Hver ætlar að bera ábyrgð á Ásmundi Friðrikssyni?

Auglýsing

Í morgun bár­ust þær gleði­fréttir að Íslenska þjóð­fylk­ing­in, stjórn­mála­afl sem elur á útlend­inga­andúð með því að beita fyrir sig röngum stað­hæf­ing­um, hefur ekki nægi­lega mik­inn hljóm­grunn hjá íslensku þjóð­inni til að bjóða fram án þess að falsa und­ir­skriftir á með­mæl­enda­list­unum sín­um. Það þýðir að þessi hreyf­ing sem nær­ist á til­bú­inni hræðslu og órök­studdu mann­hatri nýtur ekki nægj­an­legs stuðn­ings til að eiga erindi upp á dekk.

Gleðin var hins vegar skamm­vinn því að næsta verk var að lesa aðsenda grein eftir Ásmund Frið­riks­son, þing­mann Sjálf­stæð­is­flokks­ins, í Morg­un­blað­inu. Þar fjallar hann um mein­tan kostnað vegna hæl­is­leit­enda.

Áður en farið er yfir efn­is­at­riði greinar Ásmundar er rétt að minn­ast þess að þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann ratar í umræð­una fyrir að setja fram glóru­lausar stað­hæf­ingar um útlend­inga. Í byrjun árs 2015, í kjöl­far árása á skrif­stofu Charlie Hebdo í Frakk­landi, skrif­aði Ásmundur stöðu­upp­færslu á Face­book þar sem hann velti því fyrir sér hvort bak­grunnur þeirra 1.500 múslima sem búa á Íslandi hafi verið kann­aður með það að leið­­ar­­ljósi að kom­­ast að því hvort þeir hefðu „farið í þjálf­un­­ar­­búðir hryðju­verka­­manna eða barist í Afganistan, Sýr­land eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima.“ Ásmundur við­­ur­­kenndi síðar að hann þekkt­i ­sam­­fé­lag múslima „nán­­ast ekki neitt“.

Nokkru síðar birt­ist leið­ari á Kjarn­anum þar sem lagt var út frá skil­­grein­ingu á hug­tak­in­u ras­ismi sam­­kvæmt íslenskri orða­­bók. Þar var sýnt fram á að um­­mæli Ásmundar um bak­grunns­­skoðun allra múslima á Íslandi, þar sem ­trú við­kom­andi er aðgrein­ing­­ar­at­riðið sem aðskilur „okk­­ur“ frá „hin­um“, væri menn­ing­­ar­­legur ras­ismi. Um það væri eng­inn vafi.

Ásmundur brást illa við og ásak­aði mig um að vera „ras­ista umræð­unn­ar“, fyrir að vega að mál­frelsi sínu. Þing­mað­ur­inn heldur því að í mál­frelsi felist að mega segja rasíska hluti, sem byggja ekki á neinu raun­veru­legu, án þess að vera kall­aður ras­isti eða vera gagn­rýndur fyr­ir.

Ásmundur beitir mál­frelsi sínu

Í grein sinni í dag beitir Ásmundur aftur mál­frelsi sínu. Það gerir Ásmundur undir þeim hatti að hann sé að „taka umræðu“ um eitt­hvað sem eng­inn þori að ræða.

Sam­an­dregið skrifar þessi þing­maður stærsta stjórn­mála­flokks Íslands að hæl­is­leit­endur hér­lendis geti orðið allt að tvö þús­und í ár. Hann segir að sú fjölgun komi „í kjöl­far ákvörð­unar Alþingis um að taka hags­muni ein­stak­linga fram yfir hags­muni heild­ar­inn­ar.“ Ásmundur skrifar síðan að fram hafi verið settar sviðs­myndir sem sýni að hæl­is­leit­endur hér­lendis gætu orðið tug þús­undir á næstu árum og að kostn­að­ur­inn á hverju ári gæti orðið 220 millj­arðar króna. Hann segir að kostn­aður við mót­töku hæl­is­leit­enda stefni í sex millj­arða króna „Þreng­ingar eru á hús­næð­is­mark­aði. Heima­fólk er sett á göt­una á meðan margar íbúð­ir, gisti­heim­ili og gamlir skólar eru setin hæl­is­leit­end­um. Nábýlið við suma þeirra er svo eld­fimt að það dugar ekki minna en sér­sveit lög­regl­unnar ef stilla þarf til frið­ar.“

