Á undanförnum árum hafa miklar breytingar orðið í íslensku efnahagslífi eftir umrótartíma í kjölfar hrunsins. Eitt af því sem hefur gerst, er að mikil verðmæti hafa byggst upp í endurreisninni eftir hrunið innan dótturfélaga hins opinbera.
Mikil verðmæti
Af um 1260,8 milljarða eigin fé (mismunur á eignum og skuldum) tíu stærstu fyrirtækja landsins sé horft til eiginfjár stöðu í lok árs í fyrra, þá tilheyrir hinu opinbera 790,1 milljarður króna, eða sem nemur um 62,6 prósent af öllu eigin fé tíu stærstu fyrirtækjanna. Hlutur íslenska ríkisins er bróður parturinn af því, eða sem nemur 666,2 milljörðum króna, eða 52,8 prósentum af heildar eigin fé tíu stærstu félaganna.
Stærsta fyrirtækið, sé horft til eiginfjárstöðu í lok árs í fyrra, er Landsbankinn með eigin fé upp á 251 milljarð króna. Ríkið á bankann að nær öllu leyti, ríflega 98 prósent.
Arion banki er með eigið fé upp á 211,3 milljarða en íslenska ríkið á 13 prósent hlut í bankanum, sem nemur um 27,4 milljörðum króna af eigin fénu.
Næst þar á eftir kemur Landsvirkjun með eigin fé upp á 1,96 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 205,8 milljörðum króna.
Eigið fé Íslandsbanka nam 178 milljörðum, en íslenska ríkið á bankann að öllu leyti.
Orkuveita Reykjavíkur (OR) var með eigið fé upp á 128 milljarða í lok árs í fyrra en Reykjavíkurborg á 95 prósent hlut í félaginu og afgangurinn er í eigu Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Eiginfjárstaða OR hefur styrkst verulega frá því eftir hrunið, en þá var staða félagsins um margt tvísýn. Eiginfjárhlutfallið hefur hækkað úr 14 í ríflega 42 prósent.
Samherji stærst í einkaeigu
Sjötta stærsta félagið, sé horft til eiginfjár, er alfarið í einkaeigu. Það er sjávarútvegsrisinn Samherji, en eigið fé fyrirtækisins í lok árs í fyrra var 701 milljónir evra, eða sem nemur 87,7 milljörðum króna.
Á eftir Samherja koma síðan fjögur skráð félög, sem eru með álíka eiginfjárstöðu. Marel er verðmætasta félagið sem skráð er á markað, með verðmiða upp á 243 milljarða króna, sem nemur tæplega fjórðungi alls markaðsvirðis á skráðum markaði á Íslandi. Eigið fé fyrirtækisins nemur 446 milljónum evra, eða sem nemur 55,7 milljörðum króna.
Össur kemur þar á eftir með eigin fé upp á 463 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 48,6 milljörðum króna. Icelandair er með eigin fé upp á 456 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur um 48 milljörðum króna.
Fasteignafélagið Reitir, sem er með töluvert mikið eigið fé í samanburði við önnur skráð fasteignafélög (Eik og Reginn) er síðan með 46,7 milljarða króna í eigið fé.
Mikil breyting
Á undanförnum árum hafa mikil verðmæti byggst upp í fyrirtækjum sem hið opinbera á. Það á ekki aðeins við um fjármálafyrirtækin, heldur ekki síst orkufyrirtækin, Landsvirkjun og OR. Samanlagt eigið fé þeirra nemur 333,8 milljörðum króna, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra. Fyrirtækin hafa einblínt á að styrkja efnahaginn með því að greiða niður skuldir og er útkoman sú, að eiginfjárhlutföll hafa hækkað verulega. Reikna má með því að fyrirtækin greiði eigendum sínum milljarða í arð árlega, næstu árin.
Endurreisn fjármálakerfisins, og ekki síst stöðugleikaframlög slitabúa föllnu bankanna, hafa síðan fært ríkinu mikil verðmæti. Samanlagt á íslenska ríkið 456,4 milljarða af heildar eigin fé endurreistu bankanna, en það nemur 640,3 milljörðum króna, miðað stöðu mála í lok árs í fyrra.
Það nemur um 71,2 prósent af öllu eigin fé bankanna sem reistir voru við á nýjum kennitölum, á grunni innlendra eigna hinna föllnu banka, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, sem allir féllu eins og spilaborg dagana 7. til 9. október 2008.