Fyrrverandi kosningastjóri framboðs Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Paul Manafort, hefur verið ákærður fyrir samsæri gegn yfirvöldum í Bandaríkjunum og peningaþvætti.
Viðskiptafélagi hans Rick Gates var einnig ákærður og ráðgjafi Trumps - og áberandi talsmaður framboðs hans - George Papadopolous, hefur einnig játað lögbrot, með því að hafa sagt alríkislögreglunni FBI ósatt við yfirheyrslur.
Rannsókn Mueller skilar árangri
Þetta eru fyrstu ákærurnar sem líta dagsins ljós, á grunni rannsóknar sem Robert Mueller, fyrrverandi forstjóri FBI, hefur leitt, en hann tók við stjórnartaumunum í rannsókninni eftir að James Comey var rekinn sem forstjóri FBI í miðri rannsókn á tengslum framboðs Trumps við Rússa, og fleiri atriðum.
Sorry, but this is years ago, before Paul Manafort was part of the Trump campaign. But why aren't Crooked Hillary & the Dems the focus?????
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 30, 2017
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, brást æfur við tíðundunum af ákærunum og notaði Twitter - eins og svo oft áður - til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Hann beindi spjótunum að Hillary Clinton og spurði hvers vegna í ósköpunum ekki væri verið að fara á eftir henni og Demókrötum. Hann sagði enn fremur að ákærurnar fjölluðu um eitthvað sem gerðist fyrir mörgum árum og tengdist honum ekkert, en fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa þegar leiðrétt það, þó ákærurnar nú tengist öðru fremur tengslum Manafort við Úkraínu og Viktor Janúkovíts, fyrrverandi forseta.
Faldir sjóðir og landráð
Ákærunar eru í tólf liðum, og snúast meðal annars um að milljónum Bandaríkjadala hafi verið haldið leyndum í aflandsfélögum og að tengslum Manafort við Úkraínu, og hvernig hann beitti þeim, hafi verið beitt gegn hagsmunum Bandaríkjanna.
Málin eru fordæmalaus með öllu.
Lögmenn Manafort og Gates hafa vísað ákærunum á bug, og sögðu þeir - á dramatískum blaðamannafundi fyrr í dag, þar sem stóru orðin voru ekki spöruð - að þeir hefðu ekkert gert af sér, og að þeir neiti staðfastlega sök.
Ákærurnar snúa meðal annars að því að Manafort hafi átt falda sjóði upp á 18 milljónir Bandaríkjadala sem hann hafi notað til að njóta þess að lifa hátt, og en einnig til að borga fyrir ýmsa þjónustu. Sjóðirnir voru faldir og er litið svo á, samkvæmt frásögn BBC, að með þessu hafi hann brotið gegn lögum um peningaþvætti og einnig stundað samsæri gegn Bandaríkjunum.
Verði hann fundinn sekur getur legið við því allt að því ævilangt fangelsi.
Hvað er framundan?
Sé mið tekið af umfjöllunum AFP, Reuters, New York Times og Washington Post í dag, þá er fastlega búist við að fleiri ákærur líti dagsins ljós á grunni rannsóknar Muellers. Auk þess að er búist við því að tölu vert magn af gögnum verði birt, ofan á það sem þegar hefur komið fram, sem renni stoðum undir það að framboð Trumps hafi verið í tengslum við rússnesk yfirvöld, og að Rússari hafi verið að skipta sér af kosningunum með sértækum aðgerðum, meðal annars tölvuárásum og herferðum á samfélagsmiðlum.
Tugir manna hafa verið yfirheyrðir í tengslum við rannsóknina, þar á meðal tveir synir Trumps og tengdasonur hans, Jared Kushner. Þá liggur fyrir að fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps til skamms tíma, Michael Flynn, hefur réttarstöðu sakbornings í rannsókn FBI vegna tengsla hans við Rússa og Tyrki líka.
Ströng viðurlög eru við því að starfa sjálfstætt með öðrum ríkjum framhjá yfirvöldum, og varðar það við lög um landráð, ef fólk er staðið að slíku.
Þá hafa verið framkvæmdir tugi húsleita, meðal annars á fjáröflunarskrifstofu Repúblikana. Þá beinist rannsókn Muellers einnig að því upplýsa um hvort Rússar hafi - með sjálfstæðum aðgerðum - reynt að hafa áhrif á niðurstöðu kosningana í nóvember í fyrra, sem Donald Trump vann, eins og kunnugt er.