Auglýsing
Líkt og aðrir sem „taka umræð­una“ á sama hátt og Ásmundur þá stillir hann hæl­is­leit­endum upp sem orsök þess að aðrir hópar líði skort. Og spyr svo nokk­urra spurn­inga. Þær eru:

„Að hæl­is­leit­endur fái í mörgu betri fram­færslu en eldri borg­arar og öryrkjar?

Að hæl­is­leit­endur fá frítt hús­næði þegar eldri borg­urum og fötl­uðum stendur það ekki til boða.

Að heima­menn búi á sama tíma í tjöldum vegna hús­næðiseklu?

Að hæl­is­leit­endur fái ókeypis sál­fræð­i-, lækn­is- og tann­lækna­þjón­ustu þegar eldri borg­urum og fötl­uðum stendur það ekki til boða?

Er rétt­látt að verja sex þús­und millj­ónum til mót­töku hæl­is­leit­enda þegar við neitum Heil­brigð­is­stofnun Suð­ur­nesja, Heil­brigð­is­stofnun Suð­ur­lands á Sel­fossi og í Vest­manna­eyjum og Ísa­firði um örugg­ari fæð­ing­ar­þjón­ustu í heima­byggð sem sam­tals kostar um einn millj­arð á ári?“

Umræðan hefur sann­ar­lega verið tekin

Til að byrja með er rétt að benda á að það er fullt af fólki að taka nákvæm­lega þessa umræðu sem Ásmundur er að kalla eft­ir. Það fólk er hins vegar að gera það með stað­reynd­um. En það er sjálf­sagt að taka umræð­una aftur við Ásmund út frá þeim atriðum sem hann nefnir í grein sinni.

Í fyrsta lagi höfðu 883 manns sótt um hæli hér­lendis á fyrstu níu mán­uðum árs­ins, sam­kvæmt opin­berum tölum Útlend­inga­stofn­un­ar. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Rauða kross­inum hefur fjöldi umsókna í haust verið minni en búist var við og allt stefnir í að fjöld­inn sem sækir um hæli í ár verði ekk­ert neitt rosa­lega mikið meiri en hann var í fyrra. Þá sóttu 1.130 manns um hæli hér­lend­is.

Í öðru lagi er Ásmundur að segja að ein­hverjar sviðs­mynd­ir, sem hann getur hvorki sagt hver vann né í hvaða sam­hengi þær voru settar fram, sýni að árlegur kostn­aður við mót­töku hæl­is­leit­enda geti orðið 220 millj­arðar króna. Miðað við útreikn­inga Ásmundar um hvað hver hæl­is­leit­andi kostar þá myndi þetta þýða að 57.895 hæl­is­leit­endur kæmu hingað á ári. Hann er að halda því fram að fjöld­inn fari úr því að vera undir 1.500 í 57.895. Og notar það til að hræða fólk til að kjósa sig.

Í þriðja lagi þá er erfitt að sjá hvað Íslend­ingar eiga að gera til að tak­marka fjölda þeirra sem sækja hér um hæli. Við höfum þegar hraðað máls­með­ferð umtals­vert og þeim hæl­is­leit­endum sem eru í þjón­ustu sveit­ar­fé­laga eða Útlend­inga­stofn­unar hefur fækkað úr 820 í byrjun des­em­ber 2016 í 581 í byrjun þessa mán­að­ar. Það þýðir að færri og færri eru hér í því sem Ásmundur vill meina að sé frítt lúx­us­uppi­hald á kostnað skatt­borg­ara sem ræni eldri borg­ara og fatl­aða heil­brigð­is­þjón­ustu og komi í veg fyrir fæð­inga­þjón­ustu í heima­byggð. 

