Greiðslur sveitarfélaga vegna félagslegrar framfærslu halda áfram að dragast saman ár frá ári. Í fyrra náum greiðslur sveitarfélaga í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki alls 2,6 milljörðum króna. Það er 848 milljónum krónum minna en árið áður og samdráttur í slíkum greiðslum upp á 24,4 prósent.
Vinnumálastofnun greiddi alls tæplega tíu þúsund einstaklingum 7,8 milljarða króna í atvinnuleysisbætur á síðasta ári. Til samanburðar þá fengu alls tæplega 28 þúsund manns 23,2 milljarða króna greiddar í atvinnuleysisbætur árið 2009, þegar áhrif hrunsins voru hvað mest hérlendis. Á sjö árum lækkuðu ársgreiðslur vegna atvinnuleysisbóta því um 15,4 milljarða króna og þeim sem þiggja slíkar bætur fækkaði um liðlega 18 þúsund.
Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra.
Lækkuðu um 848 milljónir á milli ára
Greiðslur sveitarfélaga vegna húsaleigubóta, félagslegrar aðstoðar og styrkja jukust ár frá ári eftir hrun. Á milli áranna 2007 og 2010 hækkuðu þessar greiðslur um 87,2 prósent og héldu áfram að hækka allt fram til ársins 2015. Það ár greiddu sveitarfélögin 3,4 milljarða króna í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki. Það var 365 milljónum krónum minna en árið áður og greiðslurnar lækkuðu því um 9,6 prósent á milli ára.
Og það var í fyrsta sinn í átta ár sem þessi liður lækkaði.
Í fyrra sást tók þessi kostnaðarliður svo stakkaskiptum. Greiðslur sveitafélaga í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki voru 2,6 milljarðar króna árið 2016. Það er 848 milljónum krónum minna en árið áður, eða 24,4 prósent minna.
Á síðasta ári þáðu alls 3.865 manns ofangreinda styrki en þegar verst lét eftir hrunið, á árinu 2013, voru þeir sem þá fengu alls 5.724 talsins. Þeim hefur því fækkað um tæplega tvö þúsund á þremur árum.
Árlegur kostnaður vegna bóta lækkað um 15,4 milljarða
Atvinnuleysi á Íslandi er mjög lítið. Samkvæmt Hagstofu Íslands var það 2,2 prósent á þriðja ársfjórðungi ársins 2017 og ef ekki væri fyrir stórkostlegan innflutning á erlendum ríkisborgurum – þeim fjölgaði um 6.630 á fyrstu níu mánuðum ársins – væri atvinnuleysið hér neikvætt. Þ.e. mun meira framboð væri af atvinnu en eftirspurn.
Fyrir bankahrun var atvinnuleysi hér líka afar lítið. Árið 2007 fengu samtals 4.560 manns greiddar 4,9 milljarða króna frá Vinnumálastofnun í atvinnuleysisbætur. Á árinu 2009 fór atvinnuleysið mest upp í níu prósent á meðal Íslendinga á aldrinum 16-74 ára. Það ár fengu alls 27.639 manns greiddar atvinnuleysisbætur upp á samtals 23,2 milljarða króna.
Algjör viðsnúningur hefur orðið í þessum efnum á undanförnum árum, enda efnahagsástandið hérlendis batnað verulega og mikill hagvöxtur verið ár eftir ár. Ekkert lát virðist á þeirri þróun en samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir 4,9 prósent hagvexti í ár og 3,1 prósent á næsta ári.
Árið 2015 greiddi Vinnumálastofnun alls 8,8 milljarða króna í atvinnuleysisbætur, sem er 2,2 milljörðum króna minna en hún gerði árið áður. Alls fengu 10.864 greiddar bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2015, sem er 16.774 færri en fengu bætur árið 2009. Í fyrra héldu þessar greiðslur áfram að dragast saman. Þá fengu alls 9.722 einstaklingar tæplega 7,8 milljarða króna í atvinnuleysisbætur, eða milljarði minna en árið áður. Það er samdráttur um 13 prósent milli ára og þeir sem fengu greiddar bætur í fyrra voru 1.142 færri en á árinu 2015.
Samtals hafi verið greiddir um 131 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur frá hruni og fram til loka síðasta árs.