Eins og í lygasögu

Þekktur bandarískur prófessor hefur verið kærður fyrir að halda fræðslufyrirlestur hjá starfsfólki danska skattsins og skattanefnd danska þingsins. Þyngsta refsing við slíku broti er brottvísun úr landi.

Brooke Harrington.
Brooke Harrington.
Auglýsing

Brooke Harrington hefur undanfarin átta ár búið í Danmörku og allan þann tíma verið prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, CBS. Hún er almennt álitin í hópi helstu sérfræðinga varðandi skattamál, einkum hvað varðar alls kyns undanskot og leiðir til að fela fjármuni í þeim afkimum heimsins sem iðulega eru nefndir skattaparadísir. Kunnátta hennar snýr að leiðum til að upplýsa og koma í veg fyrir skattalagabrot.

Vegna yfirburðaþekkingar sinnar á þessu sviði er Brooke Harrington mjög eftirsótt sem fyrirlesari og síðan hún flutti til Danmerkur, fyrir átta árum, hefur hún haldið ótal fyrirlestra, í háskólum, hjá stéttarfélögum, karla- og kvennaklúbbum, og fyrirtækjum.

Suma þessara fyrirlestra hefur hún þegið greiðslu fyrir, aðra ekki. Í ráðningarsamningi prófessora við Viðskiptaháskólann stendur að meðal starfsskyldna þeirra sé að miðla af þekkingu sinni til lærðra og leikra og Brooke Harrington hefur í viðtölum sagt að hún hafi lagt sig fram um að fara eftir þessu ákvæði í ráðningarsamningnum. Hún hefur reyndar ekki getað orðið við nema litlum hluta þeirra beiðna sem henni hafa borist „ég kemst einfaldlega ekki yfir nema brot af því sem ég er beðin um“.

Skatturinn og skattanefnd þingsins óskaði eftir fræðsluerindi

Fyrir nokkru fékk Brooke Harrington beiðni um að halda fræðsluerindi fyrir sérfræðinga dönsku skattstofunnar, Skat, og skattanefnd danska þingsins. Þeir sem fylgjast með dönskum fréttum vita að starfsfólki Skat veitir ekki af, í ljósi fréttaumfjöllunar síðustu ára, af allri þeirri fræðslu sem völ er á. Sama gildir um skattanefnd þingsins. Brooke Harrington brást vel við beiðninni og hélt fyrirlesturinn eins og um var samið og viðstaddir hafa síðan lýst í viðtölum að þeir hafi orðið margs vísari við að hlýða á prófessorinn.

Auglýsing

Lögreglan lagði fram kæru

Þótt þeir sem hlýddu á áðurnefndan fræðslufyrirlestur væru ánægðir með það sem fyrirlesarinn hafði að segja verður ekki sama sagt um starfsfólk SIRI, sérdeildar innflytjendaráðuneytisins. Það var þó ekki fyrirlesturinn sem slíkur sem fór fyrir brjóstið á SIRI heldur það að prófessor Brooke Harrintgon skyldi halda fyrirlesturinn, án þess að hafa fengið til þess sérstakt leyfi. Hún má semsé ekki halda fyrirlestur fyrir þingmenn og sérfræðinga (og reyndar hvern sem er utan skólans) án þess að hafa til þess leyfi frá áðurnefndri sérdeild. Rétt er að taka fram að þessi regla gildir ekki um þennan eina prófessor, allir sem ráðnir eru til tiltekinna starfa í Danmörku, og fá landvistarleyfi sem slíkir, mega ekki starfa við annað en það sem leyfisveitingin nær til. Reglan nær ekki til borgara ESB ríkjanna og annarra íbúa evrópska efnahagssvæðisins, t.d. Íslendinga.

Kæran ekki einsdæmi

Kæran sem lögreglan lagði fram vegna fræðsluerindis Brooke Harrington er síður en svo einsdæmi. Í Danmörku starfa tugþúsundir útlendinga, sumir þeirra sérfræðingar, aðrir ekki. Við Kaupmannahafnarháskóla starfa til að mynda 700 sérfræðingar frá löndum utan Evrópusambandsins. Fyrir ári síðan fékk ástralski óbóleikarinn Rachel Bullin 33 þúsund króna sekt (um það bil 542 þúsund íslenskar) fyrir að hlaupa í skarðið hjá Sinfóníuhljómssveitinni í Kolding á Suður-Jótlandi. Koldingborg fékk jafnframt 80 þúsund króna sekt (um það bil 1,4 milljónir íslenskar). Verkfræðineminn Marius Yuobi frá Kamerún slapp ekki með sekt, honum hafði orðið það á að vinna 16 klukkutíma eina vikuna, við hreingerningar, en hafði aðeins leyfi fyrir 15 klukkustundum. Fyrir þetta brot var honum vísað úr landi. Það mál vakti mikla athygli og Marius Youbi kom aftur til Danmerkur nokkru síðar „ég fylgist vel með klukkunni þegar ég er í vinnunni“ sagði hann brosandi í viðtali við danskt dagblað.

Svona eru reglurnar segir ráðherrann

Mál Brooke Harrington hefur vakið mikla athygli í Danmörku. Kannski ekki síst vegna þess að brot hennar fólst í því að fræða háttsetta embættismenn, og þingmenn, um skattamál. Hún hefur eins og áður var getið haldið fjöldann af fyrirlestrum án þess að starfsfólk SIRI gerði athugasemdir. Fjölmiðlar hafa greint frá því að í sumum tilvikum hafi þeir sem báðu um fyrirlesturinn sótt um undanþáguna, stundum hafi hreint ekki verið sótt um slíkt og Brooke Harrington hefur stundum sjálf sótt um þetta sérstaka leyfi (umsóknin er á 19 síðum). Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála segist ánægð með að SIRI fólkið vinni sitt verk en hún telji sjálfsagt að gera breytingar á reglunum til að mæta því sem hún kallar „sérstök tilvik“.

Þingmenn krefjast breytinga

Fjölmargir þingmenn, þar á meðal Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra, hafa tjáð sig um Brooke Harrington málið, eins og það er kallað, og eru á einu máli um að reglurnar séu algjörlega út í hött. Lars Lökke hefur margoft, síðast í ræðu fyrir nokkrum dögum, talað um gagnsemi þess að við háskóla landsins starfi erlendir sérfræðingar sem jafnframt miðli af þekkingu sinni utan veggja skólanna. Mette Reissmann þingmaður Sósíaldemókrata sagði í blaðaviðtali að erlendir fræðimenn hefðu takmarkaðan áhuga á að koma til Danmerkur ef þeir vissu að þeir ættu á hættu að verða sektaðir og jafnvel reknir úr landi „det er helt ude i hampen, det er helt godnat“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar