Mikill póker er nú leikinn í stjórnarmyndunarviðræðum. Mestar líkur eru taldar á því að ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verði mynduð eins og staðan er í dag. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur hins vegar gert viðmælendum sínum það algjörlega skýrt að í slíkri stjórn yrði hún að vera forsætisráðherra. Það er ófrávíkjanleg krafa sem verður að mæta áður en byrjað yrði að ræða um málefni. Næsta ríkisstjórn þurfi leiðtoga sem kljúfi ekki þjóðina.
Sú krafa hefur ekki hlotið góðan hljómgrunn hjá Sjálfstæðisflokknum sem þykir eðlilegt að Bjarni Benediktsson, formaður hans, verði áfram forsætisráðherra í ljósi þess að flokkurinn er stærsti flokkur landsins. Ef til greina kæmi að gefa eftir forsætisráðuneytið myndi Sjálfstæðisflokkurinn fara fram á aukið vægi ráðuneyta í nýrri stjórn í sárabætur.
Það liggur þó fyrir að Katrín nýtur stuðnings Framsóknarflokks, Samfylkingar, og Viðreisnar sem næsti forsætisráðherra umfram Bjarna. Pírötum hugnast einnig mun frekar að Katrín verði forsætisráðherra en Bjarni, þótt að þeir styðji ekki allar tegundir stjórna sem hún gæti leitt. Þeir eru sérstaklega mótfallnir ríkisstjórn sem inniheldur Sjálfstæðisflokkinn. Því er meirihluti þingmanna á bak við það að Katrín leiði næstu ríkisstjórn frekar en Bjarni.
Viðmælendur Kjarnans telja að enn sé unnið að hálfu Vinstri grænna að koma á mögulegri ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki þar Samfylkingin myndi koma í stað Framsóknarflokks. Nokkur ljón eru þar í veginum, sérstaklega það að Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, og Bjarni Benediktsson hafa aldrei rætt saman um mögulegt samstarf og þekkjast lítið sem ekkert. Ólíklegt er talið að báðar þessar kröfur Vinstri grænna, að fá forsætisráðuneytið og Samfylkinguna inn í ríkisstjórn, muni fást uppfylltar.
Þriðja mögulega stjórnin sem hefur verið rædd undanfarna daga er stjórn gamla fjórflokksins. Þ.e. Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Lítill sem enginn áhugi er sagður á þeirri stjórn innan Samfylkingarinnar. Þar er hins vegar vilji til að kanna að taka Viðreisn inn í slíka stjórn í stað Framsóknarflokksins.
Enn vonast eftir stjórnarandstöðustjórn
Ef forseta Íslands verður ekki tilkynnt um mögulegar stjórnarmyndunarviðræður í á næstu dögum er allt eins búist við því að hann láti Bjarna Benediktsson fá stjórnarmyndunarumboðið og leyfi honum að spreyta sig við myndun stjórnar.
Það fjölgar þó ekkert möguleikunum sem eru í stöðunni eins og hún er í dag. Líkt og Kjarninn greindi frá í gær þá telja nær allir viðmælendur hans að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins, sem er oftast kölluð „Moggastjórnin“ sökum áhuga Morgunblaðsins á myndun hennar, ekki talin raunhæfur möguleiki. Myndun hennar sé hótun sem notuð sé í þeim póker sem nú sé spilaður við stjórnarmyndunarborðið. En aðrir flokkar virðast ætla að sjá í gegnum þá hótun og láta reyna á alvarleika hennar í stað þess að gefa eftir kröfur sínar til þess að stöðva myndun „Moggastjórnarinnar“.
Fyrir liggur að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur ekki áhuga á að vinna með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, eftir allt sem á undan hefur gengið þeirra á milli. Hann sagði við mbl.is í fyrradag að hann væri ekki spenntur fyrir ofangreindri samsetningu á ríkisstjórn. Hann hafi „lagt áherslu á að ríkisstjórn í landinu, til að búa til pólitískan stöðugleika, þurfi breiðari skírskotun. Ég get ekki séð að hún myndi svara því kalli.“
Þetta er afstaða sem formenn annarra flokka á miðju- og vinstri væng stjórnmálanna deila. Breið skírskotun og stöðugleiki felist ekki í því að leiða tvo umdeildustu stjórnmálamenn þjóðarinnar, Sigmund Davíð og Bjarna, saman í ríkisstjórn að nýju.
Innan Samfylkingar og Pírata er enn mikill vilji til þess að endurvekja viðræður núverandi stjórnarandstöðuflokka sem sigldu í strand á mánudag vegna afstöðu Framsóknarflokks gagnvart þeim, jafnvel með aðkomu Viðreisnar. Hvorki Vinstri græn né Framsóknarflokkurinn hafa haft áhuga á endurvakningu þess samtals, að minnsta kosti ekki í bili.
Pattstaðan í íslenskum stjórnmálum heldur því áfram.