Hvað vill Ásmundur eig­in­lega gera? Vill hann ganga úr Schengen? Vill hann kannski bara ganga úr EES, líkt og Schengen útganga myndi raunar þýða? Vill hann hætta flug­sam­göngum hing­að? Vill Ásmundur byggja hér múr? 

Hann lét reyndar aðeins í það skína hvar hugur hans liggur í þessum efnum í umræðum um ný útlend­inga­lög, sem voru sam­þykkt í fyrra í þverpóli­tískri sam­stöðu á Alþingi án atkvæðis Ásmund­ar. Í ræðu sinni við það til­efni sagði Ásmundur að æski­legt væri að hæl­is­leit­endur færu „aldrei út af þeim stöðum sem það kem­ur til með flutn­ings­tæki til lands­ins, skipi eða flug­­­vél. Þá er einnig æski­­legt að yfir­­völd hefðu þann mann­afla og réðu yfir­ þeim úrræðum að geta vísað fólki sem sýnir ekki fram á full­nægj­andi heim­ildir til rétt­­mæti þess að fá að dvelj­­ast hér í landi út þegar í stað.“ Ásmundur virð­ist sem sagt vilja setja upp ein­hvers­konar hæl­is­leit­enda-fanga­búðir á flug­völlum lands­ins og við hafnir þess.

Það er að minnsta kosti erfitt að sjá hvert hann er að fara með vilja sínum til að tak­marka fjölda hæl­is­leit­enda. Það er nefni­lega þannig að flest af þessu fólki sem kemur hingað í leit að hæli er sent aftur í burtu. Í fyrra fengu heilir 110 hæli á Íslandi. Það sem af er þessu ári hafa 95 manns fengið slíkt. Það þýðir að við synjun níu af hverjum tíu sem sækja hér um hæli. Og sendum þá ann­að.

Um meint lúx­uslíf hæl­is­leit­enda

Í fjórða lagi er rétt að ræða aðeins um mein­tan lúxus hæl­is­leit­enda og umframað­gengi þeirra að heil­brigð­is­þjón­ustu, fram­færslu og fríu hús­næði. Bryn­hildur Bolla­dóttir, upp­lýs­inga­full­trúi Rauða Kross­ins á Íslandi, skrif­aði grein á Kjarn­ann fyrir rúmum mán­uði síðan þar sem öll þessi stað­leysa er hrak­in. Þar benti Bryn­hildur á þjón­ustu­að­il­ar, þrjú sveit­ar­fé­lög og Útlend­inga­stofn­un, útvegi hæl­­­is­­­leit­endum búset­u­úr­ræði. Athugið að þau ganga undir nafn­inu búset­u­úr­ræði en ekki hús­næði, enda nær hús­næði ekki nógu vel utan um hvers kyns híbýli þetta eru. Búset­u­úr­ræðin eru t.d. þannig að um 100 manns búa sam­an, um 30 her­bergi á gangi sem 2-3 deila eða jafn­­­vel heil fjöl­­­skylda saman í her­bergi, sem er hvorki stórt né íburð­­­ar­­­mik­ið. Ef umsækj­andi um alþjóð­­­lega vernd fær stöðu sem flótta­­­mað­­­ur, sem fæstir þeir sem hingað koma fá, þarf hann að yfir­­­­­gefa þau búset­u­úr­ræði sem honum hefur verið séð fyr­­­ir.

Tann­lækna­þjón­ustan sem hæl­­­is­­­leit­endur á Íslandi fá felst í tveimur val­­­kost­­­um. Ann­að­hvort taka verkja­lyf við tann­pínu eða láta draga úr sér tenn­­­urn­­­ar. Í und­an­­­tekn­ing­­­ar­til­vikum er gert við tennur í börnum þjá­ist þau af tann­pínu.

