milena Ralf Hemmingsen og greindi honum frá því að móðir sín, ásamt systur sinni, hefðu látist í bílslysi í Belgíu. Þetta hefði fengið mjög á sig og ekki síður allt umstangið í kjölfarið. Nokkrir prófessorar og vísindamenn lýstu efasemdum um rannsóknirnar sem doktorsverkefnið byggði á, og lögðu til að vinnubrögð Milenu yrðu rannsökuð. Vegna þessa hótaði Ralf Hemmingsen, sem þegar þetta gerðist var orðinn rektor háskólans, einum prófessoranna brottrekstri.
Vegna kvartana og óánægju Milenu varðandi matið á doktorsritgerðinni, sem sögð var byggð á rannsóknum á rottum, fékk Ralf Hemmingsen tvo erlenda sérfræðinga til að yfirfara ritgerðina. Sérfræðingarnir dæmdu ritgerðina fullnægjandi og Milena Penkowa hlaut doktorsnafnbótina árið 2006, við hátíðlega athöfn.
Mikla athygli vakti að meðal viðstaddra voru móðir Milenu og systir, þær sem Milena hafði áður sagt að látist hefðu í bílslysi árið 2003, um það leyti sem hún var að skila doktorsritgerðinni. Þær voru semsé þarna sprelllifandi og hefðu getað tekið undir fræg ummæli Mark Twain ,,fréttir af andláti mínu eru stórlega ýktar“.
Prófessor og stóri vísindastyrkurinn
Árið 2009 var Milena Penkowa skipuð prófessor við Hafnarháskóla og sama ár hlaut hún svonefndan EliteForsk styrk. Þessi styrkur (var þá 1,1 milljón danskra króna) er veittur framúrskarandi vísindamönnum í yngri kantinum, þykir mikil upphefð og ryður iðulega brautina fyrir aðra og stærri styrki. Síðar kom í ljós að Milena Penkowa hafði sjálf tilnefnt sig til að hljóta EliteForsk styrkinn en slíkt er ólöglegt. Danskir blaðamenn komust ennfremur að því að Milena hafði hlotið dóm fyrir fjárdrátt og skjalafals. Ralf Hemmingsen þrætti fyrir að hafa vitað um þessi mál, en blaðamenn vissu betur og lögðu fram sönnunargögn þar að lútandi.
Skikkuð í leyfi og sagði upp prófessorsstöðunni
Vorið 2010 var Milena Penkowa skikkuð í leyfi frá háskólanum og sagði síðar á árinu upp prófessorsstöðunni. Þá hafði einn af virtustu prófessorum háskólans skilað langri athugasemdaskýrslu um rannsóknir hennar. Helge Sander, þáverandi vísindaráðherra lagði hart að Ralf Hemmingsen rektor að ráða Milenu aftur til starfa. Danskir fjölmiðlar fullyrtu á þessum tíma að Milena og Helge Sander hefðu átt í nánu sambandi og nokkur dagblöð létu að því að liggja að hún hafi tekið Ralf Hemmingsen rektor á löpp.
Skjalafals og einkaneysla
Í desember 2010, nokkrum dögum áður en Milena sagði upp prófessorsstöðunni, var hún í undirrétti í Kaupmannahöfn dæmd fyrir skjalafals, stjórn sjóðs sem félag áhuga- og vísindamanna á og rekur hafði kært hana. Milena hafði fengið úthlutað fé úr sjóðnum til ákveðins verkefnis í tengslum við rannsóknir en í ljós kom að peningarnir höfðu farið í einkaneyslu. Dómurinn hljóðaði uppá þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þessi dómur markaði í raun upphaf allsherjar rannsóknar á störfum Milenu Penkowu. Sú rannsókn, eða réttara sagt rannsóknir, leiddu í ljós að víða var maðkur í mysunni varðandi þennan fyrrum efnilega vísindamann. Það gilti bæði um peningamál og ekki síður vísindarannsóknirnar. Engin leið er að gera grein fyrir öllum þeim málum í pistli sem þessum en lang alvarlegasta málið sneri að Hafnarháskóla og doktorsverkefninu áðurnefnda.
Weekendavisen og kæra Hafnarháskóla
Í nóvember 2010 birti vikublaðið Weekendavisen langa grein (og síðar fleiri) um Milenu Penkowu. Umfjöllun blaðsins vakti mikla athygli. Í kjölfarið leystu margir fyrrverandi samstarfsmenn Milenu við Hafnarháskóla frá skjóðunni en það höfðu þeir ekki áður þorað af ótta við að hljóta bágt fyrir. Ralf Hemmingsen háskólarektor, sem margir sökuðu um að halda ætíð hlífiskildi yfir Milenu, var beinlínis neyddur til að kæra hana, fyrir hönd háskólans. Sú kæra var lögð fram 3. febrúar 2011 í kjölfar greinaflokks Weekendavisen. Í umfjöllun blaðsins kom fram að spænskt fyrirtæki sem að sögn Milenu hefðu framkvæmt rannsóknirnar (á rottum) sem doktorsritgerðin byggði á hafði aldrei verið til, og niðurstöðurnar beinlínis falsaðar.
Dómar
Málaferlin voru bæði löng og flókin og það var ekki fyrr en í lok september 2015 að Bæjarréttur Kaupmannahafnar (neðsta dómstig af þremur) dæmdi í málinu, dómurinn hljóðaði uppá níu mánaða skilorðbundið fangelsi fyrir gróft skjalafals. Milena áfrýjaði dómnum til Eystri- Landsréttar sem kvað upp sinn dóm 8. september 2016.
Eystri- Landsréttur breytti dómi Bæjarréttarins úr grófu skjalafalsi í skjalafals. Sökum þess að þrír dómarar af sex í Eystri- Landsrétti töldu að Milena hefði ekki gerst sek um gróft skjalafals taldi ríkislögmaður ekki forsendur fyrir að kæra niðurstöðuna til Hæstaréttar, ástæðan lög um fyrningafrest. Hægt hefði verið að sækja um sérstakt leyfi til að fá málið tekið fyrir hjá Hæstarétti en ríkislögmaður ákvað að gera það ekki.
Svipt doktorsnafnbótinni og lækningaleyfinu
Fyrir rúmum mánuði var Milena Penkowa svipt lækningaleyfinu. Þá ákvörðun tók sérstök nefnd sem um slík mál fjallar. Leyfissviptingin gildir í tvo mánuði en að þeim tíma liðnum verður málið metið á ný. Hinn 5. september ákvað Vísindaráð Hafnarháskóla að svipta Milenu Penkowu doktorsnafnbótinni. Þetta er fyrsta skipti frá stofnun háskólans árið 1479 sem slíkt gerist.