Mynd: Birgir Þór Harðarson

Skapandi eyðilegging í hægra hólfi stjórnmála

Frjálslyndir miðjuflokkar eru við það að detta út af þingi og þjóðernissinnaðir popúlistaflokkar sem sækja fylgi til hægrisinnaðra kjósenda virðast ætla að taka þeirra stað. Umrótið sem hefur verið til vinstri og á miðju á undanförnum árum er nú að eiga sér stað í hægra hólfi stjórnmála.

Kosningabaráttan hefur hingað til einkennst af persónuátökum og nýjum öngum á gömlum hneykslismálum þeirra stjórnmálamanna sem hafa stýrt þjóðarskútunni þorra síðustu ára. Algjör breyting virðist ætla að verða á samsetningu Alþingis og umboði stjórnmálaflokka miðað við skoðanakannanir. Síðustu ár hefur umrótið fyrst og síðast verið í vinstra hólfi stjórnmálanna eða á því sem hægt er að kalla hina frjálslyndu miðju. Þar hafa ný framboð, stofnuð eftir árið 2012, verið að taka af hefðbundnu flokkunum sem höfðu fram á undanfarin ár haft nokkuð öruggt tilkall til atkvæða flestra kjósenda í sínu hólfi. Píratar tóku hins vegar frá Vinstri grænum og Samfylkingunni og bæði Björt framtíð og Viðreisn tóku umtalsvert frá Samfylkingu, sem var við það að hverfa á þingi í kosningunum fyrir ári.

Nú, innan við tólf mánuðum síðar, er staðan gjörbreytt. Viðreisn og Björt framtíð munu ekki ná inn þingmönnum samkvæmt skoðanakönnunum. Píratar, sem um tíma mældust langstærsti flokkur landsins, mælast nú með um og undir tíu prósent fylgi. Vinstrifylgið er að skila sér til Vinstri grænna sem eru auk þess að ná nær öllum öðrum kjósendum sem geta hugsað sér að kjósa frá miðju til vinstri.

Ástæða þess virðist gríðarlegt persónufylgi Katrínar Jakobsdóttur. Hún virðist hala að atkvæði út á það að fólk treysti henni og hafi engar áhyggjur af því að hún muni rata í fjármálaleg hneykslismál, standa fyrir leyndarhyggju eða valdníðslu sem það hefur upplifað að ýmsir stjórnmálamenn með valdatauma hafi orðið uppvísir að á undanförnum árum. Samfylkingin stefnir síðan að því að þrefalda sig að stærð. Og er á góðri leið þangað samkvæmt könnunum. Slíkur árangur yrði að teljast mjög góður í ljósi aðstæðna þótt flokkurinn sé enn órafjarri því að vera að þeirri stærð sem hann einu sinni var, og var stofnaður til að verða.

Umrótið á hægri vængnum

Umrótið nú er í hægra hólfi stjórnmálanna. Þar eru kerfisvarnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem hafa oftast nær stýrt Íslandi og mótað þau kerfi sem við rekum samfélagið okkar á, báðir í feykilega miklum vandræðum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er búinn að kljúfa Framsóknarflokkinn og nýi popúlíski flokkurinn hans, sem er fyrst og síðast stofnaður í kringum persónu Sigmundar Davíðs og hefur það markmið að koma honum aftur til valda og áhrifa, er ítrekað að mælast með meira fylgi en Framsókn í könnunum.

Flokkur fólksins, annar popúlískur flokkur sem leggur höfuðáherslu á risastór og kostnaðarsöm kosningaloforð sem eru ekki að neinu leyti útfærð, og hefur legið undir ámæli fyrir að boða útlendingaandúð, hefur líka verið að rífa fylgi af þessum gömlu valdastoðum Íslands. Staðan í dag virðist vera sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn stefna í verstu útreið sína í kosningum í sögunni. Samanlagt fylgi þeirra samkvæmt nýjustu Kosningspá Kjarnans er 28,6 prósent. Í kosningunum fyrir ári fengu þeir 40,5 prósent atkvæða. Kannanir sýna að flokkarnir tveir muni tapa tíu til tólf þingmönnum. Og að áðurnefndir popúlískir flokkar, sem líka hafa íhaldssamar þjóðernisl-hneigðir, séu að fara að taka þá þingmenn.

Verði það niðurstaða kosninga mun það að öllum líkindum þýða að engin flokkanna fjögurra muni rata í ríkisstjórn. Slík verði mynduð frá vinstri að miðju undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Það sem Andrés Jónsson almannatengill kallaði skapandi eyðileggingu í hægra hólfi stjórnmálanna í nýjasta sjónvarpsþætti Kjarnans verður lykilbreyta í að leiða til þeirrar niðurstöðu. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinn hér að neðan.

