Sjóður 9 skaut aftur upp kollinum í fjölmiðlaumfjöllun í síðustu viku þegar Stundin, í samstarfi við Reykjavik Media og breska dagblaðið The Guardian, birti umfjöllun um sölu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á eign sinni í sjóðnum daganna fyrir bankahrunið. Bjarni hefur síðar sagt að hann hafi ekki búið yfir neinum trúnaðarupplýsingum þegar hann seldi eignina og að um sé að ræða alvarlegar ásakanir sem í felist dylgjur um að hann hafi misnotað stöðu sína og stundað innherjasvik. Hvergi í umfjöllun umræddra fjölmiðla er því þó haldið fram að Bjarni hafi framið lögbrot með atferli sínu.
En hvað var Sjóður 9? Og er það rétt sem Bjarni og stuðningsmenn hans halda fram að það hafi verið á allra vitorði á þeim tíma sem hann seldi að Glitnir, sem rak sjóðinn, hafi staðið á brauðfótum?
Herjað á sparnað almennings
Á árunum fyrir hrun ráku allir stóru bankarnir, og mörg minni fjármálafyrirtæki, peningamarkaðssjóði. Þeir fjárfestu í verðbréfum, að mestum hluta íslenskum skuldabréfum, og hart var lagt að almenningi í landinu að geyma sparnað sinn í þessum sjóðum, oft með ræðum um að þeir væri jafn öruggir og innlán. Eini munurinn væri sá að ávöxtun peningamarkaðssjóða væri mun meiri en á innlánsreikningum.
Sá peningamarkaðssjóður sem Glitnir rak hét Sjóður 9. Upphaflega var eignasamsetning hans nokkuð íhaldssöm. Árið 2005 samanstóð eignasafn hans aðallega af ríkistryggðum verðbréfum eða bréfum útgefnum af bönkum og sparisjóðum. Engin verðbréf eignarhaldsfélaga voru í sjóðnum. Það átti hins vegar eftir að breytast mikið á næstu árum.
Í lok árs 2007 var verðmæti verðbréfasafns sjóðsins orðið um 82 milljarðar króna. Það hafði verið um 18,4 milljarðar króna í lok árs 2005. Það hafði því margfaldast að stærð á örfáum árum. Eignasamsetningin hafði líka breyst mikið. Í byrjun árs 2008 voru verðbréf eignarhaldsfélaga 65 prósent af eignum Sjóðs 9. Þegar leið á það ár varð það hlutfall enn hærra. Í lok ágúst, nokkrum vikum fyrir hrunið, voru þau 86 prósent af heildarverðbréfaeign sjóðsins.
Keyptu heilu skuldabréfaflokkanna af eigendum bankans
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, sem kom út í apríl 2010, kom fram að tveir sjóðir í eigu rekstarfélags Glitnis, Sjóður 1 og Sjóður 9, voru að jafnaði með yfir 50 prósent af heildareign sjóðanna í bréfum frá tveimur útgefendum, Stoðum/FL Group og Baugi. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að þessir tveir sjóðir hafi verið látnir kaupa upp heilu skuldabréfaflokkanna frá þessum tveimur aðilum. Þegar Glitnir féll nam virði bréfa frá Baugi í Sjóði 9 til dæmis 12,9 prósent af heildarsamsetningu hans, eða 12,5 milljarða króna. Um 22 milljarðar voru þar í bréfum frá Stoðum/FL Group.
Þá voru dæmi um að sjóðir innan Glitnis sjóða hafi átt viðskipti sín á milli með „óskráð og illseljanleg bréf“. Eitt slíkt dæmi voru viðskipti með Baugsbréf þann 28. desember 2007, þegar Sjóður 9 var látinn selja bréf frá Baugi á nokkra milljarða króna til fagfjárfestasjóðs í eigu Glitnis. Strax eftir áramótin keypti Sjóður 9 síðan bréfin til baka. Ástæðan var sú að sjóðirnir birtu eignarsafn sitt opinberlega líkt og það var í árslok. Til að risaeign Sjóðs 9 í Baugsbréfum myndi ekki sjást á yfirlitinu voru þau geymd í nokkra daga í öðrum sjóði en síðan færð til baka.
Bæði félögin sem minnst er á hér að ofan, Baugur Group og Stoðir/FL Group, lutu stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans. Þessi hópur var einnig kjölfestueigandi í Glitni á þessum tíma. Stór hluti annarra útgefenda skuldabréfa sem Sjóður 9 keypti var auk þess með mikil tengsl við Glitni annað hvort í gegnum eignatengsl eða stórar áhættuskuldbindingar.
Samandregið þá var Sjóður 9 stútfullur af skuldabréfum útgefnum af félögum sem annað hvort tengdust helstu eigendum Glitnis eða stærstu skuldurum bankans. Hann var nokkurs konar ruslakista sem var síðan seld almenningi sem sparnaðarleið með mikilli ávöxtun.
Sjóðnum lokað þegar þjóðnýta átti Glitni
Eftir að ríkið tilkynnti þann 29. september 2008 að það ætlaði sér að taka 75 prósent eignarhlut í Glitni var ljóst að Stoðir/FL Group, stærsti eigandi félagsins, myndi fara í þrot. Þess utan hafði verið ljóst um nokkurn tíma að stærsti eigandi Stoða/FL Group, Baugur Group, stæði afar illa.
Þetta skapaði gríðarleg vandamál fyrir Sjóð 9, enda var, líkt og áður sagði, að jafnaða yfir 50 prósent af heildareign hans bréf frá þessum tveimur útgefendum. Sjóðnum var því lokað tímabundið þennan sama dag, 29. september.
Á meðan að sjóðirnir voru lokaðir, og hlutdeildarskírteinishafar gátu ekki tekið eign sína út úr þeim, var ákveðið á stjórnarfundi í Glitni að bankinn myndi kaupa öll skuldabréf útgefin af Stoðum/FL Group úr tveimur sjóðum bankans, Sjóði 1 og Sjóði 9, áður en þeir myndu opna aftur.
Lárus Welding, þáverandi forstjóri bankans, sagði frá því í skýrslunni að hann hafi fundað með Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Árna Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, um þessi uppkaup, enda var ríkið við það að verða eigandi að bankanum á þessum tíma. Hann sagði að í símtali við Geir „hefði komið fram að Geir teldi þetta erfitt mál en hann hefði gefið í skyn: „jú, ætli það verði ekki að gera þetta.“ Þá hefði Árni ekki sett sig upp á móti málinu. Bréfin voru keypt út á 10,7 milljarða króna.
Lögð áhersla á að„þetta yrði leyst“
Lárus sagði ennfremur að „Tryggvi Þór [Herbertsson, þá efnahagsráðgjafi forsætisráðherra] var búinn að sitja líka fund með okkur um daginn og Illuga [Gunnarssyni, þá þingmanni Sjálfstæðisflokks sem sat í stjórn Sjóðs 9] stjórnarmanni í þessu í sjóðunum. Illugi lagði mikla áherslu á að þetta yrði leyst og þetta er samþykkt af stjórninni og svo gert.“
Geir sagði fyrir nefndinni að hann hafi talið Lárus vera að kynna málið fyrir sér og Árna, ekki leita eftir samþykki eða neitun, og til að kanna hvort þeir hefðu athugasemdir við þá leið sem var farin. Geir viðurkenndi þó að „Ef við hefðum sagt: Nei, við viljum þetta alls ekki, þá býst ég við að þeir hefðu hugsað sig tvisvar um áður.“
Sjóður 9 var loks opnaður aftur 1. október 2008. Þá var búið að kaupa öll skuldabréf Stoða/FL Group út úr þeim. Virði eigna hans lækkaði um sjö prósent vegna þessa.
Nokkrum dögum síðar létu stjórnendur Glitnis kaupa hlutdeildarskírteini í sjóðnum fyrir 33 milljarða króna til að mæta útflæði. Það var því ljóst að ansi margir voru að taka peninganna sína út úr þessum sjóðum, Sjóði 1 og Sjóði 9, á þessum dögum sem þeir voru opnaðir aftur. Þeirra á meðal var Bjarni Benediktsson sem færði eignir upp á um 50 milljónir króna úr honum í aðra sjóði. Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna og viðskiptafélagi, seldi hlutdeildarskírteini sín og félags í sinni eigu á þessum síðustu dögum áður en neyðarlög voru sett í landinu. Hann seldi fyrir 1.120 milljónir króna. Bjarni sagði í leiðtogakappræðum á RÚV í gær að hann hafi aldrei tekið peninga út úr bankanum, heldur fært eign sína yfir í aðra peningamarkaðssjóði. Það er ekki nákvæmt þar sem Bjarni færði eign sína yfir í Sjóði 5 og 7 hjá sjóðum Glitnis. Þeir sjóðir voru öruggustu sjóðir í rekstri Glitnis, og fjárfestu eingöngu í ríkisskuldabréfum, ekki í skuldabréfum einkahlutafélaga.
Á þessum tíma lá fyrir að ríkið ætlaði að leggja Glitni til 84 milljarða króna í nýtt eigið fé og eignast 75 prósent hlut í bankanum. Ekkert lá fyrir opinberlega um tilurð neyðarlaganna eða að bankarnir þrír væru allir svo illa staddir að þeir myndu falla í vikunni á eftir. Það er þó það sem gerðist. Þann 6. október 2008 voru sett neyðarlög í landinu. Og daginn eftir tók Fjármálaeftirlitið yfir Glitni.
Fjármálaeftirlitið harðlega gagnrýnt
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fær Fjármálaeftirlitið harðar ákúrur vegna eftirlitsleysis með peningamarkaðssjóðum. Þar var meðal annars bent á að eitt til tvö stöðugildi hafi átt að fylgjast með alls 94 sjóðum bankanna, eftirlitið hafi ekki beitt þeim valdheimildum sem það gat og hefði ekki brugðist við brotum á lögum og reglum um starfsemi sjóðanna. Einn starfsmaður Fjármálaeftirlitsins sagði fyrir nefndinni það ekki „hafa tíðkast“ að beita viðurlögum og að „forstjóri Fjármálaeftirlitsins [Jónas Fr. Jónsson] hafi verið mjög áhugalaus um allt sem við kom eftirliti með sjóðum.“
Þá segir í skýrslunni að eini starfsmaður Fjármálaeftirlitsins „í eftirliti með sjóðum fór í langt leyfi í nóvember 2006 [...]og fram í maí 2007. Enginn var ráðinn í hans stað í heilt ár og voru sjóðirnir því í raun sem næst án eftirlits á því tímabili. Slíkt verður að teljast alvarleg vanræksla af hálfu Fjármálaeftirlitsins.“ Í ljós þess hversu atkvæðalítið Fjármálaeftirlitsins var „gagnvart sjóðunum má spyrja hvort að starfsmenn stofnunarinnar hafi gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í starfsemi þeirra.“
Eina málið sem skoðað var og átti sér stað eftir hrun
Það var þó ekki bara Sjóður 9 og Glitnir sem voru á gráu svæði með starfsemi sína. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að peningamarkaðssjóðum rekstrarfélaga gömlu bankanna hafi öllum verið stýrt af stjórnendum bankanna sjálfra, þeir keypt heilu útgáfur verðbréfa af félögum tengdum bönkunum, beitt blekkingum í markaðssetningu og endurfjármagnað nánast alltaf skuldabréfaflokka þannig að „starfsemi peningamarkaðssjóða virðist fremur hafa svipað til hefðbundinnar útlánastarfsemi banka.“
Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, og Jónas Fr. Jónsson, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, stóðu frammi fyrir þrýstingi um að taka ákvörðun um að nýju bankarnir þrír, sem reistir voru á grunni þeirra gömlu, keyptu út verðlaus skuldabréf úr peningamarkaðssjóðunum þrátt fyrir að engin heimild væri í neyðarlögunum fyrir aðkomu ríkisins að uppgjöri peningamarkaðssjóða. Starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins þótti afskipti viðskiptaráðuneytisins að uppkaupum bréfa úr sjóðunum „mjög óeðlileg“, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en uppkaup á bréfum úr peningamarkaðssjóðum eftir hrun bankanna er eina málið sem nefndin skoðaði sem átti sér stað eftir bankahrun. Á endanum voru það stjórnir nýju bankanna sem tóku ákvarðanir um uppkaupin.
Rannsóknarnefndin ákvað auk þess að vísa málum tengdum peningamarkaðssjóðum stóru bankanna til athugunar hjá embætti sérstaks saksóknara. Í kjölfarið ákvað Illugi Gunnarsson að víkja af þingi á meðan að málin yrðu skoðuð í ljósi þess að hann hafði setið í stjórn Sjóðs 9. Um einu og hálfu ári síðar tók hann aftur sæti á þingi eftir að lögfræðiálit sem unnið hafði verið fyrir Íslandssjóði, nýtt rekstrarfélag utan um þá gömlu sjóði Glitnis sem lifðu hrunið af, sagði að hvorki lög né reglur hefðu verið brotnar í starfsemi Sjóðs 9.
Að endingu keyptu nýju bankarnir þrír, þá í eigu ríkisins, skuldabréf úr sjóðum föllnu bankanna þriggja fyrir um 130 milljarða króna. Um 95 prósent af þeirri upphæð fór í að kaupa út ónýt skuldabréf úr sjóðum Glitnis og Landsbanka. Í staðinn fengu sjóðsfélagar mun hærri endurheimtur en þeir hefðu átt að fá á kostnað nýju bankanna og að einhverju leyti skattgreiðenda, sem í dag eiga Landsbankann og Íslandsbanka að fullu.
