Fulltrúar flokkanna fjögurra, sem nú reyna stjórnarmyndun, hafa unnið að gerð stjórnarsáttmála um helgina. Þá hafa þeir einnig rætt verkaskiptingu og ráðherraskipan. Búist er við því að ákvörðun verði tekin á morgun um hvort að myndun stjórnarinnar verði eða ekki. Þeir sem taka þátt í viðræðunum, formenn og hluti þingmanna flokkanna, funduðu með þingflokkum sínum í hádeginu í dag til að fara yfir stöðu mála. Eftir að þeim fundum lauk var haldið áfram að funda um myndun ríkisstjórnar og við gerð stjórnarsáttmála.
Flokkarnir fjórir eru Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkur og Píratar. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verður næsti forsætisráðherra ef flokkarnir fjórir ná að klára viðræður sínar með jákvæðri niðurstöðu. Hún fékk stjórnarmyndunarumboð hjá forseta Íslands á fimmtudag og síðan þá hafa formlegar viðræður staðið yfir. Fyrst fór þær fram á heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Hrunamannahreppi. Þar var fundað á föstudag. Vinnunni var síðan haldið áfram í Reykjavík um helgina.
Formenn flokkanna funda í kvöld til að fara yfir stöðu viðræðnanna. Katrín sagði við RÚV að hún ætti ekki von á því að úrslit stjórnarmyndunarviðræðnanna ráðist á fundinum í kvöld en sagði að þar myndu viðsemjendur fara eins langt og hægt væri. Hún sagði enn fremur að það yrði að verða orðið ljóst á morgun hvort flokkarnir mynda saman stjórn eða ekki.
Áhersla lögð á stóru málin
Málefnalega hefur gengið vel að ná saman um þá hluti sem flokkarnir eru sammála um. Þ.e. útgjaldaaukningu í heilbrigðismál, stórsókn í menntamálum og mikla innspýtingu í fjárfestingu í innviðum á borð við vegakerfið. Auk þess mun væntanleg ríkisstjórn setja jafnréttis- og loftlagsmál á oddinn, beita sér fyrir því að skapa aukna samstöðu um mál og beita sér fyrir breyttum vinnubrögðum á Alþingi.
Á laugardag fór mikill tími í að ræða um þær kjaraviðræður sem framundan eru á vinnumarkaði ásamt því að ræða um kjör aldraðra og öryrkja.
Fyrir liggur að Framsóknarflokkurinn vill fara í gagngerar breytingar á fjármálakerfinu og viðmælendur Kjarnans segja að það sé ófrávíkjanleg krafa að hálfu flokksins. Þá vill flokkurinn fara í aðgerðir til að draga verulega úr vægi verðtryggingar. Ekki er talið að þau mál verði gerð að frágangssök að hálfu hinna flokkanna.
Píratar munu þurfa trúverðuga niðurstöðu í stjórnarskrármálum til að bakland flokksins muni geta sætt sig við stjórnarþátttöku og er unnið að lausn á því máli. Þó liggur fyrir að tillögur stjórnlagaráðs verða ekki óbreyttar grunnur að nýrri stjórnarskrá hjá þessari ríkisstjórn.
Evrópumál hafa í raun verið afgreidd með því að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt opinberlega að flokkurinn muni ekki setja það sem skilyrði í stjórnarmyndunarviðræðunum að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við Evrópusambandið á næsta kjörtímabili.
Viðreisn boðar málefnalega stjórnarandstöðu
Náist að klára myndun ríkisstjórnarinnar þá mun meirihlutinn verða skipaður 16 konum og 16 körlum. Katrín Jakobsdóttir verður nær örugglega forsætisráðherra og aðrir formenn eða ígildi formanns, Sigurður Ingi Jóhannsson, Logi Einarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, myndu sitja í stjórninni.
Þá má telja nær öruggt að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, muni taka sæti í ríkisstjórninni en óljósara er hverjir úr hinum flokkunum myndu gera það. Ráðuneytisskipting hefur þegar verið reifuð á óformlegum fundum flokkanna en ekkert liggur endanlega fyrir í þeim málum. Engum dylst þó að Lilja Alfreðsdóttir hefur mikinn áhuga á að verða fjármálaráðherra.
Þá hafa Píratar þá stefnu að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi. Við þá stefnu verður staðið. Því munu þeir þingmenn Pírata sem setjast í ríkisstjórn segja af sér þingmennsku og varamenn þeirra taka við sem þingmenn.
Í stjórnarandstöðu yrðu fjórir flokkar: Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Viðreisn. Af þeim 31 þingmanni sem yrði í andstöðu yrðu átta konur og 23 karlar.
Viðreisn væri eini flokkurinn í stjórnarandstöðu sem væri með jafnt kynjahlutfall. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur þegar boðað annars konar stjórnarandstöðu en tíðkast hefur hérlendis. Hún hefur sagt að sér lítist ágætlega á þá ríkisstjórn sem verið sé að mynda. Flokkur hennar muni stunda málefnalega stjórnarandstöðu og styðja ríkisstjórnina í góðum verkum. Viðreisn muni hins vegar ekki veita ríkisstjórninni hlutleysi.