Georg Jensen, var fæddur árið 1866 í Raadvad norðan við Kaupmannahöfn. Móðirin var heimavinnandi en faðirinn vann hjá fyrirtækinu Raadvad, sem framleiddi einkum hnífa og potta. Fjórtán ára byrjaði Georg að vinna við silfursmíði en dreymdi um að verða myndhöggvari. Hann lauk sveinsprófi í gull- og silfursmíði árið 1884, aðeins 18 ára að aldri. Hann hafði þó ekki lagt myndhöggvaradrauminn á hilluna og fimm árum síðar, 1889, fékk hann inngöngu í Konunglega fagurlistaskólann (heitir nú Kunstakademiet) og útskrifaðist árið 1892.
Á næstu árum sýndi Georg Jensen verk sín í Kaupmannahöfn og víðar. Stór ferðastyrkur gerði honum kleift að ferðast til Ítalíu og Frakklands og nokkur verka hans, úr leir og bronsi, voru sýnd á heimssýningunni í París árið 1900 og voru sömuleiðis til sýnis í Róm og Flórens það sama ár. Á heimssýningunni kynntist hann verkum franska gullsmiðsins René Lalique, þess sem síðar varð heimsþekktur fyrir glerlistaverk sín.
Silfursmíðin togaði
Þrátt fyrir velgengni sem myndhöggvari, var það þó silfursmíðin sem átti hug og hjarta Georgs. Hann hafði líka gert sér grein fyrir því að ekki væri auðvelt að vinna fyrir sér sem myndhöggvari og sneri sér því að silfursmíðinni. Árið 1901 fékk hann meistararéttindi í silfursmíði, smíðisgripir hans, sem hann bæði hannaði og smíðaði, (skartgripir, skálar, kertastjakar o.fl) voru eftirsóttir og á næstu árum fékk hann fjölmörg boð um að taka þátt í sýningum víða um lönd. Nafnið Georg Jensen var orðið þekkt.
Georg Jensen var í upphafi með verkstæði sitt og verslun í miðborg Kaupmannahafnar en síðar á Austurbrú, skammt frá miðborginni. Þar vann fjöldi fólks, stofnandinn sinnti ekki lengur smíðinni en einbeitti sér að hönnun og rekstri.
Margir þekktir danskir listamenn hönnuðu einnig ýmsa gripi fyrir Georg Jensen. Sérverslanir með vörur frá verkstæðinu í Kaupmannahöfn voru, á fyrstu áratugum liðinnar aldar, opnaðar víða í Evrópu. Fyrirtækið lenti þó í ýmis konar hremmingum, fjárhagslega, en þegar Georg Jensen lést árið 1935 var það orðið þekkt um allan heim og stóð traustum fótum. Strákurinn frá Raadvad (eins og Georg kallaði sig stundum) sem í fyrstu dreymdi um að verða myndhöggvari var í lifanda lífi orðinn meðal þekktustu silfursmiða heims og þannig er það enn þótt liðin séu 82 frá dauða hans. Georg Jensen hlotnuðust margar viðurkenningar vegna starfa sinna og verk hans er að finna á öllum þekktustu listiðnaðarsöfnum heims. Smíðisgripir meistarans sjálfs seljast fyrir háar fjárhæðir á uppboðum.
Sviptingar
Þegar Georg Jensen lést var fyrirtækið að mestu í eigu fjölskyldunnar. Starfsemin hélt áfram, þótt stofnandans nyti ekki lengur við, reksturinn gekk vel, nýir hönnuðir komu til sögunnar en hin „sígilda“ hönnun Georgs og samstarfsfólks hans var áfram til sölu og þannig er það enn. Á síðustu áratugum hafa orðið miklar breytingar í fyrirtækjarekstri í Danmörku, eins og víðar. Margir þekktustu framleiðendur landsins, ekki síst þeir sem framleiða húsbúnað hafa lent í miklum ólgusjó, sum lagt upp laupana en önnur sameinast og þannig tekist að halda sjó.
Árið 1972 keypti Konunglega postulínsverksmiðjan Georg Jensen fyrirtækið og þremur árum síðar glerverksmiðjuna Holmegaard, þá var nafni Konunglega breytt í Royal Copenhagen. Postulínsframleiðandinn Bing & Gröndahl sameinaðist Royal Copenhagen árið 1987, sem síðar keypti hið sænska Orrefors Kosta Boda. Danska fjárfestingafélagið Axcel eignaðist stærstan hluta Royal Copenhagen árið 2001. Georg Jensen fyrirtækið reyndist ekki sá gullkálfur sem Axcel hafði vonast eftir og fjárfestingafélagið varð að leggja nokkur hundruð milljónir danskra króna til rekstrarins.
Georg Jensen selt til Barein
Árið 2012 seldi Axcel Georg Jensen (með manni og mús eins og forstjórinn komst að orði) til Investcorp, fjárfestingafélags í Barein. Stjórnendur Investcorp höfðu háar hugmyndir, ætluðu að tvöfalda veltuna innan fimm ára, horfðu þar einkum til Asíu. Nýju eigendurnir vörðu miklu fé í kynningarstarfsemi og hönnun nýrra hluta. Þetta hefur ekki skilað auknum tekjum, sem neinu nemi, og Investcorp hefur orðið að leggja mikið fé til rekstrarins.
Nýr forstjóri
Í ársbyrjun 2016 settist Eva-Lotta Sjöstedt í forstjórastólinn hjá Georg Jensen. Hún hafði meðal annars verið framkvæmdastjóri hjá IKEA og eigendur Georg Jensen bundu miklar vonir við hana. Þær vonir rættust ekki og fyrir nokkrum dögum fékk hún reisupassann en í forstjórastólinn settist Ítalinn Francesco Pesci. Hann hefur setið í stjórn Georg Jensen í tæpt ár og gegnt formennsku í nokkra mánuði. Nýi forstjórinn segist þess fullviss að Georg Jensen muni rétta úr kútnum, það taki auðvitað tíma en muni takast.
Hvað hefur farið úrskeiðis og hvað ætlar þú að gera?
Þessa spurningu lögðu danskir blaðamenn fyrir nýja forstjórann þegar tilkynnt var um forstjóraskiptin. Francesco Pesci svaraði því til að einhverra hluta vegna höfði vörur fyrirtækisins ekki til ungs fólks í sama mæli og áður. „Á síðustu árum hefur framboð á listmunum og skartgripum aukist gífurlega og kannski er það nýjungagirni sem veldur því að okkar vörur seljast ekki jafn vel og áður,“ sagði forstjórinn. Hann sagði að salan í Asíu hefði ekki aukist eins og vonast var til, þar væri meiri eftirspurn eftir skartgripum úr gulli. „Okkar vörur eru ekki þær réttu fyrir þann markað,“ sagði forstjórinn. Hann vildi ekki segja meira um hugmyndir sínar varðandi reksturinn en sagði að þrátt fyrir „tímabundna erfiðleika“ stæði Georg Jensen traustum fótum. „Það hefur áður verið mótvindur en svo breytist vindáttin og þá kemur vindur í seglin.“