Hástökk Sigmundar Davíðs í kosningaspánni

Tveir flokkar njóta mests stuðnings í aðdraganda kosninganna. Framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist í fyrsta sinn í kosningaspánni.

Stuðningur við íslenska stjórnmálaflokka hverfist nú að mestu leyti um tvo flokka. Það eru Vinstri hreyfingin - grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn. Þessir flokkar hafa sögulega stillt sér upp hver á sinn endann í hefðbundnum íslenskum stjórnmálum.

Nýjasta kosningaspáin, sem unnin er af Baldri Héðinssyni stærðfræðingi og Kjarnanum, sýnir Vinstri græna vera enn stærsta stjórnmálaaflið í aðdraganda kosninganna 28. október næstkomandi með 24,3 prósent fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn tapar heilu prósentustigi á milli kosningaspáa og er nú með 23 prósent fylgi.

Aðrir flokkar reiknast með minna en 10 prósent stuðning, fyrir utan Pírata sem myndu fá um 10,9 prósent atkvæða ef kosið væri nú. Íslenska stjórnmálalandslagið virðist þess vegna hverfast að miklu leyti um tvo turna.

Stuðningur við framboð 29. september 2017

Mældur stuðningur við stjórnmálaflokka sem bjóða fram í Alþingiskosningunum næstkomandi, miðað við kosningaspána.

Ef úrslit kosninga verða í einhverri líkingu við þetta þá er ljóst að ríkisstjórnarmyndun mun að miklu leyti stjórnast af því hversu vel Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson tekst að sannfæra aðra flokka um samstarf við sig.

Ríkisstjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð eiga jafnframt hættu á að ná ekki kjöri ef fram heldur sem horfir. Í síðustu kosningaspám hafa þessir flokkar mælst með lítinn stuðning. Viðreisn mælist ítrekað með litlu meira en fimm prósent og Björt framtíð er ávalt minnstur þeirra flokka sem mælast með nægilegt fylgi til þess að komast að í kosningaspánni.

Það er ágæt þumalputtaregla að miða við að flokkur þurfi að fá fimm prósent atkvæða í kosningum á landsvísu til þess að ná kjöri. Það gæti hins vegar verið svo að flokkur fái mun meira fylgi í einu kjördæmi umfram önnur og náð kjöri þannig, þrátt fyrir lítið fylgi á landsvísu.

Þróun stuðnings við stjórnmálaflokka í kosningaspánni

Mældur stuðningur við stjórnmálaflokka sem bjóða fram í Alþingiskosningunum næstkomandi, miðað við kosningaspána.

A B C D F M P S V Aðrir

Samfylkingin er eini flokkurinn sem bætir við sig í kosningaspánni frá fyrri spá, fer upp um 0,5 prósent. Framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verður þó að teljast mesti hástökkvarinn í þessari kosningaspá því framboð hans (sem hafði ekki fengið nafn þegar nýjasta könnunin í kosningaspánni var gerð) mælist með 7,1 prósent stuðning. Allir flokkar utan Samfylkingarinnar minnka við þetta hástökk Sigmundar Davíðs.

Þess ber þó að geta að mælingin á stuðningi við Miðflokkinn, framboð Sigmundar Davíðs, er óáreiðanlegasta mælingin í kosningaspánni. Aðeins ein könnun býr að baki þeim gagnapunkti sem birtist hér, miðað við fjórar kannanir sem sýna fylgi annarra framboða. Aðeins tíminn – og fleiri kannanir – munu færa fylgi Sigmundar Davíðs meira vægi í kosningaspánni.

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni (gerð 29. september 2017) eru eftirfarandi.

  • Skoðanakönnun MMR 26. – 28. september (vægi 37,7%)
  • Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 19. – 21. september (vægi 26,9%)
  • Skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis 18. september (vægi 18,8%)
  • Þjóðarpúls Gallup 10. – 30. ágúst (vægi 16,5%)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Til útskýringar má segja að vægi kannana er gefið eftir því hversu næmur könnunaraðilinn og aðferðir hans eru á raunverulegar hreyfingar í samfélaginu. Kosningar eru auðvitað eini mælikvarðinn á það hversu vel könnunaraðilum tekst upp svo miðað er við söguleg gögn og þau borin saman við kosningaúrslit til að ákvarða áreiðanleika. Þá skiptir máli hversu langt er liðið síðan könnunin var gerð og hversu margir tóku þátt í henni.

Kjarn­inn birti Kosn­­inga­­spá Bald­­urs fyrst í aðdraganda sveit­­ar­­stjórn­­­ar­­kosn­­ing­­a 2014 og reynd­ist sú til­­raun vel. Á vefnum kosn­­inga­­spá.is má lesa nið­­ur­­stöður þeirrar spár og hvernig vægi kann­ana var í takt við frá­­vik kann­ana miðað við kosn­­inga­úr­slit­in.

Kosn­­inga­­spá Kjarn­ans og Bald­­urs Héð­ins­­sonar er nú keyrð í aðdraganda Alþingiskosninga 28. október í annað sinn. Kosningaspáin fékk mikla athygli fyrir síðustu Alþingiskosningar 2016, ekki síst fyrir þingsætaspána þar sem spáð var um hvaða frambjóðendur myndu ná kjöri. Nánar um það hér að neðan.

Í nýj­­ustu kosn­­inga­­spánni hverju sinni eru nýjustu kannanir könnunaraðila vegnar eftir áreiðanleika. Fylgi einstakra framboða er svo fundið með vegnu meðaltali úr þeim könnunum sem liggja til grundvallar hverri spá fyrir sig. Spálíkanið sem Baldur hefur útbúið byggir að verulegu leyti á aðferðum Nate Silver. Um það má lesa hér. Vægi hverrar könnunar fyrir sig er metið út frá fyrirfram gefnum forsendum, eins og stærð úrtaks, fjölda svarenda, lengd könnunartímabils og áreiðanleika könnunaraðila. Áreiðanleiki könnunaraðila byggir á því hversu nærri kannanirnar hafa komist niðurstöðum kosninga á undanförnum árum.

Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarks skilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar