Brooke Harrington hefur undanfarin átta ár búið í Danmörku og allan þann tíma verið prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, CBS. Hún er almennt álitin í hópi helstu sérfræðinga varðandi skattamál, einkum hvað varðar alls kyns undanskot og leiðir til að fela fjármuni í þeim afkimum heimsins sem iðulega eru nefndir skattaparadísir. Kunnátta hennar snýr að leiðum til að upplýsa og koma í veg fyrir skattalagabrot.
Vegna yfirburðaþekkingar sinnar á þessu sviði er Brooke Harrington mjög eftirsótt sem fyrirlesari og síðan hún flutti til Danmerkur, fyrir átta árum, hefur hún haldið ótal fyrirlestra, í háskólum, hjá stéttarfélögum, karla- og kvennaklúbbum, og fyrirtækjum.
Suma þessara fyrirlestra hefur hún þegið greiðslu fyrir, aðra ekki. Í ráðningarsamningi prófessora við Viðskiptaháskólann stendur að meðal starfsskyldna þeirra sé að miðla af þekkingu sinni til lærðra og leikra og Brooke Harrington hefur í viðtölum sagt að hún hafi lagt sig fram um að fara eftir þessu ákvæði í ráðningarsamningnum. Hún hefur reyndar ekki getað orðið við nema litlum hluta þeirra beiðna sem henni hafa borist „ég kemst einfaldlega ekki yfir nema brot af því sem ég er beðin um“.
Skatturinn og skattanefnd þingsins óskaði eftir fræðsluerindi
Fyrir nokkru fékk Brooke Harrington beiðni um að halda fræðsluerindi fyrir sérfræðinga dönsku skattstofunnar, Skat, og skattanefnd danska þingsins. Þeir sem fylgjast með dönskum fréttum vita að starfsfólki Skat veitir ekki af, í ljósi fréttaumfjöllunar síðustu ára, af allri þeirri fræðslu sem völ er á. Sama gildir um skattanefnd þingsins. Brooke Harrington brást vel við beiðninni og hélt fyrirlesturinn eins og um var samið og viðstaddir hafa síðan lýst í viðtölum að þeir hafi orðið margs vísari við að hlýða á prófessorinn.
Lögreglan lagði fram kæru
Þótt þeir sem hlýddu á áðurnefndan fræðslufyrirlestur væru ánægðir með það sem fyrirlesarinn hafði að segja verður ekki sama sagt um starfsfólk SIRI, sérdeildar innflytjendaráðuneytisins. Það var þó ekki fyrirlesturinn sem slíkur sem fór fyrir brjóstið á SIRI heldur það að prófessor Brooke Harrintgon skyldi halda fyrirlesturinn, án þess að hafa fengið til þess sérstakt leyfi. Hún má semsé ekki halda fyrirlestur fyrir þingmenn og sérfræðinga (og reyndar hvern sem er utan skólans) án þess að hafa til þess leyfi frá áðurnefndri sérdeild. Rétt er að taka fram að þessi regla gildir ekki um þennan eina prófessor, allir sem ráðnir eru til tiltekinna starfa í Danmörku, og fá landvistarleyfi sem slíkir, mega ekki starfa við annað en það sem leyfisveitingin nær til. Reglan nær ekki til borgara ESB ríkjanna og annarra íbúa evrópska efnahagssvæðisins, t.d. Íslendinga.
Kæran ekki einsdæmi
Kæran sem lögreglan lagði fram vegna fræðsluerindis Brooke Harrington er síður en svo einsdæmi. Í Danmörku starfa tugþúsundir útlendinga, sumir þeirra sérfræðingar, aðrir ekki. Við Kaupmannahafnarháskóla starfa til að mynda 700 sérfræðingar frá löndum utan Evrópusambandsins. Fyrir ári síðan fékk ástralski óbóleikarinn Rachel Bullin 33 þúsund króna sekt (um það bil 542 þúsund íslenskar) fyrir að hlaupa í skarðið hjá Sinfóníuhljómssveitinni í Kolding á Suður-Jótlandi. Koldingborg fékk jafnframt 80 þúsund króna sekt (um það bil 1,4 milljónir íslenskar). Verkfræðineminn Marius Yuobi frá Kamerún slapp ekki með sekt, honum hafði orðið það á að vinna 16 klukkutíma eina vikuna, við hreingerningar, en hafði aðeins leyfi fyrir 15 klukkustundum. Fyrir þetta brot var honum vísað úr landi. Það mál vakti mikla athygli og Marius Youbi kom aftur til Danmerkur nokkru síðar „ég fylgist vel með klukkunni þegar ég er í vinnunni“ sagði hann brosandi í viðtali við danskt dagblað.
Svona eru reglurnar segir ráðherrann
Mál Brooke Harrington hefur vakið mikla athygli í Danmörku. Kannski ekki síst vegna þess að brot hennar fólst í því að fræða háttsetta embættismenn, og þingmenn, um skattamál. Hún hefur eins og áður var getið haldið fjöldann af fyrirlestrum án þess að starfsfólk SIRI gerði athugasemdir. Fjölmiðlar hafa greint frá því að í sumum tilvikum hafi þeir sem báðu um fyrirlesturinn sótt um undanþáguna, stundum hafi hreint ekki verið sótt um slíkt og Brooke Harrington hefur stundum sjálf sótt um þetta sérstaka leyfi (umsóknin er á 19 síðum). Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála segist ánægð með að SIRI fólkið vinni sitt verk en hún telji sjálfsagt að gera breytingar á reglunum til að mæta því sem hún kallar „sérstök tilvik“.
Þingmenn krefjast breytinga
Fjölmargir þingmenn, þar á meðal Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra, hafa tjáð sig um Brooke Harrington málið, eins og það er kallað, og eru á einu máli um að reglurnar séu algjörlega út í hött. Lars Lökke hefur margoft, síðast í ræðu fyrir nokkrum dögum, talað um gagnsemi þess að við háskóla landsins starfi erlendir sérfræðingar sem jafnframt miðli af þekkingu sinni utan veggja skólanna. Mette Reissmann þingmaður Sósíaldemókrata sagði í blaðaviðtali að erlendir fræðimenn hefðu takmarkaðan áhuga á að koma til Danmerkur ef þeir vissu að þeir ættu á hættu að verða sektaðir og jafnvel reknir úr landi „det er helt ude i hampen, det er helt godnat“.