Óvænt atburðarás sem leiddi til stjórnarslita og boðun þingkosninga 28. október næstkomandi hefur valdið miklum titringi á markaði á Íslandi. Á hlutabréfamarkaði hefur markaðsvirði skráðra félaga lækkað um ríflega 50 milljarða króna frá því á föstudagsmorgun, þegar ljóst var að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar væri fallin.
Hvað er að gerast?
Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir hluta- og skuldabréfamarkaðinn. Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa erlendir fjárfestar, sem hafa hagsmuna að gæta á Íslandi, verið forvitnir um gang mála undanfarna daga og spurt „hvað sé eiginlega að gerast á Íslandi“ eins og einn viðmælandi komst að orði, sem hafði átt samskipti við erlenda fjárfesta. Á skuldabréfamarkaði hafa sést merki um aukið áhættuálag og væntingar um meiri verðbólgu í framtíðinni. Hún mælist nú 1,7 prósent og hefur haldist í skefjum, það er undir 2,5 prósent markmiði, í vel á þriðja ár.
Mikil dagslækkun varð í dag, en vísitalan lækkaði um 1,64 prósent, ofan á lækkanir síðustu daga. Innan ársins hefur hlutabréfamarkaðuinn lækkað um tæplega sjö prósent að markaðsvirði, en heildarvirði félaga í kauphöllinni nam ríflega þúsund milljörðum króna hinn 1. september síðastliðinn samkvæmt gögnum frá Nasdaq kauphöll Íslands. Erlendir fjárfestar hafa verið að auka töluvert við eign sína í skráðum félögum á Íslandi að undanförnu, eins og fjallað var um í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í morgun.
Erlendir fjárfestar eiga mikið
Samkvæmt gögnum frá kauphöllinni nam heildareign erlendra fjárfesta í skráðum íslenskum félögum 21 prósent af heildinni, eða sem nemur um 214 milljörðum króna miðað við stöðuna eins og hún var í lok ágúst.
Íslenskir fjárfestir, þar sem helst lífeyrissjóðir, fjárfestingasjóðir og aðrir fagfjárfestar, eiga meirihlutann af 79 prósent hlutanum sem tilheyrir íslenskum fjárfestum.
Það félag sem er með stærsta hluta af erlendum hluthöfum er Össur, en danskir fjárfestar eiga þar meira en tvo þriðju hlutafjár, þar sem er danska félagið William Demant stærst með yfir 40 prósent hlut. Markaðsvirði þess er í dag 209 milljarðar króna, og því vegur sú erlenda eign mikið inn í heildartöluna.
Bandarískir vogunarsjóðir, sem hafa átt kröfur í slitabú bankanna og aflandskrónur hér á landi, hafa einnig verið að gera sig gildandi á markaðnum að undanförnu, og keypta hlutabréf í stórum stíl, meðal annars í tryggingarfélögunum og fasteignafélögum.
Frestun á skráningu
Eitt af því fall ríkisstjórnarinnar nú og kosningar í október hafa í för með sér, er óvissa um verkefni sem þegar eru komin fram. Þar á meðal er nýframkomið fjárlagafrumvarp, Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra og formanns Viðreisnar.
Samkvæmt því var reiknað með 44 milljarða afgangi á fjárlögum næsta árs. Ljóst er þó að ný ríkisstjórn, hvernig sem hún verður samsett, mun vafalítið leggja sitt mark á fjárlögin og koma sínum pólitísku áherslum inn í lokaniðurstöðuna fyrir áramótin. Allta hefur þetta áhrif á heildarstöðuna og framtíðarsýnina á fjármálamörkuðunum.
Þá er fyrirhuguð skráning á Arion banka, sem var á döfinni nú á haustmánuðum, komin á ís. Í Markaðnum í morgun kom fram fram að vegna pólitískrar óvissu sem skapast hefur þá þyrftu stjórnvöld lengri tíma til að taka afstöðu til þess, hvort ríkið ætti að falla frá forkaupsrétti á hlut í Arion banka miðað við verðmiða upp á 0,8 sinnum eigið fé. Líklegt er að skráningin mun fara fram á næsta ári, úr því sem komið er.
Eigið Arion banka nam 214 milljörðum miðað við lok mars á þessu ári, verðmiðinn því ríflega 171 milljarður króna, sé mið tekið af því. Hlutur ríkisins nemur í dag 13 prósentum og er ríflega 22 milljarða króna virði miðað við 0,8 sinnum eigið fé.