Landsbankinn birti í vikunni sem leið ítarlega greiningu sína á ferðaþjónustunni á Íslandi, og fylgdi því úr vör með fundi um þessa undirstöðuatvinnugrein Íslands.
Margt athyglisvert má finna í greiningu bankans. Fimm atriði verða hér dregin fram sérstaklega, sem sýna glögglega hversu mikið vægi ferðaþjónustunnar hefur fyrir Ísland, og hversu miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf.
1. Árið 2015 nam útflutningur ferðaþjónustu í hagkerfinu um 31 prósent af heildarútflutningi. Til samanburðar er heimsmeðaltalið um 7 prósent. Vægi ferðaþjónustunnar í útflutningi er því ríflega fjórfalt meira á Íslandi en það er almennt í heiminum. Á síðustu tveimur árum hefur þetta hlutfall farið hækkandi, og spáir hagfræðideild Landsbankans því að vægið verði um 43 prósent á þessu ári.
2. Sé mið tekið af rannsóknum hagfræðideildar Landsbankans á því, hversu næm ferðaþjónustan er fyrir gengisbreytingum, þá bendir margt til þess að ferðaþjónusta á Íslandi sé ekki eins næm fyrir hækkun verðlags vegna gengisbreytinga heldur en gengur og gerist í heiminum. Þetta eru sagðar jákvæðar fréttir, sem slá á miklar áhyggjur manna af því að ferðamönnum muni fækka á næstu misserum. Hagfræðideildin gerir ráð fyrir 22 prósent fjölgun ferðamanna á þessu ári, en síðan fari að hægja nokkuð á fjölguninni. Hún verði 8 prósent á næsta ári og 5 prósent árið 2019.
3. Önnur eyríki sem reiða sig að miklu leyti á ferðaþjónustu, eru líkt og Ísland afar háð því að flugsamgöngur séu góðar og skilvirkar. Um 99 prósent allra erlendra ferðamanna sem koma til Ísland koma um Keflavíkurflugvöll, og því er kerfislægt mikilvægi hans fyrir ferðaþjónustuna og hagkerfi í heild sinni afar mikið. Gífurlegt álag hefur verið á vellinum á undanförnum árum, og er uppbygging hans nú í gangi. Samkvæmt gögnum sem hagfræðideild Landsbankans tók saman þá voru flughreyfingar (áætlunar- og leiguflug) á vellinum 45.771 í fyrra sem er um 178 prósent aukning frá árinu 2009. Þessi vöxtur er fáheyrður í alþjóðlegu samhengi. Meðaltalsfjöldi millilandafluga á hverjum degi var 63.
4. Því er velt upp í greiningu Landsbankans, hvort flugfélögin Icelandair og WOW Air séu orðin kerfislægt mikilvæg fyrir fjármálastöðugleika í landinu, með svipuðum hætti og fjármálafyrirtækin stærstu eru skilgreind sem kerfislægt mikilvæg út frá þeim mælikvarða. Fram kemur í umfjölluninni að ef flugfélögin lendi í vandræðum, þá geti það leitt til alvarlegra áfalla fyrir íslenskt efnahagslíf í heild sinni. Svo yfirþyrmandi eru stærðir ferðaþjónustunnar orðnar fyrir íslenska hagkerfið. Þarf að útbúa viðbragðsáætlanir og neyðarúrræði, vegna þessara mikilvægu félaga? Að þessu er spurt í greiningunni.
5. Greining Landsbankans gerir ráð fyrir að fjölgun gistinátta geti mögulega hafa verið vanmetin á undanförnum árum. Er ástæðan sú að stór hluti af gistimarkaðnum er óskráður. Telur greiningin meðal annars að Airbnb kunni að vera með helming af gistimarkaðnum á Íslandi.