Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokksins hafa hist og rætt umtalsvert saman í dag og í gær um myndun ríkisstjórnar. Forsvarsmenn Viðreisnar hafa líka verið hluti af því samtali að einhverju leyti, en þau samtöl hafa verið óformlegri.
Innan Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata er sú skoðun ráðandi að ekki verði hægt að mynda stjórn sem einungis stjórnarandstöðuflokkarnir sitji í. Það þurfi að fá Viðreisn inn í þá stjórn til að tryggja henni betri meirihluta, en með þeirri viðbót yrðu þingmenn stjórnarinnar 36 talsins og þingmenn stjórnarandstöðu 27. Viðmælendur Kjarnans segja að Framsóknarflokknum hugnist betur að hafa Flokk fólksins með sem fimmta flokk en Viðreisn.
Sammála um breiðu línurnar
Flokkarnir eru flestir sammála um breiðu málefnalínurnar í mögulegu samstarfi. Þ.e. aukin fjárútlát í heilbrigðis- og menntamál og að ráðast í mjög öfluga sókn í fjárfestingum í innviðum. Þá leggur Framsókn mikla áherslu á endurskipulagningu bankakerfisins og það að reynt verði að vinda ofan af sölu á hlutum í Arion banka til vogunarsjóða. Þá eru allir meðvitaðir um að komandi kjarasamningar verða mjög mikilvægir í baráttunni fyrir því að viðhalda því efnahagsástandi sem hér ríkir nú áfram.
Viðmælendur Kjarnans segja það skýrt frá bæði Framsóknarflokknum og Vinstri grænum að ýta Evrópusambandsmálum út af borðinu. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði það beint út í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að flokkurinn muni einfaldlega ekki samþykkja slíkt. Erfitt verður fyrir Viðreisn að kyngja því en flokkurinn hefur lagt áherslu á það, í óformlegum samtölum, að táknræn afgreiðsla á málinu verði hluti af stjórnarsáttmála ef flokkurinn eigi að vera með.
Ákall eftir breiðri stjórn
Viðmælendur Kjarnans nefna flestir að þeir lesi niðurstöðu kosninganna þannig að ákall sé eftir því að ólíkir flokkar starfi saman í breiðri ríkisstjórn. Fimm flokka stjórn, með sterkan meirihluta sem teygir sig frá Vinstri grænum yfir miðjuna og að hægri-miðflokknum Viðreisn eða jafnvel Flokki fólksins sé slík stjórn.
Staðan í viðræðunum er þó enn viðkvæm og ljóst að mikill þrýstingur er frá flokkunum sem utan þeirra sitja að fá Framsóknarflokkinn til að horfa frekar til þeirra varðandi myndun ríkisstjórnar. Í raun standi og falli myndun stjórnarandstöðustjórnarinnar með ákvörðun Framsóknarflokksins.
Yfir vofir því að náist ekki saman sé næsta skref að myndu ríkisstjórn sem sé skipuð Framsókn, Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins, ef ekki takist að ná stjórnarandstöðuflokkunum og Viðreisn eða Flokki fólksins saman. Hluti viðmælenda Kjarnans telja þetta þó innantóma hótun. Það sé algjörlega ljóst að hluti þingmanna Framsóknarflokksins muni aldrei geta unnið með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Þar á meðal sé formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ekki augljóst hver yrði forsætisráðherra
Fyrir kosningar bjuggust flestir við því að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, væri sjálfkjörin sem forsætisráðherra ef stjórnarandstaðan gæti myndað ríkisstjórn. Hún er enda vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar og það ríkir traust og velvild milli hennar og nánast allra annarra stjórnmálaleiðtoga. Sú staða er ekki jafn skýr nú og þá í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn er í raun með pálmann í höndunum.
Sigurður Ingi Jóhannsson sé því í aðstöðu til að krefjast þess að verða forsætisráðherra standi hugur hans til þess.