Það mun verða reynt að kaupa atkvæði

Það á þó margt eftir að breytast á næstu vikum og loforðaflaumur stjórnmálaflokkanna mun verða umfangsmeiri en líkast til nokkru sinni áður. Við því má búast að Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar muni beita fyrir sig sambærilegum leiðum og þegar formaðurinn vann stórsigur í kosningunum 2013 með því að lofa að gefa hluta Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán peninga. Sigmundur Davíð hefur þegar sýnt aðeins á spilin. Í viðtölum sem hann veitti sama dag og hann sagði sig úr Framsóknarflokknum sagði Sigmundur Davíð að það þyrfti að endurskipuleggja fjármálakerfið á Íslandi, gera upp við eldri borgara og aðra sem eigi „inni hjá okkur“ og að ráðast þyrfti í stórsókn í byggðamálum. Í leiðtogaumræðum, sem fram fóru á RÚV í gær, boðaði hann að kosningaáherslur flokks hans verði kynntar á föstudag.

Við því má búast að í endurskipulagningu bankakerfisins felist meðal annars að ríkið taki yfir Arion banka. Þorsteinn Sæmundsson, sem fylgdi Sigmundi Davíð yfir í hinn nýja flokk sem stofnaður var um persónu forsætisráðherrans fyrrverandi, hefur raunar þegar opinberað þessa stefnu flokksins á fundum sem hann hefur talað á. Sigmundur Davíð staðfesti það sjálfur í ræðu á stofnfundi Miðflokksins í gær, þar sem hann sagði að ríkið ætti að nýta sér forkaupsrétt sinn á Arion banka.

Næsta skref í endurskipulagningunni verður síðan að „tappa af“ eigin fé bankanna þriggja, sem er samanlagt nú tæplega 640 milljarðar króna. Það fé myndi nýtast m.a. í að greiða þeim sem Sigmundur Davíð telur að „eigi inni hjá okkur“ í skiptum fyrir að þeir hinir sömu kjósi hann aftur til valda. Hvaða aðferðarfræði á að beita við þetta mun koma í ljós í lok viku.

Þá vakti athygli að Samtök iðnaðarins, sem nú er stýrt af Sigurði Hannessyni, einum nánasta samstarfsmanni Sigmundar Davíðs á undanförnum árum, birti í síðustu viku ítarlega og greinargóða skýrslu um innviðafjárfestingar. Þar kom fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf í innviðum væri 372 milljarðar króna. Viðmælendur Kjarnans úr stjórnmálamannastétt eru margir vissir á því að þetta plagg verði ein af undirstöðunum í málflutningi Sigmundar Davíðs á næstu vikum.

Sjálfstæðisflokkurinn í endurtekinni kosningabaráttu

Sjálfstæðisflokkurinn á líka eftir að reyna að ná vopnum sínum á lokaspretti kosningabaráttunnar. Hingað til hefur það gengið erfiðlega. Flokkurinn hefur sigið í könnunum frekar en hitt og augljóst að sérframboð Sigmundar Davíðs og Flokkur fólksins eru að taka af honum fylgi.

Eins og staðan er í dag eru langmestar líkur á því að Katrín Jakobsdóttir verði næsti forsætisráðherra þjóðarinnar. Það getur þó margt breyst á þeim vikum sem eru til stefnu.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins hingað til hefur einkennst af því að vera endurtekning á því sem flokkurinn gerði í fyrra, og virkaði þá feikilega vel. Þ.e. að leggja áherslu á stöðugleika, vera með fókusinn á Bjarna Benediktsson að baka kökur og keyra á hræðsluáróðri gegn vinstri stjórn. Í fyrra var líka lykilbreyta í kosningabaráttu Sjálfstæðismanna, sérstaklega því sem mætti kalla hinni óopinberu baráttu fylgismanna flokksins, sem fer fram í vari nafnleysis og er mun rætnari en opinber kosningaáróður flokksins, að ráðast gegn Pírötum. Þá voru þeir enda að mælast sem væntanlegt risaafl og um tíma leit út fyrir að ómögulegt yrði að mynda ríkisstjórn án þeirra. Staðan í dag er hins vegar gjörbreytt og Píratar virðast ætla að verða með í kringum tíu prósenta fylgi. Og ekki sú ógn sem þeir voru við ríkjandi kerfi og þeir voru fyrir ári síðan.

