Það gerist sannarlega ekki á hverjum degi að norræn sjónvarpsstöð fái milljarða sekt. Danska sjónvarpsstöðin TV2 fékk fyrir nokkrum dögum sekt, sem gæti numið jafngildi 45 milljarða íslenskra króna. Ef svo færi að sjónvarpsstöðin yrði að greiða sektina færi hún í þrot.
Danir ættu ekki að vera í vandræðum með að finna eitthvað við sitt hæfi þegar þeir setjast fyrir framan heimilisaltarið, einsog sumir kalla sjónvarpið. Að minnsta kosti þrjátíu stöðvar eru í boði, sumar mjög sérhæfðar, aðrar svæðisbundnar. Tvær sjónvarpsstöðvar draga til sín langflesta áhorfendur. Annars vegar DR, Danmarks Radio, eins og það heitir fullu nafni og hins vegar TV2. Þessar tvær stöðvar, báðar í ríkiseigu, reka hvor um sig nokkrar sjónvarprásir þarsem allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. DR var stofnað árið 1925, hét þá Statsradiofonien og var, eins og nafnið gefur til kynna, útvarpsstöð. Eitthvað sem hét sjónvarp var ekki til. Sjónvarpsútsendingar DR hófust árið 1951 og voru fram til árins 1967 í svart hvítu (sauðalitunum). Þetta var löngu fyrir daga þeirrar tækni sem við þekkjum í dag: ef Danir vildu t.d. sjá sjónvarpsfréttirnar urðu þeir að vera sestir í sófann klukkan 18.30, það voru engir möguleikar til að sjá efnið eftir á, enginn sarpur og þvíumlíkt!
TV2 kemur til sögunnar
Þótt Danir væru almennt (samkvæmt könnunum) mjög sáttir við DR urðu þær raddir háværari með árunum sem þótti óeðlilegt að í landinu væri einungis eitt fyrirtæki, eða stofnun, sem sæi landsmönnum fyrir öllu sjónvarpsefni, og einnig nánast öllu útvarpsefni. Stjórnmálamönnum, hvar í flokki sem þeir stóðu, þótti sjónvarpið iðulega draga taum andstæðinganna í umfjöllun sinni, þessi umræða er enn til staðar og reyndar hreint ekki einskorðuð við Danmörku. Danska þingið, Folketinget, samþykkti árið 1986 lög um starfsemi sjónvarpsstöðvar, sem fékk síðar nafnið TV2. Strax eftir að lögin voru samþykkt hófst undirbúningur starfseminnar. Ákveðið var að höfuðstöðvar TV2 skyldu vera í Óðinsvéum á Fjóni. Það var skilyrði margra þingmanna fyrir stuðningi við frumvarpið að þessi nýja sjónvarpsstöð yrði vestan Stórabeltis, með því næðist ákveðið mótvægi við DR sem er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn. Hins vegar var ljóst að allra hluta vegna yrði TV2 að vera með starfsstöð í höfuðborginni og ennfremur á Jótlandi, þar urðu Árósar fyrir valinu.
Afnotagjald og auglýsingar
Í lögunum um TV2 var áskilið að fyrirtækið yrði að stórum hluta fjármagnað með auglýsingatekjum en fengi einnig hluta þess afnotagjalds sem DR innheimtir árlega. Afnotagjaldið, sem bundið er í lögum, miðast við heimili, fjöldi heimilismanna skiptir ekki máli, upphæðin ætíð sú sama. Verslanir og fyrirtæki höfðu árum saman hamrað á mikilvægi þess að hægt yrði að auglýsa í sjónvarpi, lang sterkasta fjölmiðli landsins, en slíkt var ekki í boði hjá DR, lögum samkvæmt. Í lögunum um TV2 var miðað við að sá hluti afnotagjaldsins sem kæmi í hlut stöðvarinnar færi til reksturs fréttastofu, annað yrði fjármagnað með auglýsingatekjum. Ekki var gert ráð fyrir að TV2 annaðist framleiðslu sjónvarpsefnis, það yrði keypt af sjálfstæðum framleiðendum.
Afnotagjaldið er, eins og áður sagði, bundið við heimili, ekki fjölda íbúa. Árið 2017 er gjaldið kr. 2.492.- (tæplega 41 þúsund íslenskar), með söluskatti sem nemur tæpum 500 krónum. DR fær í sinn hlut kr. 1661.- (ca. 27.000 íslenskar) TV2 fær kr. 231.- (ca 3.800 íslenskar) sem renna í dag óskiptar til landshlutastöðva TV2. Afgangurinn rennur til minni útvarps- og sjónvarpsstöðva og ýmissa verkefna.
Yngri en 18 ára, sem eru með lögheimili í foreldrahúsum, eru undanþegnir gjaldinu. Eftirlaunafólk getur, samkvæmt tilteknum reglum, sótt um lækkun, eða niðurfellingu, gjaldsins.
Kæmpelæk skulle være af en sådan størrelse, at det får de ellers berømte 'Panama Papers' til at blegne.https://t.co/2KNIjsYj2Q
— TV 2 Breaking | LIVE (@tv2breaking) November 5, 2017
Meiri áhersla á léttara efni
Stjórnendur TV2 lögðu frá upphafi áherslu á að vera ,,léttari“ sjónvarpsstöð en DR. Einkunnarorðin væru ,, í þjónustu fólksins“ frekar en ,,í þjónustu samfélagsins“ sem voru einkunnarorð DR. Á þeim 29 árum sem liðin eru frá stofnun TV2 hefur margt breyst. Framboð sjónvarpsefnis orðið margfalt meira og möguleikarnir til að sjá og heyra sömuleiðis. DR og TV2 eru í dag risarnir á dönskum sjónvarpsmarkaði og segja má að milli þeirra ríki ákveðið jafnræði og hvor sjónvarpsstöð um sig sendir nú út á nokkrum rásum. DR hefur haft meiri burði, peningalega, til framleiðslu kostnaðarsamra þátta en jafnframt róið á ,,léttari“ mið. Á hinn bóginn hefur TV2 hreint ekki einskorðað sitt efnisval við ,,léttmeti“ og sé litið yfir dagskrá aðalsjónvarpsrása þessara tveggja stöðva er munurinn ekki ýkjamikill, en sé horft til allra rása er breiddin í efnisvali meiri hjá DR, enda rásirnar fleiri.
Hugmyndir um sölu TV2
Eftir að ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen (Venstre) tók við völdum árið 2001 lýsti stjórnin áhuga sínum á að einkavæða TV2. Ekkert varð þó úr þeim áformum en þess í stað gerður langtímasamningur við TV2 sem tryggði stöðinni ákveðið fjármagn (tiltekna prósentutölu afnotagjaldsins) en legði stöðinni jafnframt ákveðna skyldur á herðar (public-service forpligtelse). Hugmyndir um sölu og einkavæðingu TV2 hafa síðan að mestu legið í láginni, þangað til fyrir skömmu. Mette Bock menningarmálaráðherra hefur dustað rykið af hugmyndunum um sölu TV2 og að undanförnu margoft rætt þau mál sem hún fullyrðir að njóti stuðnings meirihluta á þinginu. En svo birtist skyndilega ljón (kannski væri réttara að segja fíll!) í veginum.
Sekt sem gæti riðið TV2 að fullu
Fyrir nokkrum dögum var greint frá því að Evrópudómstóllinn hefði kveðið upp úrskurð í máli sem árum saman hefur verið ,,í pípunum“.
Rekja má upphaf málsins til þess að dreifingarfyrirtækið SBS Broadcasting lagði, árið 2000, fram kvörtun til Framkvæmdastjórnar ESB vegna þess að TV2 hefði fengið styrk frá danska ríkinu. Styrk sem ekki samræmdist reglum ESB, upphæðin nam tæpum tveimur milljörðum króna. Mál þetta er mjög flókið og engin leið að gera því skil í stuttum pistli sem þessum en síðastliðinn fimmtudag kvað Evrópudómstóllinn í Luxemborg upp úrskurð sinn, úrskurð sem ekki verður áfrýjað. TV2 fékk á árunum 1995 – 2002 sérstakan styrk frá danska ríkinu. Það er í sjálfu sér ekki ólöglegt en brotið felst hinvegar í því að ESB var ekki tilkynnt um þennan styrk fyrirfram. Þótt mörgum kunni að finnast þetta lítilvægt lítur Evrópudómstóllinn ekki svo á. En þetta er ekki allt, dreifingarfyrirtækin Viasat og Discovery Network hafa fyrir löngu síðan höfðað mál, sem nú er fyrir Eystri- landsrétti í Kaupmannahöfn. Þessi tvö fyrirtæki krefjast tæpra tveggja milljarða danskra króna vegna réttindabrota TV2.
Hvað það verður veit nú enginn
Á þessari stundu veit enginn hvert framhaldið verður. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hvatt ríkisstjórnina til að leggja hugmyndir um sölu TV2 á hilluna en menningarmálaráðherrann sagði í sjónvarpsviðtali að risasektin breytti engu um þær fyrirætlanir. Ljóst er að TV2 ræður með engu móti við að greiða sektir og bætur, sem geta ef allt fer á versta veg, numið allt að fjórum milljörðum króna (ca. 65 milljörðum íslenskum). Vinni TV2 málið fyrir Eystri- landsrétti sleppur sjónvarpsstöðin við að borga Viasat og Discovery Network . Eftir stendur þá sekt Evrópudómstólsins, tveir milljarðar sem er upphæð sem TV2 ræður tæpast við. Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar eru bjartsýnir, ummæli framkvæmdastjórans í viðtali við danskt dagblað fóru hinsvegar fyrir brjóstið á mörgum þingmönnum ,,ríkið reddar okkur“.