Í fimmta lagi kom fram í upp­gjöri rík­is­sjóðs fyrir fyrstu sex mán­uði árs­ins að hrein útgjöld vegna rétt­inda ein­stak­l­inga hafi verið  2,2 millj­­­arðar króna sem var 1.251 millj­­­ónum meira en áætlað var. Þar sagði: „Í fjár­­­heim­ildum vegna árs­ins 2017 voru veru­­­lega van­á­ætl­­­aðar í fjár­­­laga­­­gerð fyrir árið 2017 í ljósi for­­­dæma­­­lausrar fjölg­unar hæl­­­is­um­­­sókna á síð­­­­­ustu mán­uðum árs­ins 2016. Kostn­aður vegna þess­­­ara umsókna hefur að mestu leyti fallið til á yfir­­­stand­andi ári.“ Það er erfitt, miðað við þessar töl­ur, að sjá hvaðan Ásmundur hefur það að kostn­aður við hæl­is­leit­endur verði sex millj­arðar króna á þessu ári.

Í sjötta lagi er fram­færslu­eyrir hæl­is­leit­anda átta þús­und krónur fyrir ein­stak­ling á viku en 23 þús­und krónur hjá fjög­urra manna fjöl­skyldu. Auk þess fær hver full­orð­inn hæl­is­leit­andi 2.700 krónur í vasa­pen­ing á viku og for­eldrar fá við­bótar þús­und­kall fyrir hvert barn. Þetta er fram­færslan sem hæl­is­leit­endur fá frá íslenska rík­inu og Ásmundur hefur svona miklar áhyggjur af.

Í sjö­unda lagi er rétt að benda á að upp­lýst hefur verið um frétta­mál, þar sem sagt var frá því að nábýli við hæl­is­leit­endur væri „svo eld­fimt að það dugar ekki minna en sér­sveit lög­regl­unnar ef stilla þarf til frið­ar“ var svokölluð fals­frétt. Og frétt­irnar sem sagðar voru af því hafa verið leið­réttar af þeim miðlum sem sögðu þær. Hæl­is­leit­endur tengd­ust þeim aðstæðum sem þar voru til umfjöll­unar ekk­ert.

Ásmundur býr til óvin úr örvænt­ing­ar­fullu fólki

Hvað varðar spurn­ingar Ásmundar – en í þeim stillir hann hæl­is­leit­endum upp sem ástæðu þess að ýmsir hópar á Íslandi séu sviptir lífs­gæðum – er best að svara þeim öllum sam­an.

Það er rétt að benda á að flokkur Ásmund­ar, Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, hefur verið í rík­is­stjórn í þrjú af hverjum fjórum árum síðan að Ísland fékk sjálf­stæði. Heild­ar­tekjur íslenska rík­is­ins á næsta ári eru áætl­aðar 833 millj­arðar króna. Sam­kvæmt því fjár­laga­frum­varpi sem lagt var fram í haust er áætl­aður afgangur 44 millj­arðar króna. Ef það er raun­veru­legur vilji til þess að veita eldri borg­urum og fötl­uðum betri heil­brigð­is­þjón­ustu, hækka fram­færslu þeirra, til að finna hús­næði fyrir þá sem búa í tjöldum og til að bæta fæð­inga­þjón­ustu úti á landi og for­ganga fjár­munum öðru­vísi þá hefur flokk­ur­inn verið í kjör­stöðu til þess að ein­fald­lega gera það. Það eru til pen­ingar og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur haft öll tæki­færi sem hann vill til að for­ganga öðru­vísi í rík­is­rekstr­in­um. En hann gerir það ekki.

