Útlendingum hefur fjölgað mikið á Íslandi á undanförnum árum. Um síðustu áramót voru þeir 10,6 prósent mannfjöldans og 12,4 prósent þeirra sem töldu fram skatt hérlendis á árinu 2016 voru erlendir ríkisborgarar. Þeir hafa aldrei verið fleiri og þeim fjölgar ár frá ári.
Í nýjustu Tíund, tímariti ríkisskattstjóra, kemur fram að ef erlendum ríkisborgurunum sem borga skatta á Íslandi heldur áfram að fjölga á sama hraða og þeim gerði á árinu 2016 verða þeir orðnir fleiri en Íslendingar eftir átta ár.
Það eru þó ekki bara þeir sem koma hingað til lands til að vinna sem hefur fjölgað hérlendis. Kvótaflóttamenn, sem Íslendingar hafa verið að taka við frá árinu 1956, eru orðnir samtals 645 talsins og búið er að ákveða að taka við 50 til viðbótar á næsta ári. Þá eru ótaldir hælisleitendurnir en þeim fjölgar ár frá ári. Í fyrra sóttu 1.130 manns um vernd hérlendis og búist er við því að þeir verði um 1.300 í ár, samkvæmt nýjum tölum frá Útlendingastofnun. Tæplega níu af hverjum tíu sem sækja hér um hæli fá það hins vegar ekki.
Ýmsir stjórnmálamenn hafa valið að notfæra sér þessa breytingu til að ala á hræðslu og nota fjölgun útlendinga á Íslandi til að tefla hópum saman. Þannig er kostnaður vegna t.d. móttöku hælisleitenda og flóttamanna notaður sem ástæða fyrir því að aðrir viðkvæmir hópar hafi það ekki betra.
Fyrir um áratug átti sé stað sambærileg umræða á vettvangi stjórnmálanna en þá var verið að hnýta í útlendinga sem komu hingað til lands til að vinna, og þeir sagðir hafa atvinnu af Íslendingum eða verða þess valdandi að lækka laun þeirra. Þá var einnig talað um, í pontu Alþingis, að nauðsynlegt væri að „verja íslensk gildi og menningararf og takmarka innflutning fólks við félagslega og fjárhagslega getu þjóðarinnar til að halda uppi því velferðarkerfi sem hefur verið byggt upp af miklum dugnaði undanfarna áratugi þótt alltaf megi gera betur. Yfirvöld í okkar litla landi verða að hafa stjórn á því hverjir og hvað margir innflytjendur koma til landsins. Öllum sem sækja hér um dvalarleyfi ber að skuldbinda sig til að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá og nema íslensku.“
Einungis 17,8 prósent telja innflytjendur vera ógn
Sökum þess að sumir stjórnmálamenn, og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar á borð við Íslensku þjóðfylkinguna, hafa gert stórt vandamál úr innflytjendum, flóttamönnum eða hælisleitendum árum saman að útlendingaandúð hérlendis væri að aukast. En svo virðist alls ekki vera. Þvert á móti.
Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og sálfræðingur, hélt fyrirlestur á málþingi Siðmenntar sem hét „Hættan af þjóðernishyggju“ og var haldið 14. október síðastliðinn. Þar fór hún meðal annars yfir niðurstöður úr Íslenska kosningarannsókninni sem var fyrst framkvæmd í kjölfar kosninga til Alþingis árið 1983 og hefur verið endurtekin eftir hverjar Alþingiskosningar síðan þá. Síðasta rannsókn var því framkvæmd í fyrrahaust.
Ein þeirra spurninga sem spurt hefur verið í rannsókninni síðastliðinn áratug er hvort að innflytjendur séu alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar.
Samkvæmt niðurstöðum kosningarannsóknarinnar töldu 34,6 prósent Íslendinga að innflytjendur væru alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar árið 2007. Síðan þá hefur hlutfall þjóðarinnar sem það heldur farið hratt lækkandi.
Árið 2009 sögðust 25 prósent hennar vera annað hvort alveg eða frekar sammála því að innflytjendur væru ógn við íslensk þjóðareinkenni. Fjórum árum síðar var hlutfallið komið niður í 20,2 prósent og í fyrra voru 17,8 prósent sammála því að innflytjendur væru alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar. Á tímabilinu hefur hlutfall þeirra sem telja innflytjendur ekki skipta máli í þessu samhengi aukist úr tveimur prósentum í sex prósent.
Það þýðir að árið 2016 voru 76,2 prósent Íslendinga þeirrar skoðunar að innflytjendur ógni ekki þjóðareinkennum okkar alvarlega.
Sjálfstæðismenn líklegastir til að telja innflytjendur ógn
Það hversu alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar kjósendur telja innflytjendur vera er mælt á skalanum 1-5. Því hærri sem talan er því meiri ógn telja kjósendur tiltekinna flokka að innflytjendur séu. Hér að neðan má sjá hvernig sú afstaða raðast niður á landsmenn eftir því hvaða flokka þeir kjósa.
Flokkur | 2007 | 2009 | 2013 | 2016 |
---|---|---|---|---|
Samfylking | 2,31 | 1,92 | 1,64 | 1,71 |
Framsóknarflokkurinn | 2,38 | 2,28 | 2,41 | 2,37 |
Sjálfstæðisflokkurinn | 2,62 | 2,56 | 2,32 | 2,48 |
Vinstri græn | 1,93 | 1,95 | 1,69 | 1,43 |
Borgarahreyfingin | 1,90 | |||
Björt framtíð | 1,56 | 1,34 | ||
Píratar | 1,59 | 1,58 | ||
Frjálslyndi flokkurinn | 3,18 | 2,17 | 2,38 | |
Dögun (T) | 2,30 | |||
Viðreisn (C) | 1,90 |
Þar kemur fram að kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru líklegastir allra til að telja innflytjendur ógna þjóðareinkennum Íslendinga í dag. Þannig var það árið 2007 og hlutfall þeirra sem eru með þá skoðun hefur mjög lítið breyst þegar svör frá því í fyrra eru skoðuð. Sömu sögu er að segja um kjósendur Framsóknarflokksins. Þeir eru næst líklegastir til að vera með þá skoðun að ógn stafi af innflytjendum og hlutfall þeirra sem telja svo vera var nánast það sama í fyrra og það var árið 2007. Fyrir tíu árum var reyndar hræðslan við áhrif innflytjenda hjá kjósendum Frjálslynda flokksins, en hann er ekki lengur til og því engir kjósendur hans í dag.
Árið 2007 höfðu kjósendur Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins svipaða afstöðu til hvort að innflytjendur væru alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar. Afstaða þeirra sem kjósa Samfylkinguna gagnvart innflytjendum hefur mildast umtalsvert síðan þá. Sömu sögu er að segja af kjósendum Vinstri grænna, þar hefur hræðslan við áhrif innflytjenda dregist mikið saman. Raunar eru kjósendur Vinstri grænna þeir sem mælast næst minnst hræddir við áhrif innflytjenda. Einungis kjósendur Bjartrar framtíðar sjá þá sem minni ógn. Þriðja minnsta hræðslan er síðan á meðal kjósenda Pírata, þar á eftir koma áðurnefndir kjósendur Samfylkingar og svo kjósendur Viðreisnar.