Miðflokkurinn ætlar að gefa kjósendum sína eigin eign
Miðflokkurinn ætlar að kaupa Arion banka með fé úr ríkissjóði til að gefa þjóðinni síðan þriðjungshlut í honum. Því mun skattfé greiða fyrir það sem gefið verður. Stærsti eigandi Arion banka í dag er Kaupþing. Á meðal eigenda þess félags er Wintris.
Í kosningunum 2013 fékk Framsóknarflokkurinn, þá undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sína bestu kosningu í 34 ár. Alls fékk flokkurinn 24,4 prósent atkvæða. Ástæðan var fyrst og síðast ein: hin svokallaða Leiðrétting.
Hún snerist um að greiða hluta Íslendinga sem höfðu verið með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 samtals 72,2 milljarða króna úr ríkissjóði í skaðabætur fyrir verðbólguskot sem orðið hafði eftir hrun, og hækkaði lán þessa hóps. Þegar kom að útgreiðslu Leiðréttingarinnar, sem fór að stærstum hluta til tekju- og eignarmesta hluta þjóðarinnar, hafði húsnæðisverð reyndar hækkað langt umfram verðbólgu og eigið féð því skilað sér til baka.
En Leiðréttingin svínvirkaði sem kosningaloforð. Í fyrsta sinn var því lofað að gefa fólki sem að meirihluta var ekki í neinni sárri þörf beinharða peninga. Og Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra í kjölfarið.
Nú, eftir að hafa þurft að segja af sér sem forsætisráðherra og verið felldur sem formaður Framsóknarflokksins, er Sigmundur Davíð mættur til leiks með nýjan flokk, Miðflokkinn. Sá flokkur hverfist fyrst og síðast í kringum hugmyndafræði hans og persónu. Og stærsta loforð flokksins, sem mælist með 10,5 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Kjarnans og er á mikilli siglingu, snýst um að gefa almenningi fé úr ríkissjóði.
Vill að ríkið kaupi banka af Kaupþingi
Í þetta sinn ætlar Sigmundur Davíð að gefa þjóðinni þriðjungshlut í Arion banka, eftir að ríkið hefur nýtt sér forkaupsrétt sinn í bankanum og keypt hann aftur af núverandi meirihlutaeigendum. Þeir eru annars vegar fjórir vogunarsjóðir og Goldman Sachs, sem keyptu hlut í bankanum í mars, og eiga samtals 29,6 prósent hlut í honum. Hins vegar er stærsti eigandi Arion banka Kaupþing ehf. sem á 57,41 prósent hlut.
Kaupþing er að mestu í eigu erlendra vogunarsjóða. En á meðal annarra eigenda félagsins, sem eru allir gamlir kröfuhafar Kaupþings banka, er félagið Wintris. Það er skráð á Bresku jómfrúareyjunum og er í eigu eiginkonu Sigmundar Davíðs. Hann var sjálfur skráður eigandi félagsins, sem á á annað milljarð króna í eignum, um árabil og enginn kaupmáli er í gildi á milli þeirra hjóna sem gerir Wintris að séreign eiginkonu hans. Því er ljóst að helsta kosningaloforð Miðflokksins snýst um að kaupa eign sem félag í eigu eiginkonu formanns flokksins á hlut í.
Ríki taldi forkaupsrétt ekki hafa virkjast
Samkvæmt stöðugleikasamkomulaginu við kröfuhafa, sem var gert þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra, átti Kaupþing að selja Arion banka fyrir árslok 2018. Hluta hluta af söluandvirðinu sem félagið fengi fyrir Arion banka átti að nota í að greiða upp 84 milljarða króna veðskuldabréf. Slík greiðsla myndi draga úr þörf íslenska ríkisins á því að gefa út ríkisskuldabréf og auka getu þess til að greiða niður skuldir eða ráðast í innviðauppbyggingu.
Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaupþing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Ef það myndi ekki takast myndi ríkissjóður leysa bankann til sín.
Vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs keyptu samtals hlut sinn í Arion banka af Kaupþingi á tæplega 50 milljarða króna. Verðið sem greitt var fyrir var yfir 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka. Ríkið gat því ekki nýtt sér forkaupsréttinn þar sem hann virkjaðist ekki. Auk þess áttu sjóðirnir og Goldman Sachs samtals kauprétt af um 22 prósenta hlut til viðbótar sem þeir ákváðu í ágúst að nýta sér ekki.
Ætlar að kaupa banka og gefa síðan hluta
Í kosningastefnu Miðflokksins segir að hann ætli sér að nýta sér forkaupsrétt ríkisins að Arion banka. Hvernig flokkurinn ætlar sér að gera það er ekki útfært. En ljóst er að flokkurinn getur ekki þvingað þá sem þegar hafa keypt hlut í bankanum til að selja sér aftur þann hlut. Og samkvæmt þeim skilyrðum sem sett voru um virkjun forkaupsréttar ríkisins þegar samið var um stöðugleikaframlögin þá getur ríkið ekki gengið inn í frekari sölu á hlut í Arion banka nema að slík sala fari fram á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé. Það er að minnsta kosti mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem sett var fram í minnisblaði til efnahags- og viðskiptanefndar sem lagt var fram á fundi nefndarinnar í júní síðastliðnum.
Kosningastefna Miðflokksins miðar að því að ríkið eignist Arion banka að fullu, að þriðjungur verði seldur í opnu útboði, að ríkið haldi eftir um þriðjungi og að þriðjungur verði gefin landsmönnum. Til þess að þetta sé gerlegt þarf að kaupa alla hluti í Arion banka til baka, en ríkið á í dag 13 prósent. Sigmundur Davíð segir í Fréttablaðinu í dag að þriðjungshluturinn sem Miðflokkurinn ætlar að afhenda þjóðinni sé líklega 60-70 milljarða króna virði. Miðað við það verð þá verðleggur hann Arion banka á 180 til 210 milljarða króna. Ríkið þyrfti þar af leiðandi að kaupa 87 prósent hlut annarra sem samkvæmt verðmati Sigmundar Davíð er 157 til 183 milljarða króna virði, áður en þriðjungur yrði afhentur þjóðinni og þriðjungur yrði endurseldur í opnu útboði. Til að gefa þjóðinni Arion banka þyrfti fyrst að kaupa hann aftur, með fé úr ríkissjóði. Því er bankagjöfin í grunninn mjög sambærileg aðgerð og Leiðréttingin, að því undanskildu því að nú eiga allir að fá fé í stað þess að einungis sumir fái það.
Stefnt að því að selja Kaupþing á næsta ári
Þegar síðasta ríkisstjórn sprakk stóð til að hlutur Kaupþings í Arion banka yrði seldur í opnu hlutafjárútboði á síðari hluta þessa árs. Sú vinna var á lokametrunum. Vegna þeirrar pólitísku óvissu sem skapaðist við stjórnarslitin og boðun kosninga þá hætti Kaupþing við þessi áform og ætlar nú að selja hlutinn sinn á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Gangi þau áform eftir mun allur 87 prósent hlutur Kaupþings verða komin í annarra hendur snemma á næsta ári. Eftir stæði íslenska ríkið með 13 prósent hlut, sem það gæti þá selt á markaði ef vilji væri til að losa um og nota fjármagnið í annað.
Þótt ríkið myndi ekki selja sinn hlut í Arion banka myndi ríkiskassinn samt bólgna vel út ef af verður. Ástæða þess er sú, líkt og áður sagði, að seljandinn, Kaupþing, myndi nota hluta af söluandvirðinu til að gera upp 84 milljarða króna veðskuldabréf sem gefið var út í byrjun árs 2016 í tengslum við greiðslu stöðugleikaeigna.