Og Ásmundur ákveður að velja eina breytu, sem snýst um lág­marks­þjón­ustu við fólk sem á ekk­ert og er í örvænt­ing­ar­fullri leit að ein­hvers­konar lífi, sem hefur kostað 2,2 millj­arða króna á hálfu ári, sem ástæð­una. Hann býr til strá­mann úr þeim. Óvin.

Hann ákveður ekki að horfa til dæmis á þá fimm millj­arða króna á ári sem fara í að nið­ur­greiða fram­leiðslu á lamba­kjöti. Hann minn­ist ekki á kostnað ríkis og borgar við rekstur og afborg­anir á Hörpu, sem hefur kostað tíu millj­arða króna frá 2011 eða bara alla hina mála­flokk­anna sem ríkið ætlar að greiða 789 millj­arða króna í á næsta ári. Nei, það er ein ástæða fyrir ömur­leika gamla og fatl­aða fólks­ins sam­kvæmt Ásmundi: hæl­is­leit­end­ur.

Hver ber ábyrgð á Ásmundi?

Það er sann­ar­lega verið að taka umræðu um þessi mál hér­lend­is. Og það er verið að gera það með mál­flutn­ingi sem byggir á stað­reyndum á borð við þær að á sama tíma og flótta­mönn­um, hæl­is­leit­endum og öðrum inn­flytj­endum fjölgar hér­lendis dregst kostn­aður við félags­lega fram­færslu sam­an. Glæpum fækk­ar. Kostn­aður vegna atvinnu­leys­is­bóta hefur lækkað um marga millj­arða króna. Mýtan um vel­ferð­ar­túristana er því tómt rugl, sem á sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um.

Það stöðvar hins vegar ekki menn eins og Ásmund í að bera fram hlað­borð af útlend­inga­andúð og mann­vonsku til að reyna að skapa sér póli­tíska stöðu. Þetta er versta teg­und af stjórn­málum sem er stund­uð. Vegna þess að hún byggir á upp­lognum stað­hæf­ingum og hefur þann eina til­gang að nær­ast á hræðslu sem er sprottin af full­kominni van­þekk­ingu á raun­veru­leik­an­um. Annað hvort er Ásmundur raun­veru­lega svona illa upp­lýstur eða hann veit bet­ur. Það er erfitt að sjá hvort sé verra.

En Ásmundur og hans póli­tík hefur legið fyrir lengi. Hann er maður sem vílar ekki fyrir sér að bera fram rasíska orð­ræðu og útlend­inga­andúð. Flokkur Ásmundar hefur gagn­rýnt hann harð­lega fyrir það í for­tíð­inni. Það gerði Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, Ólöf Nor­dal heitin, þáver­andi vara­for­maður hans, og Áslaug Arna Sig­ur­björns­dóttir, rit­ari flokks­ins, öll í upp­hafi árs 2015 þegar hann lét ummæli sín um skoðun á múslimum falla. Áslaug Arna sagði raunar að það væri átak­an­legt að vera í sama flokki og Ásmund­ur. Öll þessi við­brögð voru til fyr­ir­myndar og þeim ber að hrósa.

En þrátt fyrir yfir­lýsta andúð flokks­ins á þessum sterku skoð­unum Ásmund­ar, sem ofar öðru skil­greina hann sem stjórn­mála­mann, þá hefur hann tví­vegis hlotið nýtt braut­ar­gengi til að vera á meðal efstu manna á lista Sjálf­stæð­is­flokks­ins í hans sterkasta kjör­dæmi.

Og nú er spurn­ing hvernig for­ystu­fólk, og raunar allir Sjálf­stæð­is­menn, bregð­ast við grein Ásmundar sem birt var í morg­un. Ætla þeir að for­dæma hana, í ljósi þess að hún byggir ekki á neinu og er ein­ungis til þess fallin að reyna að stilla örvænt­ing­ar­fullu fólki upp sem ástæðu fyrir skertum lífs­gæðum hluta lands­manna? Ætla þeir að stiga fram og segja hátt og skýrt að mál­flutn­ingur Ásmundar eigi ekk­ert skylt við stefnu stærsta og áhrifa­mesta stjórn­mála­flokks lands­ins? Eða ætla þeir að láta sem ekk­ert sé, virða „mál­frelsi“ Ásmundar til að boða útlend­inga­andúð með inni­halds­lausum hræðslu­á­róðri og kanna hvort að Ásmundur nái að krækja í ras­ista-­at­kvæðin fyrir þau?

Yfir til ykk­ar. Nú er tím­inn til að draga skýra línu í sand­inn.Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er utanríkisráðherra.
Inga Hrefna nýr aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar
Utanríkisráðherra er nú komin með tvo aðstoðarmenn. Alls má ríkisstjórnin ráða 27 aðstoðarmenn. Laun og starfs­­kjör aðstoð­­ar­­manna ráð­herra mið­­ast við kjör skrif­­stofu­­stjóra í ráðu­­neytum sam­­kvæmt ákvörð­unum kjara­ráðs.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Jón Gunnarsson er dómsmálaráðherra.
Leggur til að sameina héraðsdómstóla landsins í eina stofnun
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra er með áform um að sameina þá átta héraðsdómstóla sem eru í landinu í eina stofnun. Forsenda sameiningarinnar er að sameinaður dómstóll hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Kolafarmi frá Suður-Afríku skipað upp í pólskri höfn í sumar.
Pólverjum er vandi á höndum
Stærsti framleiðandi kola í Evrópu utan Rússlands er í vanda staddur eftir að hafa bannað innflutning á rússneskum kolum vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. virðir hér fyrir sér dauðan hval í Hvalfirði í júlímánuði.
Lögregla væntir þess að Hvalur hf. skili dróna svissneska ríkisútvarpsins í dag
Teymi frá svissneska ríkisfjölmiðlafyrirtækinu SRG SSR flaug dróna yfir hvalstöð Hvals hf. fyrr í vikunni. Starfsmenn Hvals hf. hirtu af þeim drónann og lögreglan á Akranesi hefur krafið fyrirtækið um að skila dróna Svisslendinganna.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins átti 1,5 milljónir eftir í kosningasjóði sínum þegar prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni var um garð gengið. Það fé ætlar hún að færa félagi sem hún sjálf stjórnar, en það heitir Frelsisborgin.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Skúli Mogensen hefur byggt upp mikla ferðaþjónustu í Hvammsvík i Hvalfirði.
Áformin einkennist af „einhvers konar firringu“
Zephyr Iceland, sem áformar vindorkuver í Hvalfirði, „forðast að snerta á kjarna málsins“ í matsáætlun á framkvæmdinni. Kjarninn er sá að mati Skúla Mogensen, eiganda sjóbaðanna í Hvammsvík, að áformin einkennast af „einhvers konar firringu“.
Kjarninn 12. ágúst 2022
Vatnsyfirborð Rínarfljóts hefur lækkað stöðugt síðustu vikur.
Hættuástand að skapast í Rínarfljóti – Munu skipin geta siglt?
Vatnsyfirborð Rínarfljóts gæti á næstu dögum orðið hættulega lágt að mati þýskra yfirvalda. Sífellt erfiðara er að flytja vörur um ána, m.a. kol og bensín. Gríðarmiklir þurrkar hafa geisað víða í Evrópu með margvíslegum afleiðingum.
Kjarninn 11. ágúst 2022
Langreyður dregin á land í Hvalfirði með sprengiskutulinn enn í sér.
Fiskistofa mun taka upp veiðiaðferðir Hvals hf.
Ný reglugerð um verulega hert eftirlit með hvalveiðum hefur verið sett og tekur gildi þegar í stað. Veiðieftirlitsmenn munu héðan í frá verða um borð í veiðiferðum Hvals hf.
Kjarninn 11. ágúst 2022
Meira úr sama flokkiLeiðari