Þessi taktík flokksins virðist ekki vera að virka. Það er erfitt að segjast vera ímynd stöðugleika þegar síðustu þrjár ríkisstjórnir sem flokkurinn hefur átt aðild að, sem allar hafa einungis átt Sjálfstæðisflokkinn sameiginlegt, hafa sprungið áður en kjörtímabilinu lauk. Bjarni er líka mun laskaðri sem stjórnmálamaður nú en fyrir ári síðan. Ákvörðun hans um að birta ekki tvær skýrslur sem voru tilbúnar fyrir síðustu kosningar, og áttu skýrt erindi við kjósendur, dró úr trausti til hans. Það gerði uppreist æru-málið sem sprengdi síðustu ríkisstjórn líka. Nýleg umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna í kringum hrunið, sem byggir á nýjum upplýsingum um þau viðskipti, er enn eitt vandamálið fyrir flokkinn að glíma við.

Sjálfstæðisflokkurinn náði mjög öflugum endaspretti í síðustu kosningabaráttu. Þar hjálpaði myndun Lækjabrekkukvartettsins, sem samanstóð af þáverandi stjórnarandstöðuflokkum og gaf út yfirlýsingu um samstarfsvilja að loknum kosningum, mjög til. Þá gat Sjálfstæðisflokkurinn, sem býr að því að vera með mjög öflugt flokkastarf og getur kallað til mikið magn af fólki til að hringja út í kjósendur, bent á að það yrði vinstri stjórn ef fólk myndi ekki kjósa hann. Þetta skilaði Sjálfstæðisflokknum á endanum 29 prósent atkvæða og í ríkisstjórn.

Nú er staðan hins vegar verri en hún var í fyrra. Helsta ógnin er ekki vinstri stjórn heldur aðrir flokkar sem eru að fiska í sömu atkvæðatjörnum og Sjálfstæðisflokkurinn. Og ef flokkurinn bregst ekki við þeirri stöðu gæti niðurstaðan í lok mánaðarins, þegar talið verður upp úr kjörkössunum, orðið sú versta í sögu flokksins. Verri en árið 2009, þegar Sjálfstæðisflokknum var refsað fyrir hrunið og einungis 23,7 prósent þjóðarinnar kusu hann.

Framsókn falbýður sig til vinstri

Framsóknarflokkurinn er augljóslega í gríðarlegum vanda. Þótt að fyrir lægi að Sigmundur Davíð myndi taka fylgi af flokknum þegar hann klyfi sig frá bjuggust fáir Framsóknarmenn við því að hann myndi mælast stærri en þessi rótgrónni 100 ára gamli flokkur í hverri könnuninni á fætur annarri.

Framsóknarflokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar og Lilju Alfreðsdóttur er allt öðruvísi en sá sem Sigmundur Davíð stýrði frá 2009 til 2016. Hann er með mildari yfirsýn og í bréfi sem Sigurður Ingi sendi flokksmönnum nýverið kom skýrt fram að stefnan væri sett á þátttöku í félagshyggjustjórn eftir kosningar, ekki íhaldsstjórn með Sjálfstæðisflokki.

Endurkoma Helga Hrafns Gunnarsson í stjórnmálin breytir umtalsvert skoðun ýmissa annarra flokka um hversu stjórntækir Píratar séu.

Í bréfinu sagði hann að kjós­endur vilji trausta stjórn­mála­menn og flokka sem sýni ábyrgð í störfum sín­um. Helstu mál­efna­á­herslur Fram­sóknar traust og stöð­ug­leiki, ásamt upp­bygg­ingu í heil­brigð­is- og mennta­málum og stór­bættu sam­göngu­kerfi. Þá sagði Sigurður Ingi að hann vilji að kjör þeirra sem lakast standi verði bætt og nefndi þar sér­stak­lega aldr­aða, öryrkja og börn. Mesta athygli vakti að Sigurður Ingi boðaði end­ur­bætur á skatt­kerfinu með létt­ari skatt­byrði á fólk með milli- og lægri tekjur en hækka skatta á háar tekj­ur. Þar var um skýra aðlögun að Vinstri grænum að ræða og tilboð um að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn að vera millistykkið í ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur eftir kosningar.

Þessi tónn var endurtekinn í leiðtogaumræðunum í gær. Þar virtist sem að Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi væru að máta flokka sína saman í skattamálum.

Hrædd við skipulag Pírata

Innan Vinstri grænna er mikill vilji til þess að mynda ríkisstjórn með Sigmundar-lausum Framsóknarflokki. Það er enda oft sagt að hluti flokksmanna Vinstri grænna, sérstaklega á landsbyggðinni, séu í raun lítið annað en Framsóknarmenn sem séu í öðrum flokki. Draumaríkisstjórn forystufólksins í Vinstri grænum yrði því Framsókn og helst Samfylkingu, samkvæmt viðmælendum Kjarnans. Viðreisn myndi líka ganga í stað Samfylkingar ef sá flokkur myndi ná að verða stærstur á frjálslyndu miðjunni líkt og hann var í síðustu kosningum, en ólíklegt er að hann nái að verða núna miðað við kannanir.

