Mikill meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks telja að RÚV sé hlutdrægt í fréttaflutningi sínum. Alls segjast sjö af hverjum tíu Sjálfstæðismönnum og tæplega sjö af hverjum tíu Framsóknarmönnum að þeir hafi þá skoðun. Hjá kjósendum allra annarra stjórnmálaflokka er yfirgnæfandi hluti kjósenda, oftast vel yfir 90 prósent, þeirrar skoðunar að RÚV gæti hlutleysis.
Þetta kemur fram í rannsókn sem Gallup gerði á viðhorfi almennings til hlutlægni í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins tók til tímabilsins 23.-30 maí 2016. Í frétt fjölmiðlanefndar um rannsóknina kemur fram að engin sérstök ástæða hafi legið að baki því að þetta tímabil varð fyrir valinu, önnur en sú að mennta- og menningarmálaráðuneytið ákvað í maí 2016 að veita sérstakri fjárveitingu til fjölmiðlarannsókna og var hafist handa við könnunina um leið og forsendur hennar höfðu verið ákveðnar og fjárveiting tryggð.
Til stóð að fjölmiðlanefnd birti niðurstöðurnar síðar á þessu ári sem hluta af árlegu mati nefndarinnar á almannaþjónustuhlutverki RÚV. Því mati sé ekki lokið.
Fjölmiðlanefnd hafi hins vegar á síðustu dögum borist tvær beiðnir frá fjölmiðlum um að niðurstöður framangreindra fjölmiðlarannsókna verði afhentar. Fyrri beiðnin barst frá Fréttablaðinu 18. október og seinni beiðnin frá Viðskiptablaðinu 19. október. „Með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og sjónarmiða um gagnsæi og jafnræði hefur nefndin ákveðið að birta niðurstöður greininga Gallup og Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo á vef sínum, fyrr en til stóð, til upplýsinga fyrir fjölmiðla og almenning. Áréttað er að ekki er um að ræða heildarmat nefndarinnar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins.“
Ekkert í greiningu Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo bendir til þess að fleiri neikvæðar fréttir séu sagðar af Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki en öðrum flokkum.
Tveir af hverjum þremur telja RÚV gæta hlutleysis
Í könnun Gallup kom fram að 66,5 prósent aðspurðra sögðust telja RÚV almennt hlutlaust í fréttum og fréttatengdu efni sínu. Alls sögðust 33,5 prósent telja að RÚV væri hlutdrægt og þar af sagðist 5,5 prósent telja að RÚV væri að öllu leyti hlutdrægt í fréttum og fréttatengdu efni sínu.
Þeir sem voru með háskólapróf voru líklegri til að telja RÚV hlutlaust en þeir sem höfðu lokið lægri menntun og fleiri Reykvíkingar telja RÚV hlutlaust en þeir sem búa á landsbyggðinni. Þá er skýr munur á milli tekjuhópa. Þeir sem minnstar hafa tekjurnar telja að RÚV sé hlutdrægt í meira mæli en aðrir. Konur eru sömuleiðis trúaðri á hlutleysi RÚV en karlar.
Mikla athygli vekur að það eru fyrst og síðast kjósendur tveggja flokka sem voru í framboði til Alþingis í fyrra sem telja RÚV ekki gæta hlutleysis í fréttum og fréttatengdu efni sínu, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Meirihluti kjósenda beggja þeirra flokka telja að RÚV sé hlutdrægt í fréttaflutningi. Þannig segjast 71 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins telja að RÚV sé hlutdrægt og 65 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Kjósendur annarra flokka telja nær allir að RÚV gæti hlutleysis. Þannig segjast 96 prósent kjósenda Vinstri grænna telja að RÚV gæti hlutleysis, 94 prósent kjósenda Samfylkingarinnar, 86 prósent kjósenda Pírata og 84 prósent kjósenda Viðreisnar eru sama sinnis.
Um var að ræða netkönnun og úrtakið var 1.413 manns 18 ára og eldri alls staðar að af landinu. Fjöldi svarenda var 876.
Ekki fleiri neikvæðar fréttir um Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokk
Greining Fjölmiðlavaktarinnar/Creditinfo var á fréttaumfjöllun RÚV í aðdraganda Alþingiskosninga 2013 og 2016. Niðurstaða hennar vegna kosninganna í fyrra var meðal annars sú að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkar hafi fengið mesta fréttaumfjöllun og að 88 prósent allra frétta sem sagðar voru af stjórnmálaflokkum í hafi hvorki flokkast sem jákvæðar né neikvæðar. Um níu prósent þeirra töldust jákvæðar en þrjú prósent neikvæðar.
Flestar þeirra frétta sem flokkuðust sem neikvæðar voru um Íslensku þjóðfylkinguna, eða sjö prósent allra frétta sem sagðar voru af henni. Alls voru fimm prósent frétta sem sagðar voru af Framsóknarflokknum neikvæðar. Fjögur prósent þeirra frétta sem sagðar voru af Samfylkingunni, Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum töldust neikvæðar. Aðrir flokkar voru með minna hlutfall neikvæðra frétta.
Flestar jákvæðar fréttir voru sagðar um Pírata og voru 22 prósent frétta um þá flokkaðar sem slíkar. Það er mun meira en fréttir af flestum öðrum framboðum og er það skýrt í greiningunni með því að meirihluti þeirra jákvæðu frétta sem tengdust Pírötum hafi snúist um umræðu um stjórnarmyndun fyrir kosningar. Er þar vísað í svokallaðan Lækjabrekkufund. Þá voru einnig fréttir af áhuga erlendra fjölmiðla á framboði Pírata sem og fréttir af góðu gengi flokksins í skoðanakönnunum.
Af þeim flokkum sem eiga nú fulltrúa á Alþingi var minnst hlutfall frétta jákvæðar þegar fjallað var um Samfylkingu (fimm prósent) og Viðreisn (sex prósent).