Meira en 58 manns létust og yfir 500 særðust í skotárás á tónleikagesti á útitónleikum í Las Vegas í nótt. Um leið og skothríðin hófst, og tónleikagestir áttuðu sig á hryllingnum sem var að eiga sér stað, hlupu þúsundir manna um skelfingu lostnir og reyndu að forða sér undan byssukúlum.
Blóð og neyðaróp
Þær komu frá byssumanni á hóteli í nágrenni, Mandalay Bay Resort.
Árásin hófst þegar kántrý tónlistarmaðurinn Jason Aldean var að flytja lög sín á Route 91 Harvest Festival tónlistarhátíðinni, um klukkan 22:10. Allt í einu hófst hávær skothríð og skelfing greip tónleikagesti.
Aldean hljóp af sviðinu og öll hljómsveit hans sömuleiðis. Gæslumenn á tónleikastaðnum reyndu að aðstoða fólk við að komast í burtu í fyrstu, en síðan varð ljóst að þeir þurftu að taka til fótanna til að lifa af. Byssukúlunum rigndi, blóð og neyðaróp fólks voru það sem helst einkenndi staðinn þar sem fólk kom saman til að skemmta sér.
Samkvæmt frásögn New York Times liðu einungis nokkrar mínútur þar til fyrstu lögreglumenn komu á staðinn, og síðan tóku sérsveitarteymi lögreglunnar að birtast, og þræða nágrenni tónleikastaðarins með byssuhlaupin fyrir framan sig í leit að árásarmanninum.
Einn þeirra sem varð vitni að því að þegar skothríðin hófst, var Eiríkur Hrafnsson, starfsmaður NetApp og stofnandi Greenqloud, en hann var í hópi íslenskra starfsmanna fyrirtækisins staddur á Mandalay Bay hótelinu. Hann lýsti upphafi atburðana á Twitter og þar sést meðal annars þegar mannfjöldinn á tónleikunum - sem alls taldi um 22 þúsund manns - tvístraðist á örskotsstundu þegar skothríðin var hafin.
Heimamaður með fjölda riffla
Maðurinn sem stóð fyrir árásinni hafði komið sér fyrir á 32. hæð Mandalay Bay hótelsins þar sem hann gat óáreittur skotið með sjálfvirkum riffli - sem eru löglegir í Nevada - í átt að mannfjöldanum.
Samkvæmt frásögn Washington Post voru í það minnsta tíu rifflar inn á herbergi mannsins þegar sérsveitarmenn brutu sér leið inn, en fregnir af tegund vopna og nákvæmum fjölda hafa ekki verið staðfestar af lögreglu. Maðurinn, 64 ára gamall heimamaður að nafni Stephen Craig Paddock, skaut sig að lokum. Þannig lauk þessari skelfingu; með dauða árásarmannins.
Af þeim ríflega 500 sem særðust eru margir alvarlegra særðir og allt eins líklegt að tala látinna eigi eftir að hækka mikið.
Þetta er ein alvarlegasta skotárás sem átt hefur sér stað í sögu Bandaríkjanna, og hafa aldrei jafn margir særst í fjöldaskotárás, sem þó hafa verið tíðar í gegnum tíðina í Bandaríkjunum.
Inn á herbergi síðan á fimmtudag
Paddock er sagður hafa verið einn að verki en hann hafði aldrei komið við sögu lögreglu áður, nema vegna smávægilegra hluta í tengslum við eftirlit lögreglu. Hann var búinn að dvelja á herbergi sínu á hótelinu fyrrnefnda síðan á fimmtudag í síðustu viku.
Enginn starfsmanna hótelsins er sagður hafa áttað sig á því að hann væri með öll þessi skotvopn inn á herbergi hans, og ekkert grunsamlegt hafði komið fram.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu vegna atburðarins að hugur bandarísku þjóðarinnar væri hjá fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra.
Joseph Lombardo, lögreglustjóri í Vegas, sagði að allt benti til þess að Paddock hefði verið einn að verki.
Bróðir fjöldamorðingjans, Eric Paddock, sagði í viðtali við CBS að bróðir hans hefði verið „heillaður“ af byssum og að hann hefði í það minnsta átt margar skammbyssur. Þá sagðist hann síðast hafa heyrt af ferðum hans þegar hann kom til ættingja í Florída þegar fellibylurinn Irma gekk þar yfir, en 6,3 milljónir manna þurftu þá að flýja heimili sín vegna veðurofsa.
Hann hafði gaman af fjárhættuspilum.
Smánarblettur
Skotárásir og dauðsföll vegna þeirra eru smánarblettur á bandarísku samfélagi. Á hverju ári deyja að meðaltali 13 til 16 þúsund manns vegna byssuárása og á bilinu 25 til 30 þúsund slasast, sé horft til síðustu tíu ára. Séu sjálfsvíg vegna skotvopna tekin með í reikninginn deyja um 35 þúsund manns á ári.
Margoft hafa verið gerðar tilraunir til að herða byssulöggjöfina í landinu, og í sumum ríkjum hefur náðst árangur með séstökum reglugerðum.
Einkum og sér í lagi er það könnun á bakgrunni þeirra sem kaupa skotvopn sem hefur til athugunar í þeim efnum.
En óhætt er að segja að árangurinn í baráttunni við byssuglæpi í Bandaríkjunum hafi lítill sem enginn verið, og síendurtekin fjöldamorð með skotvopnum - jafnvel inn í skólum og á öðrum stöðum þar sem fjölmenni kemur saman - sýna glögglega að um innanmein er að ræða í bandarísku samfélagi.
Hryðjuverkaógn, sem kemur utan Bandaríkjanna, blikknar í samanburði við ógnina sem almenningur í Bandaríkjunum býr við vegna byssuglæpa heimamanna, enda deyja mun fleiri á hverju ári í Bandaríkjunum í skotárásum heldur en deyja á hverju ári í hryðjuverkaárásum um allan heim.
Gera má ráð fyrir að þessi skelfilegi atburður í Las Vegas muni enn og aftur verða til þess að pólitísk umræða um skotvopnaeign, skotárásir og umgengni um skotvopn verður að eldheitu deiluefni hjá stjórnmálastéttinni.
Uppfært 20:43: Í yfirlýsingu frá yfirvöldum, sem vitnað er til í frétt New York Times, segir að 19 rifflar hafi fundist á herbergi mannsins.