Draumsýn Vinstri grænna virðist hins vegar ekki ætla að ganga upp eftir klofninginn í Framsókn. Flokkurinn mun ekki, miðað við stöðuna eins og hún er í dag, ná nægilega mörgum þingmönnum inn til að koma vinstri-miðjustjórninni í meirihluta. Þess vegna þurfa Vinstri græn að horfa til Samfylkingar og Pírata eins og staðan er núna, ef flokknum er alvara um að forðast í lengstu lög samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, líkt og lykilfólk innan hans segir í einkasamtölum þótt að annar og óræðari tónn sé sleginn opinberlega.

Það liðkar fyrir að Birgitta Jónsdóttir verður ekki í framboði fyrir Pírata. Það er illa falið leyndarmál að innan Vinstri grænna er beinlínis að finna persónulega óvild í hennar garð frá fólki í efstu lögum og lítill sem enginn vilji er fyrir því að vinna með henni. Helgi Hrafn Gunnarsson, sem er nú kominn aftur í framboð, er allt annars eðlis. Hann er vel liðinn og virtur hjá stjórnmálamönnum þvert á flokka. Auk þess þykja aðrir í framvarðasveit Pirata, sérstaklega Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hafa vaxið mjög sem stjórnmálamenn á undanförnum misserum.

Það sem Vinstri grænir hræðast hins vegar er skipulag Pírata. Sá flati strúktúr sem er til staðar gerir það að verkum að aðstæður eins og þær sem komu upp hjá Bjartri framtíð í haust, þar sem ríkisstjórnarsamstarfi var slitið á kvöldfundi með atkvæðagreiðslu sem 57 manns tóku þátt í.

Það er því alls ekki útilokað þótt það sé ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn, þótt að verði mjög laskaður, muni eiga möguleika á því að setjast í ríkisstjórn með Vinstri grænum, annað hvort einn eða með einum flokki til. Einn viðmælandi innan úr kjarna Vinstri grænna orðaði það þó þannig að af slíku yrði aldrei nema að Sjálfstæðisflokkurinn myndi að öllu leyti fallast á skattastefnu Vinstri grænna og að líkurnar á samstarfi flokkanna nú væru enn minni en þær voru eftir kosningarnar í fyrra, þegar þær voru þó sáralitlar.

Frjálslyndið á leið út, þjóðernishyggjan á leið inn

Það má segja að kosningarnar í fyrra hafi verið að einhverju leyti verið sigraðar af frjálslyndu miðjuflokkunum. Viðreisn, sem bauð fram í fyrsta sinn, fengu 10,5 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Björt Framtíð, sem mældist vart inni síðasta árið fyrir kosningarnar 2016, náði að hnoða sig til lífs með andstöðu við búvörusamninga og endaði með 7,2 prósent atkvæða. Báðir flokkarnir, með sína samanlagt ellefu þingmenn, komust að lokum í ríkisstjórn og má  segja að þeir hafi við það fengið áhrif langt umfram atkvæðavægi. Sú ríkisstjórn varð þó fljótt sú óvinsælasta í Íslandssögunni og hvert málið á fætur öðru rak á fjörur hennar sem reyndust frjálslyndu flokkunum tveimur erfið. Þar má nefna áðurnefnt skýrslumál, skipan dómara við Landsrétt og svo uppreist æru-málið sem á endanum sprengdi ríkisstjórnina.

Ákvörðun Bjartrar framtíðar að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu hefur ekki skilað flokknum, né Viðreisn, neinu samkvæmt skoðanakönnunum. Hvorugur þeirra mælist með mann á þingi samkvæmt síðustu kosningaspá og samanlagt fylgi flokkanna tveggja mælist 6,5 prósent. Það verður mjög á brattann að sækja fyrir þá ef þeir ætla sér að vera áfram afl á Alþingi á næsta kjörtímabili.

Flokkar Óttarrs Proppé og Benedikts Jóhannessonar koma mjög laskaðir út úr stysta meirihlutasamstarfi sem myndað hefur verið á Íslandi.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Samandregið þá virðist því helsta breytingin frá því í fyrra vera að kjósendur frjálslyndu miðjuflokkanna eru að halla sér frekar í átt að hefðbundnum vinstri og miðjuflokkum á borð við Vinstri græna og Samfylkingu og þjóðernis-popúlistaflokkar eru að rífa fylgi af hægri íhaldsvængnum.

Enn eru þó margir óákveðnir og eftir nægu að sækjast þar til talið verður upp úr kjörkössunum 28. október næstkomandi.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar