Útrýmingarhætta er orð sem alloft sést og heyrist í fjölmiðlum. Iðulega er þá verið að segja frá dýrategundum sem eiga í vök að verjast vegna aðgangshörku mannsins eða breyttum aðstæðum í umhverfinu. En það er fleira sem hverfur vegna breyttra aðstæðna. Sparibaukurinn er dæmi um slíkt.
Óhætt er að fullyrða að nær öll börn í okkar heimshluta, og reyndar víðar, hafi átt sparibauk. Allur gangur hefur hinsvegar verið á því hversu vel hefur gengið að safna í baukinn. Á árum áður mátti iðulega í dagblöðum og tímaritum sjá myndir af stoltum börnum sem voru komin í bankann til að tæma baukinn og peningarnir settir á bók til varðveislu eða gefnir til góðra verkefna. Þetta var á þeim árum þegar peningar voru peningar en ekki plastkort. Á síðustu árum hefur verið hart sótt að peningunum, það er að segja seðlum og mynt. Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir sparibaukana.
Sparigrís – Sparibaukur
Eins og allir vita eru til óteljandi útgáfur af því sem við Íslendingar köllum ýmist sparibauk eða sparigrís, hið fyrrnefnda algengara í daglegu tali. Hlutverkið er alltaf hið sama: að geyma peninga, seðla og mynt. Þessi söfnunarílát geta verið lítil eða stór, gerð úr plasti, málmi, leir, postulíni, gúmmíi og tré svo eitthvað sé nefnt. Útlitið er líka margvíslegt: fugl, kýr, stígvél, póstkassi, hús, bíll, matarbrauð, hattur o.fl o.fl. Og svo auðvitað grís. Grís? Af hverju grís og af hverju skyldi hann vera tákn sparnaðar?
Pygg – Pig bank – Piggy bank – Sparigrís
Vitað er að um margra alda skeið, kannski tvö þúsund ár eða lengur hafa verið til einhverskonar sparibaukar. Minni vitneskja liggur fyrir um ástæður þess að grísinn varð einskonar táknmynd geymsluílátanna. Grísinn var fyrr á öldum í uppáhaldi hjá fátækum bændum í Evrópu, grísinn vex hratt og gefur af sér mikið kjöt, kannski er það skýringin. Í Kína hefur grísinn verið tákn velmegunar og ríkidæmis, ekki er beinlínis vitað hvers vegna.
Ein hugmynd um uppruna sparigríssins er sú að á miðöldum var talsvert um að fólk notaði leirbauka til að geyma peninga í. Ein leirtegund sem mikið var notuð í þessu skyni kallaðist „pygg“. Í bandarískri bók „The Book of Answers“ (höf. Carol Bolt) er sett fram sú tilgáta að „pygg“ hafi svo breyst í „pig bank“ og enn síðar í „piggy bank“ eins og sparibaukurinn er nefndur á ensku. Svín hafa ekki verið hluti hefðbundins búpenings íslenskra bænda og þess vegna kannski bauksheitið Íslendingum tamara. En nú á sparibaukurinn, eða grísinn, í vök að verjast og ekki sjálfgefið að hann standi á borðinu í herbergjum barnanna, og þyngist smám saman.
Plastkortin og símarnir koma í stað peninganna
Á undanförnum tveimur áratugum eða svo hefur orðið mikil breyting í því sem kalla má greiðslufyrirkomulag. Áður gekk fólk með seðlaveski (sem voru vinsælar fermingargjafir) og buddu. Svo komu plastkortin og þau hafa hægt og hægt rutt seðlum og mynt til hliðar. Hægt og hægt er kannski ekki rétta lýsingin því þessi breyting hefur í raun gerst á ótrúlega skömmum tíma og er ekki lokið. Margir muna að þegar greiðslukortin komu fram varð korteigandinn að skrifa undir í hvert skipti sem hann innti greiðslu af hendi, svo komu hin svonefndu PIN-númer og í dag er nóg að bera kortið upp að einskonar skynjara til að borga ef um er að ræða lágar upphæðir. Síminn er svo nýjasta greiðslutækið.
Þessar breytingar sem hér er lýst hafa gert það að verkum að notkun hefðbundinna peninga, seðlum og mynt, hefur snarminnkað. Í nýlegri könnun eins af dönsku dagblaðanna kom fram að þrír af hverjum fjórum sem spurðir voru sögðust aldrei ganga með reiðufé á sér og flestir þeirra sem á annað borð voru með peninga í buddunni sögðust aldrei nota þá, það væri fyrst og fremst vani að vera með seðla í veskinu. Nokkuð er líka farið að bera á því í mörgum löndum, einkum í Evrópu, að verslanir og þjónustufyrirtæki taki hreinlega ekki við reiðufé. Kaupmenn rökstyðja þetta með því að mikill kostnaður fylgi því því að vera að vesenast með (jafnvel skítuga) seðla og smápeninga, fyrir utan að ekki er hægt að ræna „kassanum“ þar sem enginn „kassi“ er. Og er þetta ekki bara gott og blessað? Jú, myndi margur segja. En, eins og stundum er sagt „engin er rós án þyrna“ og ef sparibaukarnir, tala nú ekki um sparigrísirnir, mættu mæla tækju þeir ekki undir með já fólkinu. Þetta ógnar nefnilega tilveru þeirra. Amma og afi og frænka og frændi sparibaukseigandans eru hreinlega ekki með neina peninga í vösunum til að láta detta í baukinn þegar þau koma í heimsókn. Enginn amma og enginn afi segir við barnabarnið „ég millifæri svolítið inn á bankabókina þína þegar ég kem heim“. En það er líka annað varðandi sparibaukana.
Sparibaukurinn er kennslutæki
Flestir, og það gildir bæði um börn og fullorðna, líta kannski ekki á sparibaukinn sem kennslutæki í efnahagsmálum og meðferð fjármuna. Í nýlegri umfjöllun danska dagblaðsins Börsen voru þrír sérfræðingar sem blaðið ræddi við sammála um að sparibaukurinn hefði í áratugi verið það verkfæri sem kennt hefði börnum samhengið milli tekna og gjalda, ef svo mætti að orði komast. Sérfræðingarnir bentu á að börn skildu vel að tómur sparibaukur þýddi að engir peningar væru til en innistæðulaust greiðslukort segði hvorki eitt né neitt. Bankar og sparisjóðir hafa reynt að mæta þessari breytingu með eins konar rafrænum sparibaukum en áðurnefndir viðmælendur Börsen voru sammála um að þeir kæmu ekki, að minnsta kosti enn, í stað hinna hefðbundnu sparibauka. Danskir stærðfræðikennarar hafa bent á að peningar hafi gegnum tíðina verið mikilvægt kennslutæki, börn eigi mun auðveldara með að læra leyndardóma stærðfræðinnar þegar þau hafa hlutina (peningana) í höndunum en ekki bara tölur á blaði. Einn kennari orðaði það svo „ef peningarnir hverfa verðum við bara að treysta á Matador-spilið“.