Sveinn Arason Ríkisendurskoðandi lýsti sig vanhæfan til að endurskoða ársreikning Lindarhvols, eignahaldsfélags íslenska ríkins, sem annast umsýslu eigna sem komu í fang ríkisins frá slitabúum föllnu bankanna. Félagið var stofnað 15. apríl í fyrra og heldur á tugmilljarða eignum fyrir hönd ríkisins.
Ástæðan fyrir því að Sveinn annaðist ekki endurskoðun ársreikninga Lindarhvols var sú að bróðir hans, Þórhallur Arason, er stjórnarformaður Lindarhvols. Vinnan við endurskoðun ársreiknings félagsins tafðist nokkuð vegna þessa, en Sigurður Þórðarson, fyrrverandi Ríkisendurskoðandi, var fenginn í það að annast endurskoðun ársreikningsins.
Í ársreikningi Lindarhvols kemur fram að Steinar Guðgeirsson hrl. hafi í fyrra fengið tæplega 40 milljónir króna í sinn hlut frá Lindarhvoli á átta mánaða tímabili, eða tæplega 5 milljónir króna á mánuði. Peningarnir fóru til Íslaga, lögmannsstofu sem Steinar á, en hann hefur prókúru fyrir hönd Lindarhvols, samkvæmt gögnum um fyrirtækið.
Innsendir reikningar skoðaðir
Í svari við fyrirspurn til Sigurðar, segir hann að hann hafi yfirfarið reikninga Lindarhvols í takt við viðurkenndar starfsaðferðir við endurskoðun. „Við endurskoðun ársreiknings Lindarhvols ehf. fyrir árið 2016 voru gerðar þær kannanir á bókhaldi félagsins sem ég taldi nauðsynlegar og í því sambandi skipulagði og hagaði ég endurskoðuninni í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ársreikningurinn er áritaður án athugasemda. Varðandi fyrirspurn þína voru skoðaðir allir reikningar sem Íslög ehf. sendi félaginu vegna ársins 2016. Þeir voru allir áritaðir af stjórnarmanni Lindarhvols ehf. sem var með prókuruumboð fyrir félagið. Þá var skoðað af minni hálfu að reikningar innsendir frá félaginu væru í samræmi við samning milli aðila,“ sagði Sigurður.
Í stjórn félagsins sitja auk Þórhalls, Ása Ólafsdóttir, meðstjórnandi, og Haukur C. Benediksson, meðstjórnandi.
Baðst afsökunar á seinum skilum
Eins og greint var frá á vef Kjarnans 27. september þá sendi Kjarninn fyrirspurn til Þórhalls í mars, þar sem óskað var eftir upplýsingum um starfsemi félagsins á síðasta ári, og niðurbrot á kostnaði og verkefnum. Þórhallur svaraði með eftirfarandi hætti, 17.mars: „Sæll Magnús og takk fyrir tölvupóstinn. Stjórn Lindarhvols ehf. er vinna að frágangi ársreiknings félagsins fyrir árið 2016 og er sú vinna að klárast á næstu dögum. Þegar þeirri vinnu er lokið verður ársreikningurinn birtur með upplýsingum um allan kostnað félagsins ásamt frekari niðurbroti. Mun senda þér reikninginn um leið og hann liggur fyrir. Kær kveðja, f.h. Lindarhvols ehf. Þórhallur Arason, stjórnarformaður.“ Ársreikningurinn var ekki sendur í takt við það sem Þórhallur hafði lýst, og ítrekuðum fyrirspurnum var ekki svarað.
Eftir að ársreikningnum var formlega skilað, 12. september, þá baðst Þórhallur afsökunar á því að hafa ekki skilað reikningunum fyrr, og svaraði fyrirspurninni efnislega, eins og hann sagðist ætla að gera innan nokkurra daga í marsmánuði. „Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki sent þér ársreikninginn eins og til stóð fyrr, en hann er hér meðfylgjandi. Beðið var eftir að Ríkisendurskoðun myndi senda hann til RSK, en hann var móttekinn 12. september 2017 og er birtur þar opinberlega í ársreikningaskrá með öllum upplýsingum í framhaldinu,“ sagði Þórhallur.
Hann segir að stjórn Lindarhvols ehf. hafi gert samning við Íslög ehf. um að annast m.a. þjónustu vegna umsýslu, fullnustu og sölu, á þeim stöðugleikaeignum sem Lindarhvoli var falin umsýsla með. „Sú þjónusta innfelur daglegan rekstur, lögfræðiaðstoð, umsjón og samningagerð, útlagðan kostnað o.s.frv. Vinnan er unnin af lögmönnum og öðru starfsfólki Íslaga ehf. Var það m.a. gert með vísan til þess að lögmenn stofunnar þ.á.m. Steinar Þór Guðgeirsson hrl. kom að gerð stöðugleikasamninganna við þau slitabú sem inntu þau af hendi auk þess að hafa haft umsjón með móttöku og daglegum rekstri þessara eigna, fyrst í umboði Seðlabanka Íslands og svo í umboði ríkissjóðs. Lögmenn stofunnar þekkja því vel forsögu málsins sem og einstakar eignir. Stjórn Lindarhvols taldi einnig mjög mikilvægt að gætt væri að samfellu við meðferð og rekstur þessara eigna, sem var ætlaður mjög skammur tími til að leysa úr verkefninu,“ segir Þórhallur. Ekki liggur fyrir hvenær eignasölu Lindarhvols lýkur.
Samkvæmt ársreikningnum þá nam rekstrarkostnaður Lindarhvols 56,5 milljónum í fyrra.
Óhætt er að segja að skattgreiðendur eigi mikla hagsmuni í starfsemi Lindarhvols og að þar sé vandað til verka við hámarka virði eigna og annast faglega eignaumsýslu.
Miklar eignir
Í fang ríkisins, eftir uppgjör slitabúa föllnu bankanna, komu eignir upp á 384,3 milljarða króna, mest munaði þar um 95 prósent eignarhlut í Íslandsbanka og veðskuldabréf og afkomuskiptasamning vegna Arion banka, upp á samtals ríflega 105 milljarða króna.
Aðrar eignir nema, þar á meðal hlutafjáreignir, lán og aðrar eignir, nema tæplega 100 milljörðum króna. Allt laust fé sem borist hefur félaginu rennur inn á reikning félagsins hjá Seðlabanka Íslands, samkvæmt greinargerð sem skilað var til Alþingis á dögunum.
Í greinargerðinni segir að samtals hafi um 140 milljarðar króna runnið inn á reikninginn í Seðlabankanum frá því árið 2016. „Frá því í febrúar 2017 og fram til ágústloka hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn numið 56.448 milljónum króna. Staðan á reikningnum þann 3. febrúar var 6.641 milljón króna. Alls hefur 58.700 milljónum verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda á tímabilinu, skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands var greitt upp að fullu en eftirstöðvar þess námu 28,5 ma.kr. Þá voru um 30 ma.kr. ráðstafað til uppkaupa á skuldabréfaflokknum RIKH 18 sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar fjármálastofnana. Samandregið frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað í upphafi árs 2016 og til og með 25. ágúst 2017 hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn ásamt greiðslum inn á reikninga dótturfélaga numið samtals ríflega 140 milljörðum króna. Þar af var 17 milljörðum króna ráðstafað til ríkissjóðs til að mæta töpuðum bankaskatti og um 120 milljörðum króna hefur verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda,“ segir í greinargerðinni.