Vildu láta gömlu bankanna sitja uppi með bréfin
Um þann gjörning var sannarlega ekki eining. Neyðarlögin tryggðu enda ekki eignir í peningamarkaðssjóðum heldur gerðu einungis innstæður að forgangskröfum. Þeir sem höfðu fjárfest í peningamarkaðssjóðum höfðu keypt hlutdeild í skuldabréfum áhættusækinna fyrirtækja sem höfðu skilað mun meiri ávöxtun en innstæðureikningar, áður en þau brunnu upp í hruninu.
Allir peningamarkaðssjóðirnir voru í gríðarlegum vanda þegar bankahrunið varð. Og þeir sem áttu hlutdeildarskírteini í þeim, þar á meðal margt venjulegt fólk sem taldi sig hafa verið platað til að setja sparnað sinn inn í þá með röngum upplýsingum um áhættusækni sjóðanna, voru brjálaðir. Það leiddi til þess að Björgvin G. Sigurðsson lýsti því yfir á blaðamannafundi 8. október 2008 að leitað yrði leiða til að tryggja peningamarkaðssjóði.
Hugmyndin á þeim tíma var að ríkið keypti skuldabréf banka út úr sjóðunum til að takmarka tjón þeirra. Að auki átti ríkið að kaupa „illseljanleg bréf“ sem flest voru útgefin af félögum tengdum bönkunum sjálfum. Þau eru nánast undantekningarlaust gjaldþrota eða hafa gengið í gegnum nauðasamninga í dag með meðfylgjandi tapi fyrir kröfuhafa þeirra. Jón Þór Sturluson, þáverandi aðstoðarmaður Björgvins og núverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, kallaði til Jón Steinsson, sem starfaði sem ráðgjafi viðskiptaráðherra, og hófu þeir samskipti við starfsmenn Fjármálaeftirlitsins og ýmis ráðuneyti um hvernig ætti að slíta sjóðunum.
Jón Þór lagði mikla áherslu á að við slit sjóðanna yrði sama hlutfall greitt úr þeim öllum og vildi upphaflega að föllnu bankarnir keyptu bréf úr þeim. Skilanefndir þeirra tóku það ekki í mál enda myndi það skerða endurheimt kröfuhafa þeirra. Í skýrslunni segir síðan af tölvubréfi Jóns Þórs til starfsmanns Fjármálaeftirlitsins þann 15. október, en af því megi „ráða að ríkið kæmi ekki frekar að málinu með fjárstuðningi heldur hefði Björgvin G. Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson afráðið að nýju bankarnir keyptu skuldabréf viðskiptabankanna þriggja úr sjóðunum.“ Jón Þór vildi ekki kannast við þessi samskipti í skýrslutökum hjá rannsóknarnefndinni.
Kostar alvöru peninga
Í skýrslunni sagði einnig að ljóst hafi verið að viðskiptaráðuneytið hafi þrýst á skilanefndir föllnu bankanna til að kaupa hluta bréfanna úr sjóðunum en hafi ekki orðið ágengt. Eftir að það var fullreynt, þann 16. október, þá sendi Jón Þór tölvupóst til Jóns Steinssonar og Bolla Bollasonar, þá ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, þar sem sagði að „allt sem við gerum gagnvart peningamarkaðssjóðunum mun því kosta alvöru peninga.“
Nokkru síðar óskaði Jón Þór eftir því við Fjármálaeftirlitið að það boðaði til fundar með nýju bönkunum þremur til að samræma útgreiðslur úr peningamarkaðssjóðum. Þeirri málaleitan hafnaði Fjármálaeftirlitið og við skýrslutöku sögðu starfsmenn stofnunarinnar að „þeim hafi þótt þetta mjög óeðlileg afskipti ráðuneytisins af málinu.“
Á endanum voru skuldabréfin keypt út úr sjóðunum á miklu yfirverði. Alls greiddi Glitnir um 56,7 milljarða króna fyrir bréf úr sínum sjóðum, Landsbankinn greiddi 66,2 milljarða króna fyrir bréf úr sínum sjóðum og Kaupþing á sjöunda milljarð króna fyrir bréf úr sínum sjóðum. Alls greiddu nýju bankarnir um 130 milljarða króna fyrir verðlítil eða verðlaus skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðunum. Sjóðsfélagar fengu eignir sínar greiddar, sem voru ekki með neinum hætti tryggðar með lögum eða yfirlýsingum, að mestu, en endurgreiðslur voru á bilinu 60,2-85,3 prósent.